Upplýsingar um kvörtun einstaklinga eða aðstandanda til embættis landlæknis

Kvörtun getur verið vegna meintrar vanrækslu, mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu eða meintrar ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanna.

Inngangur

Embætti landlæknis vekur athygli á því að gerður er greinarmunur á kvörtun vegna veittrar heilbrigðisþjónustu og athugasemdum almennings við þjónustu heilbrigðisstofnana. Vilji einstaklingur eða aðstandandi gera athugasemd vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun er rétt að beina athugasemd þess efnis til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar, sbr. 28. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Með heilbrigðisstofnun er átt við hvers kyns heilsugæslu, almenna og sérhæfða sjúkrahússþjónustu, sjúkraflutninga, hjálpartækjaþjónustu og þjónustu heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga, sbr. 3. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Oft getur fremur átt við að koma á framfæri athugasemd vegna þjónustu en að leggja fram kvörtun á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Í samræmi við 4. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga ber heilbrigðisstofnun / heilbrigðisstarfsfólki skylda til þess að veita einstaklingum skrifleg svör við athugasemdum þeirra án óhæfilegs dráttar.

Kvörtun til embættis landlæknis

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 er embættinu skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu. Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis ef talið er að vanræksla eða mistök hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu eða framkoma heilbrigðisstarfsmanna hafi verið ótilhlýðileg við sama tilefni, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Á vef landlæknis er að finna eyðublað fyrir kvörtun til landlæknis. Málshefjandi getur veitt aðstandanda eða öðrum aðila skriflegt umboð til að fara með mál sitt. Forráðamenn hafa heimild til að kvarta fyrir hönd ólögráða barna, en jafnframt er litið svo á að börn og ungmenni eigi sjálfstæðan rétt til kvörtunar.

Form- og efniskröfur kvörtunar

 • Kvörtun á að vera skrifleg og undirrituð af málshefjanda eða þeim sem fengið hefur skriflegt umboð hans til þess og skal slíkt umboð fylgja kvörtun.
 • Kvörtunareyðublað er að finna á vef landlæknis og er bæði hægt að fylla út í tölvu eða prenta út og handskrifa.
 • Málavöxtum skal lýst nákvæmlega og kvörtunarefnið skilgreint. Mikilvægt er að upplýsingar um málsatvik og hlutaðeigendur (hvar, hvað, hvenær og hver) komi með skýrum hætti fram í kvörtun þannig að mögulegt sé að taka mál til rannsóknar.
 • Skrá yfir framlögð gögn skal fylgja með kvörtun og gögn merkt með raðnúmeri. Ef ekki er sjáanlegt blaðsíðutal á frumgögnum þá þarf að skoða eftir innskönnun, að gögn séu í réttri röð.
 • Framlögð gögn / skjöl þurfa að vera frumgögn á PDF formi, ljósrituð eða innskönnun í lit og í hárri upplausn svo þau sýni skýrt allar upplýsingar sem koma fram á frumgagninu.
 • Gögn / skjöl eiga að vera hornrétt á blaðinu þar sem ljóslestri er beitt við meðferð þeirra hjá embættinu.
 • Afrit af sjúkraskrá skulu innihalda öll eyðublöð, nótur, rannsóknaniðurstöður og færslur sem viðkoma atviki, þar með talið handskrifuð blöð, vottorð, myndir o.s.frv. Til að mynda skulu öll sjúkraskrárgögn sem tilheyra legu/meðferð/skurðaðgerð fylgja, þar með talið hjúkrunarskráningar, samþykkiseyðublað, skráning íhluta, skráning „time-out", atvikaskráning og svo framvegis.
 • Allar síður skjala skulu fylgja með innsendum gögnum jafnvel þótt aðeins sé vísað/vitnað í hluta þeirra.
 • Mikilvægt er að framlögð gögn hafi þýðingu við rannsókn málsins í samræmi við hlutverk landlæknis líkt og því er lýst í lögum um landlækni og lýðheilsu.
 • Ef ekki er hægt að uppfylla ofanskráð eða gögnum sleppt, skal þess getið með skýringum.
 • Óskýrum/ólæsilegum/ófullkomnum afritum gagna verður eftir atvikum hafnað nema sendandi veiti fullnægjandi útskýringar á að betri afrit sé ekki hægt að útvega.
 • Álitsgjöf embættisins er kvartanda að kostnaðarlausu og ekki er nauðsynlegt að leita aðstoðar þriðja aðila, eins og lögfræðings, nema ef kvartandi telur sér ekki fært að annast málið sjálfur eða telur hagsmunum sínum betur borgið með slíkri aðstoð.
 • Ef kvartandi treystir sér ekki til þess að fylla út kvartanaeyðublað embættisins er hægt að leita upplýsinga og fá aðstoð í síma 510 1900.
 • Heimilisfang embættis landlæknis er Katrínartún 2, 105 Reykjavík. Netfang er mottaka@landlaeknir.is. Móttakan er opin virka daga frá kl. 10-16.

