Vinnusóttkví - Leiðbeiningar fyrir atvinnurekendur

Ef brýn þörf er á að tryggja áframhaldandi starfsemi eða vinna verkefni sem ekki er hægt að fresta er mögulegt að sækja um vinnusóttkví fyrir starfsfólk sem kemur erlendis frá. Þetta á einungis við ef mögulegt er að uppfylla nauðsynlegar sóttvarnarráðstafanir samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis.

Almennt geta verktakar ekki sótt um vinnusóttkví fyrir sig sjálfa. Verkkaupi sækir um þar sem hann ber ábyrgð á aðstæðum á vinnustað og hefur yfirsýn yfir aðra þá sem þurfa að vera á starfsstöð.

Erlendir aðilar sem sækja um vinnusóttkví skulu gera það í gegnum íslenska samstarfsaðila eða umboðsaðila.

Vinnusóttkví fæst ekki fyrir einstaklinga sem eru í sóttkví vegna návígis við COVID-19 veikan einstakling.

Skilyrði fyrir vinnusóttkví

 1. Brýn þörf er fyrir vinnuframlagi viðkomandi starfsmanns að mati yfirmanna til að tryggja áframhaldandi starfsemi sem aðrir starfsmenn geta ekki sinnt.
 2. Að neikvæð niðurstaða skimunar liggi fyrir áður en starfsmaður mætir á vinnustað.
 3. Tryggt sé að almennum reglum um sóttvarnir í sóttkví og vinnusóttkví sé fylgt sem og sérsniðnum reglum sem hæfa aðstæðum eftir verkefnum.
 4. Upplýsingaskylda er til allra sem málið varðar.

Umsækjendur um vinnusóttkví fyrir starfsfólk/verktaka sem kemur erlendis frá eru ábyrgir fyrir að aðstæður á vinnustað uppfylli sóttvarnarreglur og að sjá til þess að starfsfólk fari eftir tilskyldum sóttvarnarreglum. Í því felst:

Upplýsingaskylda

 1. Tryggja að stjórnendur séu upplýstir um að starfsfólk þeirra muni umgangast fólk í sóttkví og að þeir hafi gefið leyfi fyrir því. Þeir þekki sóttvarnarreglur samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis, enda eru starfsmenn á þeirra ábyrgð.
 2. Tryggja að allir þjónustuaðilar á gististað, vinnustað og vegna samgangna hafi vitneskju um aðila í sóttkví.
 3. Upplýsa annað starfsfólk á starfsstöð um að á svæðinu er fólk í sóttkví og kynna fyrir því leiðbeiningar um sóttvarnarreglur í vinnusóttkví.
 4. Sjá til þess að upplýsa embætti sóttvarnarlæknis um alla þá sem skal skrá í vinnusóttkví sem og alla þá sem munu umgangast fólk í vinnusóttkví.

Framkvæmd

 1. Tryggja skal aðstæður starfsfólks í vinnusóttkví, svo sem gistingu í sér herbergjum með sér salernum og sér aðstöðu til að matast og að nauðsynleg aðföng berist, sbr. hreinlætisvörur, matvæli og aðrar nauðsynjavörur. Á vinnustað þarf að vera sér aðstaða til að matast og hvílast sem og sér salerni.
 2. Geyma skal allar eigur eða búnað þess sem er í sóttkví í vistarverum hans en ekki í anddyri eða öðrum sameiginlegum rýmum húsnæðis.
 3. Takmarka þarf aðgang að sameiginlegum rýmum eins og kostur er og skal sá sem er í vinnusóttkví gæta þess að forðast að snerta það sem aðrir nota í sameiginlegum rýmum nema það sé sótthreinsað strax á eftir, sbr. hurðarhúnar, ljósrofar o.þ.h.
 4. Fólk í vinnusóttkví skal halda sig á fyrirfram skilgreindri starfsstöð á meðan á vinnusóttkví stendur og skal ekki ganga um vinnustað á meðan annað starfsfólk er að störfum. Ónauðsynlegar sýnisferðir um vinnustað eru óæskilegar á meðan á vinnusóttkví stendur.
 5. Fundahald með fólki í vinnusóttkví er að öllu jöfnu óæskilegt. Ef hjá því verður ekki komist skal upplýsa alla fyrirfram sem boðaðir eru til fundarins um einstakling í vinnusóttkví og fá heimild frá yfirmönnum þeirra. Gæta skal þess að fundarrými sé nógu stórt til að mögulegt sé að virða gildandi nálægðarmörk milli fundarmanna og að a.m.k. 2 metrar skulu vera milli sendinefndar sem er í sóttkví og þeirra sem eru ekki í sóttkví. Rýmið skal vera vel loftræst og með góða hljóðvist svo fundarmenn þurfi ekki brýna raustina. Andlitsgrímur og sótthreinsiefni verði tiltæk á fundinum. Tryggja skal að fundarfólk í sóttkví deili ekki borðbúnaði með öðrum og hafi aðgang að sér aðstöðu til að matast, hvílast og sér salerni. Þá skulu þjónustuaðilar vera upplýstir um sóttkví.
 6. Fólk í vinnusóttkví er ekki heimilt að umgangast almenna borgara á förnum vegi eða að fara á veitingastaði eða kaffihús. Ganga skal með andlitsgrímur og sótthreinsa hendur og snertifleti ef farið er um almenningsrými og dvelja þar eins stutt og verða má.
 7. Tryggja skal öruggan ferðamáta starfsfólks í vinnusóttkví. Ekki er leyfilegt að fólk í vinnusóttkví noti almenningssamgöngur, t.d. áætlunarflug innanlands eða strætisvagna, en leyfilegt er að nota bílaleigubíla eða leigubíla að því tilskyldu að tilkynnt sé um sóttkví um leið og bíll er pantaður. Ef farið er um langan veg skal forðast að staldra við þar sem fólk kemur saman.

