Leiðbeiningar fyrir almenning varðandi einangrun í heimahúsi

(Enska - Pólska - SpænskaLitháíska)

 

Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki ennþá veikur sjálfur.

Einangrun á við sjúklinga með einkenni smitandi sjúkdóms.

Heimild sóttvarnalæknis til að grípa til slíkra ráðstafana er að finna í 12. grein sóttvarnalaga. Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun um sóttkví eða einangrun skal beina til sóttvarnalæknis. Nánar um skyldu einstaklinga til að sæta sóttkví eða einangrun eða undirgangast sýnatöku vegna COVID-19 má lesa hér.

Sérstakar leiðbeiningar til viðbótar geta gilt um sóttvarnahús/sóttkvíarhótel.

Einangrun:

Einstaklingar sem eru með grun um eða staðfesta COVID-19 sýkingu sem ekki þurfa á sjúkrahúsdvöl að halda, skulu vera í einangrun í heimahúsi eða á stað sem almannavarnir og heilsugæsla á hverjum stað tilgreina. Einstaklingur sem er með staðfesta sýkingu af COVID-19 skal vera í einangrun í 7 daga frá greiningu.

 • Ítarlegar upplýsingar um smitleiðir og einkenni COVID-19 sýkingar má finna á vef embættis landlæknis og covid.is.
 • Smitleið er úða-, snerti- eða dropasmit. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða þurrkar sér um nefið og hraustur einstaklingur andar að sér úða eða fær framan í sig dropa/úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum/úða og hann ber þær svo upp að andliti sínu.
 • Ef samskipti við utanaðkomandi eru óhjákvæmileg á sá sem er í einangrun að gæta vel að handhreinsun og nota andlitsgrímu. Ef gríma er ekki fáanleg má nota bréfþurrku til að halda fyrir vitin þegar hóstað er eða hnerrað, en henni á að henda í plastpoka um leið og hún hefur verið notuð og hreinsa hendur vel.
 • Einstaklingur í einangrun á að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta.
  • Einstaklingur í einangrun má ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, s.s. til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, þá að höfðu samráði fyrirfram við COVID-19 göngudeild Landspítala/heilsugæslu/1700/112. Reglulegt eftirlit lækna eða tannlækna, sjúkraþjálfun eða sérfræðingsheimsóknir sem ekki tengjast farsóttinni teljast ekki til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu á meðan einangrun stendur og ætti að afpanta slíka þjónustu og fá nýjan tíma eftir að einangrun lýkur.
  • Ef þörf er fyrir læknisþjónustu meðan á einangrun stendur, hvort sem er versnandi COVID-19 sjúkdómur, önnur bráð veikindi eða slys þá er rétt að sá sem hefur samband við COVID-19 göngudeild Landspítala/heilsugæslu/1700/112 taki fram að einangrun sé í gildi. Það auðveldar aðgerðir til að hindra dreifingu mögulegs smits en á EKKI að tefja fyrir eða hamla því að einstaklingur fái nauðsynlega hjálp.
  • Einstaklingur í einangrun má ekki nota almenningssamgöngur eða leigubíla. Ef hann þarf að sækja heilbrigðisþjónustu má hann nota einkabíl ef hann er ökufær eða aðrir sem eru með honum í einangrun eða í sóttkví, annars þarf að fá aðstoð við sjúkraflutninga í gegnum 1700/112.
  • Einstaklingur í einangrun má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru. Hann getur þurft að fá vottorð þess efnis í heilsuvera.is eða frá COVID-19 göngudeildinni. Biðlað hefur verið til vinnuveitenda að sýna skilning á því að starfsmaður þarf að sæta einangrun áfram eftir að hann hefur náð sér af veikindunum.
  • Einstaklingur í einangrun má ekki fara á mannamót, hvort sem þau varða starf hans, fjölskyldu eða félagslíf. T.d. vinnufundir, samkomur vinnufélaga, samkomur stéttar- félaga, fermingar, jarðarfarir, saumaklúbbar, kóræfingar, tónleikar o.s.frv.
  • Einstaklingar í einangrun mega ekki fara á veitingastaði, heilsuræktarstöðvar, sundlaugar, í leikhús, kvikmyndahús, verslunarmiðstöðvar eða aðra staði þar sem margir koma saman.
  • Einstaklingar í einangrun mega ekki fara sjálfir eftir aðföngum, þ. á m. í apótek, mat- vöruverslun, pósthús, banka eða annað.
  • Einstaklingur í einangrun má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, s.s. stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum.
  • Einstaklingur í einangrun má ekki taka á móti gestum á heimili sínu meðan einangrun stendur yfir.
  • Einstaklingur í einangrun  fara út á svalir eða í garð til einkaafnota við heimilið ef heilsa leyfir. Ef aðrir eru þar líka þarf sá sem er í einangrun að fara inn aftur og huga að handhreinsun áður en hann kemur við hurðarhúna sem aðrir nota o.þ.h.