Málsmeðferð kvörtunarmála

Um málsmeðferð kvörtunarmála fer eftir atvikum samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1003. Rannsókn fer fram á sviði eftirlits og gæða heilbrigðisþjónustu og er í höndum þverfaglegs teymis sérfræðinga. Þá hafa lögfræðingar embættisins aðkomu að málsmeðferð á öllum stigum rannsóknarinnar.

Meðferð kvörtunarmála skiptist í nokkra megináfanga:

 1. Móttaka, greining.
 2. Beiðni til aðila um greinargerð og gögn.
 3. Frumrannsókn málsatvika.
 4. Gagnakynningar til málsaðila.
 5. Eftir atvikum er fengin umsögn óháðs sérfræðings.
 6. Heildarmat, ritun og rýni álits.
 7. Álit landlæknis kynnt aðilum.

Í ákveðnum tilvikum leiða niðurstöður mála til frekari eftirfylgdar af hálfu embættisins á grundvelli II. og III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu er kveða á um eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Málshefjendur eru ekki aðilar að eftirlitsmáli.

Nánari lýsing á málsmeðferð og úrvinnsluferli kvörtunar

 • Eftir að erindi berst embætti landlæknis er því úthlutað málsnúmer og sérfræðingar embættisins taka til umfjöllunar fyrirliggjandi álitaefni, m.a. er kannað hvort erindið uppfylli skilyrði 2. - 4. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 til kvörtunar. Í kjölfarið er málið sett í viðeigandi ferli.
 • Málshefjanda eða umboðsmanni hans er sent móttökubréf. Í bréfinu kemur m.a fram málsnúmer kvörtunar sem mikilvægt er að vísa til í samskiptum varðandi málið.
 • Þeim aðila-/um sem kvörtun beinist að (heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstarfsmanni) er sent bréf með upplýsingum um að kvörtun hafi borist, ásamt afriti af kvörtun og fylgigögnum. Í bréfinu er jafnframt óskað eftir greinargerð-/um viðkomandi og tengdum málsaðilum sem gætu aðstoðað við rannsókn málsins. Veittur er tiltekinn frestur til svara.
 • Greinargerðir og svör aðila eru kynnt málshefjanda sem fær tækifæri til þess að koma að athugasemdum sínum innan uppgefins frests.
 • Þegar gögn ásamt athugasemdum hafa verið kynnt málsaðilum er það metið, í ljósi fyrirliggjandi gagna og eðli máls, hvort þörf sé á að leita umsagnar óháðs sérfræðings. Þegar þess er þörf er umsögn óháðs sérfræðings kynnt málsaðilum sem fá tækifæri á að koma að sínum sjónarmiðum, sem eftir atvikum eru kynnt óháðum sérfræðingi og hans sjónarmiða óskað varðandi framkominna athugasemda.
 • Þegar rannsókn er lokið og mál telst nægjanlega upplýst er álit landlæknis ritað.
 • Lögfræðingur embættisins og landlæknir fá öll álit til rýni og samþykkis.
 • Undirritað álit landlæknis ásamt fylgibréfum er sent málsaðilum.
 • Faglegt mat og læknisfræðileg niðurstaða landlæknis er ekki kæranleg, en heimilt er skv. 6. mgr. 12. gr. laganna að kæra málsmeðferð landlæknis til heilbrigðisráðherra. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðila máls berst álit landlæknis.

Mikilvæg atriði sem þarf aðhafa í huga varðandi kvörtun til landlæknis

Álit landlæknis er trúnaðarmál og er ekki gert aðgengilegt öðrum en aðilum málsins og umboðsmönnum þeirra.

Málsmeðferð kvörtunarmála er tímafrekt ferli, m.a. vegna gagnaöflunar og kynningarferlis. Rannsókn og málsmeðferð tekur að jafnaði um 6-24 mánuði.
Embætti landlæknis ákveður ekki miskabætur eða skaðabótaskyldu heldur einskorðast hlutverk landlæknis við að rannsaka og upplýsa um tildrög þess atviks sem kvörtun varðar og veita rökstutt, faglegt álit á því hvort um hafi verið að ræða mistök, vanrækslu og/eða ótilhlýðilega framkomu við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Kvörtun skal borin fram við embætti landlæknis án ástæðulauss dráttar. Séu meira en tíu ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar hefur embættið rétt til að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með að kvörtun sé tekin til meðferðar.

 


Fyrst birt 11.11.2020

<< Til baka