Próf til að greina SARS-CoV-2 kórónuveiru (PCR) á landamærum

Próf til að greina SARS-CoV-2 kórónuveiru, sem veldur COVID-19, er kjarnsýrumögnun (e. polymerase chain reaction, PCR) þar sem tekið er öndunarfærasýni (nefkoks- og hálsstrok) og leitað að kjarnsýrum (erfðaefni) veirunnar. Fyrir farþega er fyrra próf á landamærum við komuna en hið seinna 5 dögum síðar á vegum heilsugæslu.

Gert er ráð fyrir að biðtími eftir sýnatöku á landamærum sé innan við ein klukkustund. Í kjölfar sýnatöku skulu farþegar fara á skráðan dvalarstað. Farþegar þurfa að sæta sóttkví uns niðurstöður úr seinna prófi liggja fyrir, og þeim er bent á að gæta ýtrustu smitvarna og huga að heilsu sinni og annarra. 

Við komuna til landsins er heimilt að gista eina nótt á viðeigandi gististað m.t.t. sóttkvíar nærri landamærastöð áður en ferðast er rakleitt á endanlegan dvalarstað í sóttkví næsta dag. Ekki má fara á milli gististaða eða landshluta að óþörfu. 

Neikvæð niðurstaða úr PCR-prófi þýðir að veiran greinist ekki og sóttkví er aflétt ef bæði prófin eru neikvæð. Jákvætt próf þýðir að veiruefni hefur greinst og einstaklingur er smitaður. Þeir sem mælast jákvæðir verður boðið að fara í mótefnamælingu sem er blóðrannsókn sem getur gefið svar hvort um gamalt smit er að ræða eða nýtt virkt smit. Einstaklingur með virkt smit þarf að fara í 14 daga einangrun og verður fylgt eftir af heilbrigðisþjónustunni. Þeir sem hafa verið í nánum samskiptum við einstakling með virkt smit þurfa að fara í sóttkví. Smitrakningateymi metur og ákveður hverjir þurfa að fara í einangrun eða sóttkví. Einstaklingur með mótefni sem gefa til kynna að smit sé gamalt þurfa ekki að fara i einagrun.

Gert er ráð fyrir að komufarþegar fái upplýsingar um niðurstöðu úr prófi innan sólarhrings, yfirleitt samdægurs eða, sérstaklega ef komutími er eftir kl. 17:00, þá næsta dag. Farþegum verður tilkynnt um niðurstöðuna í rakningarappinu, Rakning C-19, í gegnum Heilsuveru, eða í smáskilaboðum. Jákvæðar niðurstöður verða tilkynntar símleiðis í það símanúmer sem var staðfest í forskráningu. Nauðsynlegt er að hægt sé að ná sambandi við alla komufarþega til að tilkynna um niðurstöðu úr prófi svo nauðsynlegt er að hafa virkan síma.

Lífrænum sýnum verður fargað en ópersónugreinanleg gögn verða hugsanlega nýtt til samantektar á tölfræði um COVID-19 sjúkdóminn.


Fyrst birt 09.06.2020
Síðast uppfært 17.12.2020

<< Til baka