Gulleplið 2020

Tækniskólinn 
Gulleplið 2020 - Framúrskarandi heilsueflingarstarf - Skólatengsl

Í umsókn Tækniskólans kemur fram að nýju stuðningsvinaverkefni var ýtt úr vör á haustönn 2019 sem gengur undir heitinu „Buddies“ eða „Vinafélagið“.  Þátttakendur eru 60 nemendur, annars vegar nýnemar af erlendum uppruna sem stunda nám á íslenskubraut og hins vegar íslenskir nemendur á aldrinum 17-20 ára. Markmið verkefnisins er að nemendur kynnist menningu ólíkri sinni eigin og að íslensku nemendurnir styðji við nemendur á íslenskubraut á margvíslegan hátt, svo sem við að kynnast skólanum, starfsfólki hans og þjónustu ásamt félagslífi nemenda og nemendafélögum. Þá er enn fremur markmið að þátttakendur kynnist menningarstarfi í höfuðborginni og fái að fara í leikhús, bíó og á söfn. Með þátttöku í verkefninu fá erlendir nemendur marvissa kynningu á íslensku samfélagi sem getur gert þá betur í stakk búna en ella til að aðlagast því.

Í umsókn Tækniskólans kom meðal annars fram: „Tækniskólinn leggur mikla áherslu á öflugt félagslíf sem nær til allra nemenda, ekki síst þeirra sem þurfa mest á því að halda að rjúfa einangrun og vera félagslega virkir. Í því skyni er áherslan ekki bara lögð á stóra og fjölmenna viðburði heldur er mikil vinna lögð í að rækta grasrótina, standa fyrir fjölbreyttum viðburðum og klúbbum sem vinna með ákveðin áhugamál eða viðfangsefni.  Í Tækniskólanum er eitt félag sem allir nemendur tilheyra, líkt og hjá öðrum framhaldsskólum, sem er Nemendasamband Tækniskólans (NST). Því til viðbótar eru allir undirskólar Tækniskólans með sérstök nemendafélög en undirskólarnir eru tólf talsins. Þá starfrækir Tækniskólinn sérstaka markaðs- og kynningardeild og er með félagsmálafulltrúa í fullri stöðu.  Starfsfólk deildarinnar leggja mikla áherslu á að félagslífið í skólanum sé í höndum nemenda, að þeir sýni frumkvæði og upplifi bæði frelsi og lýðræði við ákvarðanatöku félagsmála; að rödd þeirra skipti máli. Fjórir náms- og starfsráðgjafar starfa við skólann og samvinna milli þeirra, sálfræðings og forvarnarfulltrúa er mikil. Náms- og starfsráðgjafar skólans halda utan um viðkvæma hópa og vísa þeim nemendum sem fást við sértæk vandmál á réttan stað sem dæmi. Tækniskólinn er einnig með sálfræðing í fullu starfi og forvarnarfulltrúi starfar við skólann sem heldur úti öflugri fræðslu í námshópum og býður auk þess upp á einstaklingsviðtöl.

 

Flensborgarskóli 
Gulleplið 2020 – Framúrskarandi heilsueflingarstarf - Heiðursverðlaun

Í ár eru sérstök heiðursverðlaun Gulleplisins veitt til skóla sem staðið hefur framar öðrum í heildrænni innleiðingu heilsueflingar. Flensborgarskóli hefur staðið í framlínu við framgöngu heilsueflingar í framhaldsskólum síðustu 10 árin. Þann 1. október 2010 hóf skólinn sitt fyrsta ár sem Heilsueflandi framhaldsskóli og hefur unnið ötullega að því að efla heilsu og líðan nemenda og starfsfólks.

Skólastjórn Flensborgarskóla hefur nýtt hvert ár til að efla heilsueflandi skólastarf með ýmsum aðgerðum, meðal annars með því að standa með sínu starfsfólki þegar kemur að hugmyndum að innleiðingu sem felur oft í sér að fara nýjar leiðir. Á fyrstu árunum var horft til næringar, hreyfingar, geðræktar og lífsstíls og á síðari árum hefur starfið eflst enn frekar með tilliti til sértækari þátta.  Meðal annars hefur verið lögð áhersla á þætti eins og öryggi og þá ekki síst andlegt öryggi, kynheilbrigði, áfengis-og vímuvarna, heilsu og líðan starfsfólks skólans og verklags.

Magnús Þorkelsson hefur starfað sem stjórnandi frá því að skólinn hóf þessa vegferð sína en nú er hann í leyfi. Hann hefur leitt þessa vinnu í rúm 10 ár með fjöldann af öflugu starfsfólki sem á heiður skilið fyrir að standa í framlínu við að efla heilsu starfsfólks og nemenda. Magnús er í námsleyfi eins og sakir standa og skólameistari skólans er Erla Ragnarsdóttir en þau eru bæði viðstödd afhendingu Gulleplisins í ár.

Heilsustefna Flensborgarskóla er sýnileg á vefsíðu skólans: 

Heilsuefling í Flensborgarskólanum er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemendasamfélagsins. Það miðar að því að bæta heilsu og líðan allra þeirra sem starfa og nema við skólann. Það er stefna skólans að tryggja eins góða og heilsusamlega vinnuaðstöðu og unnt er jafnfram því sem nemendur og starfsmenn eru hvattir til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu og líðan.

 Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir 
Verkefnisstjóri Heilsueflandi framhaldsskóla (HEF)
sh@landlaeknir.is


Fyrst birt 01.10.2020

<< Til baka