 • Einstaklingur í einangrun fara í gönguferðir í nærumhverfi heimilis en þarf að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum og má ekki heimsækja fjölsótta staði þrátt fyrir að vera undir beru lofti. Viðmið eru tvær gönguferðir á dag í hámark 30 mínútur í hvort sinn.
  • Einstaklingur í einangrun  fara í gegnum stigagang í fjölbýlishúsi á leið inn og út en má ekki dvelja þar og þarf að halda sig í a.m.k. 2 m fjarlægð frá öðrum. Betra er ef einstaklingur í einangrun noti stiga en hann/hún má nota lyftu ef þarf en skal þá vera einn/ein í lyftunni. Huga þarf vel að hreinlæti í sameignarrýmum, koma við sem fæst yfirborð og strjúka að þeim sem snert eru með sótthreinsandi efni eftir snertingu.
  • Einstaklingur í einangrun  fara út með heimilissorp ef heilsa leyfir og aðrir eru ekki á heimilinu til að sinna því. Viðkomandi skyldi bera grímu ef líklegt er að mæta fólki á leiðinni, s.s. í fjölbýlishúsum, eða hafa meðferðis bréfþurrku til nota við hósta og hnerra og sinna handhreinsun fyrir og eftir opnun sorprennu/ruslageymslu og gjarnan strjúka yfir handföng með sótthreinsandi efni eftir snertingu.
 • Takmarka þarf til hins ítrasta umgengni við annað fólk.
 • Best er að einstaklingur sem er veikur sé einsamall í einangrun. Aðrir heimilismenn geta verið í sóttkví á sama stað ef þeir vilja ekki fara af heimilinu en ættu að takmarka snertingu við þann sem er í einangrun eins og raunhæft er, helst að halda sig í a.m.k. 2 m fjarlægð frá hinum sjúka. Ef fleiri veikjast á heimilinu lengir það tíma sem aðrir heimilismenn þurfa að vera í sóttkví og eykur hættu á að þeir veikist einnig og sæti einangrun.
  • Ef hluti heimilismanna er í einangrun þurfa aðrir heimilismenn að vera í sóttkví ef þeir hafa verið á heimilinu þegar fyrstu einkenni komu fram.
  • Sóttkví sem fer fram á heimili þar sem einhver er í einangrun lýkur með sýnatöku eftir að einangrun hefur verið aflétt. Heimilismenn geta þá gert ráð fyrir sóttkví degi lengur en einangrun varir og skyldu ekki fara sýnatöku til að aflétta sóttkví fyrr en einangrun er lokið.
  • Rétt er að reyna að hafa glugga opna í sameiginlegum rýmum s.s. eldhúsi og baði.
  • Þrífið vel sameiginleg rými og helstu snertifleti, s.s. handfang á kæliskáp, ljósarofa og hurðarhúna.
  • Einstaklingur í einangrun ætti að sofa í sérherbergi eða að lágmarki í sérrúmi. Æskilegt er að hann hafi salerni til einkaafnota.
  • Mikilvægt er að beita grundvallar hreinlæti til að draga úr hættu á smiti (sjá leiðbeiningar um handþvott og sýkingavarnir fyrir almenning á vef embættis landlæknis).
  • Bréfþurrkur sem einstaklingur í einangrun notar eiga að fara beint í plastpoka sem er síðan lokað og hent með öðru heimilissorpi.
  • Æskilegt er að hafa handspritt við höndina þar sem sá veiki er.
 • Einstaklingur í einangrun getur þurft að fá aðstoð við aðföng o.þ.h.
  • Þegar heimilið allt er í sóttkví eða einangrun er hugsanlegt að vinir eða ættingjar geti sinnt aðföngum og skilið eftir við útidyr. Þó eru sérstakar reglur um sóttkví þeirra sem eru þríbólusettir, eða tvíbólusettir sem hafa smitast af COVID-19.
  • Ef heimsending matvæla og annarra nauðsynja er í boði á svæðinu er hægt að nýta þá þjónustu á meðan sóttkví stendur.
  • Hægt er að hafa samband við Rauða krossinn varðandi aðföng eftir þörfum. Allir sem staddir eru hér á landi en þurfa að vera í einangrun í heimahúsi geta haft samband við Hjálparsíma Rauða krossins í símanúmerinu 1717 eða á netspjalli á www.1717.is. Þar er hægt að óska eftir aðstoð, leita stuðnings, fá upplýsingar og ræða við einhvern í trúnaði. Hjálparsíminn er opinn allan sólarhringinn og númerið er gjaldfrjálst.
  • Ef sá veiki þarfnast aðhlynningar er æskilegt að einn og sami aðili sinni því hlutverki meðan veikindin standa yfir.
  • Forðist beina snertingu við líkamsvessa (slím úr öndunarvegi, uppköst, hægðir o.s.frv.). Hafið einnota hanska við höndina til að nota ef snerta þarf slíkt.
  • Þvoið hendur eða notið handspritt eftir snertingu við sjúkling eða umhverfi hans.
  • Spurningalisti frá COVID-19 göngudeild Landspítala kemur á Mínar síður í Heilsuveru og má finna undir „Spurningalistar“ í valmynd vinstra megin á síðunni. Einstaklingur mælir líkamshita sinn daglega og skráir.
  • Ef viðkomandi einstaklingur hefur versnandi einkenni ber honum að fylla út spurningalistann á Heilsuveru og getur þar óskað eftir símtali frá COVID-19 göngudeild. Annars er hægt að hafa samband við heilsugæsluna í síma eða Læknavaktina í gegnum netspjall eða 1700.
  • Ef einstaklingur í einangrun verður fyrir bráðum veikindum og talin er þörf á sjúkrabíl til flutnings á sjúkrahús skal upplýsa starfsmann hjá 112 um grunaða/staðfesta COVID-19 sýkingu.


