Samkomutakmarkanir og börn

Skólar og íþróttafélög skipuleggja sitt fyrirkomulag til að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um takmarkanir á skólastarfi og samkomum, þ.m.t. fjöldatakmörkunum, fjölda og samgangi í rýmum og grímunotkun.

Þegar það á við er mikilvægt að forráðamenn barna dragi úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn ráðstöfunum sem eru í gangi.

Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

  • Ef hópaskipt er í skóla ættu skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ekki að vera í návígi utan skóla. Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf getur verið undanskilið þessu skv. gildandi reglum á hverjum tíma.
  • Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er hjálplegt að minna þau á það. Leikir ættu þá ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum.
  • Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim. Einnig áður en þau neyta matar.
  • Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Ef það á við eru fjölskyldur hvattar til að nýta sér tæknina eða jafnvel bréfaskriftir til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma.

Varðandi heimili með börn þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:

  • Ef hluti heimilsfólks er í sóttkví eftir ferðalag eða er skipað í sóttkví vegna nándar við tilfelli þarf allt heimilið að fara í sóttkví eða þeir sem ekki eru í sóttkví að fara annað um leið og sóttkví hefst. Mögulega gæti annað foreldri verið í sóttkví með barni en hitt foreldrið þarf þá tímabundið að fara annað. Sama á við önnur börn á heimilinu sem ekki er skipað í sóttkví. Foreldri með barni í sóttkví vegna nándar við tilfelli þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun til að stytta sóttkví í 7 daga úr 14 dögum. Það er nóg að barnið sé skráð í sóttkví og fari í sýnatöku.

Fyrst birt 19.11.2020
Síðast uppfært 09.04.2021

<< Til baka