Húsnæði í sóttkví

Einstaklingar eiga að dvelja í sama húsnæði allan tímann sem sóttkví varir. Við komuna til landsins er heimilt að gista eina nótt á viðeigandi gististað m.t.t. sóttkvíar nærri landamærastöð áður en ferðast er rakleitt á endanlegan dvalarstað í sóttkví næsta dag. Ekki má fara á milli gististaða eða landshluta að óþörfu. Dæmi um réttlætanlega ástæðu fyrir að færa sig um set á meðan sóttkví varir er ef veikindi koma upp meðal einstaklinga í sóttkví og sá veiki þarf að fara á sjúkrahús en ferðafélagar eða fjölskyldumeðlimir í sóttkví fá húsnæði nærri sjúkrahúsi til afnota á meðan sá veiki er á sjúkrahúsinu. Mikilvægt er að tilfærsla á dvalarstað í sóttkví sé tilkynnt til almannavarna.

Þær kröfur sem húsnæði sem er notað fyrir sóttkví þarf að lágmarki að uppfylla:

  • einstaklingsherbergi eða einnar-fjölskyldu einingar
  • sér salerni fyrir hvert herbergi/einingu
  • Til staðar þarf að vera rúm/dýna fyrir hvern einstakling eða þeir koma með slíkt með sér.
      • Fjölskyldueining þarf að vera nægilega stór til að a.m.k. 1 meter geti verið á milli rúmstæða.

Þar sem einstaklingar í sóttkví mega ekki fara á veitingastaði eða í matvöruverslanir er mikilvægt að skoða hvaða kostir m.t.t. aðfanga bjóðast á svæðinu eða á gististaðnum sem valinn er. Til dæmis þarf að vera ljóst hvort hægt sé að fá máltíðir á sóttkvíarstað eða hvort aðstaða er til að útbúa mat í sóttkvíarúrræði.

Ekki er mælt með að einstaklingar sem ekki búa saman að staðaldri dvelji í sömu einingu í sóttkví, noti sömu hreinlætisaðstöðu, sömu eldunaraðstöðu o.s.frv. meðan á sóttkví stendur. Fjallaskálar, farfuglaheimili/gistiskýli og tjaldsvæði þar sem margir aðilar sem ekki deila sama heimili nota sömu hreinlætisaðstöðu mega ekki bjóða upp á gistingu í sóttkví og einstaklingar í sóttkví mega ekki nota slíka aðstöðu, frekar en önnur almenningsrými þar sem margir koma saman eða nota sömu hreinlætisaðstöðu.

Æskilegt er að hver eining hafi sérinngang en sé svo ekki þarf að gæta vel að 1 metra reglu og handhreinsun þegar gengið er um sameiginleg rými, forðast að snerta sameiginleg yfirborð og ekki má dvelja í sameiginlegum rýmum s.s. gestamóttöku hótels, saunu, sundlaug sem aðrir nota líka o.s.frv. meðan á sóttkví stendur.

Æskilegt er að hvert rými/eining hafi þvottaaðstöðu, að öðrum kosti þarf að hafa nægilegan fatnað meðferðis til að dugi fyrir alla dvölina í sóttkví og huga vel að þörf fyrir lín. Hótel sem býður upp á aðstöðu fyrir sóttkví þarf að tryggja gestum aðgang að líni s.s. handklæðum og lökum sem fullnægir þörfum allra einstaklinga í sóttkví allan tímann sem hún varir, sjá einnig leiðbeiningar fyrir sóttvarnahús.

Samskipti við starfsmenn eiga að fara fram í síma eða með öðrum fjarskiptaleiðum.
Einstaklingar í sóttkví mega nota garð eða svalir sem eru til einka-afnota fyrir þeirra einingu í sóttkvíaraðstöðu meðan á sóttkví stendur. Ef slíkt er ekki til staðar mega einstaklingar í sóttkví fara í göngutúra á almannafæri sér til heilsubótar en skulu gæta 1 m fjarlægðar frá öðrum vegfarendum bæði meðan þeir koma sér frá sóttkvíareiningu og út fyrir útidyr húsnæðis og eins meðan útivist er stunduð. Einstaklingar í sóttkví mega ekki nota aðstöðu eða búnað á almannafæri hvort sem er innan húsnæðis þar sem sóttkví fer fram eða utan, s.s. bekki, borð, líkamsræktartæki, salerni/hreinlætisaðstöðu/vatnsbrunna.

Ef um sóttkví í hóteli eða farsóttahúsi er að ræða þar sem eru starfsmenn sem sinna t.d. eftirliti með húsnæði, aðföngum og þrifum þarf jafnframt að vera til staðar sér aðstaða fyrir starfsmenn sem veita þjónustu innan hússins (handþvottaaðstaða, salernisaðstaða, matar- og vinnuaðstaða) sem einstaklingar í sóttkví hafa ekki aðgang að.

Nánari leiðbeiningar um reglur í sóttkví


Fyrst birt 24.04.2020
Síðast uppfært 08.09.2020

<< Til baka