Hvernig er einangrun aflétt eftir COVID-19 sýkingu?

Einstaklingur sem er með staðfesta sýkingu af COVID-19 skal vera í einangrun í 7 daga frá greiningu. Dagur greiningar er dagur núll (jákvætt PCR próf). Læknum COVID-19 göngudeildar Land­spítala er heimilt að lengja einangrun á grundvelli læknisfræðilegs mats. Starfsfólk COVID-19 göngudeildar annast útskriftir.

Allir fá þau tilmæli að huga sérstaklega vel að handþvotti og hreinlæti í tvær vikur eftir að einangrun hefur verið aflétt. Þá ber þeim einnig að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga svo sem eldra fólk og einstaklinga í áhættuhópum fyrir alvarlegri veikindum í 2 vikur. Heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimili, dagdvalir og aðrar sambærilegar stofnanir þar sem viðkvæmir einstaklingar eru skulu setja sér verklag um endurkomu starfsmanna eftir COVID-19 veikindi.

Sérstök tilvik:

 • Einkennalausir einstaklingar: Krafist er að einstaklingur hafi verið alveg hitalaus og alveg laus við einkenni eins og slappleika/veikindatilfinningu, hósta, mæði, nefrennsli.
 • Sambýlisfólk í sóttkví og einangrun saman: Aflétta má sóttkví sambýlismanna þess sem var í einangrun þegar einangrun lýkur þegar ekki er fullur aðskilnaður milli einstaklinga. Sóttkví lýkur þá með neikvæðu PCR prófi eftir að einangrun hefur verið aflétt. Heimilismenn skulu gera ráð fyrir sóttkví einum degi lengur en einangrun varir. Sambýlisfólk á við alla á sama heimili, einnig börn, sem ekki eru alveg aðskilin frá hinum einangraða. Sérstakar reglur gilda nú um þríbólusetta, eða tvíbólusetta sem hafa smitast af COVID-19 (sjá nánar í leiðbeiningum sóttvarnalæknis um heimasóttkví).
 • Sambýlisfólk allt í einangrun saman: Þegar fyrsta einstaklingurinn í hópnum losar úr einangrun (sbr. að ofan) geta aðrir þurft að vera áfram í einangrun. Mikilvægt er að sá útskrifaði þrífi sig vel áður en hann fer út af heimilinu. Eins þarf að passa að fatnaður og aðrir hlutir sem fara með honum út af heimilinu séu hreinir. Mikilvægt er að allir heimilismenn þrífi sig og heimili vel þegar einangrun allra er aflétt. Sambýlisfólk á við alla á sama heimili, einnig börn.
 • Heilbrigðisstarfsfólk: Sömu reglur gilda og um aðra, þarf þó að huga að verkefnum viðkomandi þegar hann snýr aftur til starfa (viðkvæmir hópar). Læknir og yfirmaður meta hvert tilfelli fyrir sig.

 


Fyrst birt 19.10.2020
Síðast uppfært 19.01.2022

<< Til baka