Velkomin til Íslands. Hvað tekur nú við?

Allir komufarþegar þurfa að velja um 14 daga sóttkví eða vera skimaðir tvisvar við komuna til Íslands.

Fyrri sýnataka verður á landamærum, að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 5-6 daga þangað til niðurstaða er fengin úr seinni sýnatöku, sem er 5 dögum eftir komu. Dagur 1 er dagurinn eftir komu til landsins, t.d. ef fyrri sýnataka er á miðvikudegi er seinni sýnataka á mánudegi.

Beðið eftir niðurstöðu fyrri skimunar:

 1. Frá því að farið er frá landamærastöð gilda reglur um sóttkví. Þegar sýnatöku er lokið skal halda rakleiðis á sóttkvíarstað. Ekki má nota almenningssamgöngur s.s. strætisvagn eða áætlunarflug innanlands en nota má leigubíla auk einkabíla og bílaleigubíla. Ef brýna nauðsyn ber til má gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví.
 2. Vinsamlega sæktu appið Rakning C-19, https://www.covid.is/app/is. Það er notað til að miðla neikvæðum niðurstöðum úr skimun og hjálpar við að rekja smit ef þörf krefur. Einnig veitir það mikilvægar upplýsingar um COVID-19. Nánari upplýsingar um appið er að finna á www.covid.is/app
 3. Haft verður samband við þig í síma frá COVID-göngudeild Landspítala ef veiran greinist hjá þér (jákvætt próf) og næstu skref til að staðfesta hvort um virkt smit er að ræða útskýrð. Neikvæð niðurstaða er send í Rakning C-19 appið eða með SMS í símanúmerið sem þú staðfestir við forskráningu. Mikilvægt er að síminn sem var notaður við forskráningu sé virkur. Eftir 24 klst. má spyrjast fyrir um niðurstöður á testc19@landlaeknir.is, strikamerki sem var notað við skimun þarf að fylgja í tölvupóstinum.

Sóttkví milli skimana:

Einstaklingur í sóttkví á að halda sig heima við eða í viðeigandi húsnæði fyrir sóttkví og hafa samskipti við sem fæsta. Haltu kyrru fyrir á sóttkvíarstað. Hugaðu vel að hreinlæti, s.s. handþvotti. Mundu að hafa símann ávallt í gangi, bæði til að hægt sé að koma til skila upplýsingum ef prófið reynist jákvætt og vegna Rakning C-19 appsins.

Meðan á sóttkví stendur:

 • sækja brýna heilbrigðisþjónustu að höfðu samráði fyrirfram við næstu heilsugæslu, Læknavakt/1700 eða neyðarlínu/112.
 • fara í gönguferðir á fáförnum stöðum en skal halda a.m.k. 1 m fjarlægð frá öðrum vegfarendum
 • má ekki fara í bíltúr, nema frá landamærastöð og til endanlegs sóttkvíarstaðar eða þegar er farið í seinni sýnatöku.
 • má ekki umgangast aðra en þá sem deila heimilinu og gæta skal fyllsta hreinlætis og reyna að halda a.m.k. 1 m fjarlægð í samskiptum við aðra heimilismenn.
 • má ekki nota almenningssamgöngur (áætlunarflug innanlandsflug, strætisvagna) en má nota leigubíla.
 • má ekki fara á veitingastaði, krár, mannamót af neinu tagi, í heilsuræktarstöðvar, sundlaugar, kvikmyndahús, leikhús, verslanir eða aðra staði þar sem margir koma saman
 • má ekki sinna erindum eða versla sjálf/ur, þ. á m. í apótek, matvöruverslun, pósthús, banka eða annað. Netverslanir og veitingastaðir bjóða sumstaðar upp á heimsendingu.
 • má ekki fara til vinnu eða skóla.
 • má ekki fara í skoðunarferðir og ekki keyra nema milli landamærastöðvar og endanlegs sóttkvíarstaðar (og tilbaka ef dvöl er skemmri en sóttkvíartímabil).

Þegar niðurstaða fyrri sýnatöku liggur fyrir færðu nánari upplýsingar um seinni sýnatöku í tölvupósti m.a. hvenær þú átt að mæta í sýnatöku. Á fjórða kvöldi eftir komu til landsins færðu sent strikamerki til að nota í seinni sýnatöku. Við ferðina milli dvalarstaðar og sýnatökustaðar skal nota einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl.

Ath! einstaklingar sem fengu jákvæða niðurstöðu úr fyrri skimun, hvort sem talið var virkt smit eða ekki, eiga ekki að fara í seinni skimun.

Beðið eftir niðurstöðu seinni skimunar:

Eftir seinni skimun skal halda aftur á sóttkvíarstað og halda kyrru fyrir þar þangað til niðurstaða hefur borist. Ef niðurstaða úr seinna prófi er neikvæð er sóttkví lokið en jákvæð niðurstaða leiðir alltaf til einangrunar. Ef engin niðurstaða hefur borist eftir 24 klst. má spyrjast fyrir um niðurstöður á testc19@landlaeknir.is, strikamerki sem var notað við skimun þarf að fylgja í tölvupóstinum.

Einkenni: Ef þú finnur fyrir einkennum, sem gætu verið vegna COVID-19 á meðan sóttkví stendur eða eftir að henni er lokið, skal haft samband símleiðis við heilsugæslu á dagvinnutíma, annars Læknavaktina í síma 1700.

 • hiti
 • hósti
 • andþyngsli
 • bein- og vöðvaverkir, höfuðverkur, þreyta
 • kvefeinkenni, hálssærindi
 • skyndilegar breytingar á bragð- og/eða lyktarskyni
 • uppköst, niðurgangur (algengara hjá börnum)

Ekki má mæta óboðin/nn á heilbrigðisstofnun eða í sýnatöku vegna ferðalaga ef einkenni eru til staðar, heldur skal hafa samband símleiðis og láta vita svo hægt sé að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi annarra við móttöku einstaklinga með einkenni COVID-19.

 

 


Fyrst birt 17.08.2020

<< Til baka