Ef nauðsynlegt er að fara um borð í ferju skal upplýsa fyrirtækið um vinnusóttkví.

Almennar sóttvarnir við vinnu

 1. Viðkomandi skal fara í PCR sýnatöku við komu til landsins. Ekki má hefja störf í vinnusóttkví fyrr en neikvæð niðurstaða fyrstu sýnatöku liggur fyrir.
 2. Ávallt skal virða gildandi nálægðarmörk bæði af starfsfólki í sóttkví sem og samstarfsfólki.
 3. Þjónustuaðilar skulu ávallt vera upplýstir um að viðkomandi er í sóttkví.
 4. Nota skal andlitsgrímur í almennum rýmum þar sem ekki er hægt að gæta nálægðarmarka svo sem á leið til og frá vinnu, ef viðkomandi þarf að fara um almenningsrými eða að taka leigubíl.
 5. Starfsmaður sinnir handhreinsun skv. grundvallarsmitgát að lágmarki fyrir og eftir umgengni um sameiginleg rými, fyrir og eftir notkun búnaðar á vinnustað, fyrir og eftir salernisferðir, fyrir og eftir neyslu matvæla. Ef hanskar eru notaðir við störf (vinnuhanskar eða einnota hanskar) þarf að sinna handhreinsun fyrir og eftir notkun hanska. Sjá leiðbeiningar um skynsamlega notkun hanska
 6. Utan vinnustaðar gilda almennar reglur um sóttkví.

Ef grunur vaknar um minnstu flensueinkenni má starfsmaður ekki mæta á vinnustað. Láta skal yfirmann vita, halda til í vistarverum sóttkvíar og hafa samband við heilsugæslu. Upplýsingar um einkenni og viðbrögð eru á covid.is.

Ef upp kemur smit falla skilyrði fyrir vinnusóttkví úr gildi, sá sýkti fer í einangrun og tengdir aðilar í sóttkví.

Ef upp kemst um brot á reglum um sóttkví við þessar aðstæður verður leyfi fyrir vinnusóttkví dregin til baka. Brot á sóttvarnalögum og reglum settum skv. þeim varða sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum, skv. 19. gr. laga nr. 19/1997.

Mat umsókna um vinnusóttkví

Sóttvarnalæknir metur hverja umsókn m.t.t. ofangreindra skilyrða og veitir samþykki fyrir vinnusóttkví ef lýsing á aðstæðum gefur til kynna að hægt sé að viðhafa sóttkví á starfsstöð og að efnislegum þörfum starfsfólks í vinnusóttkví verði sinnt á fullnægjandi hátt bæði á starfsstöð og gististað.

Starfsfólk í vinnusóttkví er tilgreint í umsóknum um vinnusóttkví og er skráð í rakningagrunn almannavarna.

Einstaklingar sem ekki eru í sóttkví og þurfa að vera í samskiptum við fólk í vinnusóttkví eru einnig skráðir sérstaklega hjá sóttvarnalækni til að auðvelda smitrakningu ef veikindi koma upp, sem og að tryggja upplýsingaskyldu vinnuveitenda gagnvart þeim.

Umsóknarferli fyrir vinnusóttkví

 1.  Kynnið ykkur ofangreinar reglur um vinnusóttkví og um heimasóttkví á vef landlæknis.
 2. Gætið þess að allar umbeðnar upplýsingar komi fram í umsóknareyðublaði og fyllið út gátlista um vinnusóttkví.
 3. Gefið greinargóða lýsingu á aðstæðum á vinnustað og gististað í rökstuðningi með umsókn.
 4. Sendið umsókn með tölvupósti til svl@landlaeknir.is merkt „Vinnusóttkví – (nafn fyrirtækis)." Umsókn skal vera á WORD.DOC formi. Rökstuðningur og gátlisti fylgi með í sama tölvupósti. Umsóknir sem eru útfylltar á ófullnægjandi hátt eða skilað á öðru formi en WORD.DOC eru ekki teknar til greina.
 5. Fulltrúi sóttvarnalæknis sendir umsækjanda svar með höfnun eða samþykki fyrir vinnusóttkví. Með samþykki fylgja leiðbeiningar sem skal senda áfram til starfsmanna í sóttkví sem og til þeirra sem verða í návígi við starfmenn í sóttkví.
 6. a Ef breytingar verða á komudegi, gististað eða starfsstöð starfsmanna í vinnusóttkví skal umsækjandi senda uppfærðar upplýsingar til sóttvarnalæknis.
  b Ef breytingar verða á mannafla skal senda nýja umsókn.

Upplýsingar um vinnusóttkví á ensku
Upplýsingar um vinnusóttkví á öðrum tungumálum
Upplýsingar um gildandi samkomutakmarkanir og nálægðarmörk
Reglugerð nr. 800/2020 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID 19
Reglugerð nr. 1051/2020 um takmörkum á samkomum vegna farsóttar.
Leiðbeiningar fyrir gististaði sem þjónusta fólk í sóttkví
Leiðbeiningar til veitinga- og gististaða

Listi yfir gististaði sem bjóða velkomna gesti sem dvelja í sóttkví

 


Fyrst birt 03.11.2020
Síðast uppfært 03.11.2020

<< Til baka