Hverjir geta sótt um vinnusóttkví?

Ekki er veitt alger undanþága frá sóttkví ef tilefni er til sóttkvíar s.s. vegna ferðalags eða mögulegrar útsetningar.

Einstaklingar geta ekki fengið undanþágu frá sóttkví vegna persónulegra aðstæðna, s.s. vegna jarðarfara eða veikinda ættingja. Einstaklingar sem eru í sóttkví vegna ferðar til Íslands geta hins vegar verið viðstaddir jarðarför ástvinar skv. sérstökum leiðbeiningum. Ef sóttkví er vegna tengsla við COVID-19 veikan einstakling má einstaklingur ekki vera viðstaddur jarðarför eða aðrar athafnir vegna andláts.

Ferðamenn sem hingað koma frá áhættusvæðum og eru í sóttkví, þurfa að fylgja reglum um sóttkví. Ekki eru veittar undanþágur vegna afþreyingar fyrir ferðamenn frekar en fyrir einstaklinga sem eru búsettir hér.

Sjá reglur um heimasóttkví.

Útvíkkun ferðatengdrar sóttkvíar til vinnustaðar
Fyrirtæki sem þurfa á sérþekkingu verktaka erlendis frá að halda við ákveðin verkefni geta sótt um sérstaka sóttkví. Sóttvarnalæknir metur hverja umsókn og veitir undanþágu ef lýsing á aðstæðum gefur til kynna að sóttvarnaráðstafanir séu fullnægjandi og að efnislegum þörfum starfsmanna í sóttkví verði sinnt á fullnægjandi hátt þar sem þeir mega ekki sjálfir sinna aðföngum. Þá er vinnustaður skilgreindur sem sóttkvíarúrræði ásamt dvalarstað. Fyrirtæki þurfa að kynna sér leiðbeiningar um sóttvarnir þegar starfað er í sóttkví og eru hvött til að krefjast þess að allir starfsmenn á vinnustaðnum kynni sér þær líka til að draga úr úr hættu á smitkeðju ef einstaklingur í sóttkví á vinnustað veikist. Einstaklingar í sóttkví sem eru tilgreindir í slíkum undanþágum eru skráðir sérstaklega í rakningagrunn almannavarna. Einstaklingar sem búsettir eru hér á landi eða hafa þegar lokið sóttkví og þurfa að vera í samskiptum við einstaklinga í sóttkví á vinnustað eru ekki í sóttkví sjálfir en eru einnig skráðir sérstaklega hjá sóttvarnalækni til að auðvelda eftirlit með smithættu og smitkeðjum ef veikindi koma upp hjá einstaklingi í sóttkví á vinnustað. Utan vinnustaðar gilda allar almennar reglur um sóttkví fyrir þessa einstaklinga.

Einstaklingar sem hafa samið við erlenda verktaka um minni verk s.s. uppsetningu einingahúsa o.s.frv. geta sótt um samskonar undanþágu frá heimasóttkví. Einstaklingur sem sækir um slíkt er þá persónulega ábyrgur fyrir aðstæðum á vinnustað og að sjá til þess að verktakar geti farið eftir þeim reglum sem gilda um sóttkví á vinnustað og almennum reglum um sóttkví utan vinnutíma. T.d. þarf að tryggja aðgang að hreinlætisaðstöðu, hreinlætisvörum og annarri nauðsynjavöru.

Á svipaðan máta geta vísindamenn sem hér þurfa að sinna rannsóknum sótt um sérstaka vinnusóttkví ef aðstæður við rannsóknarstörf eru í samræmi við leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir.

Ef upp kemur smit við þessar aðstæður fellur undanþága úr gildi, sá sýkti fer í einangrun og tengdir aðilar í sóttkví á gististað.

Ef upp kemst um brot á reglum um sóttkví við þessar aðstæður verður undanþága dregin til baka og mögulega sektað fyrir brotin.

Sérstök verkefni þar sem gilda sérsniðnar reglur og leiðbeiningar

  • Ef ákveðið verkefni þarfnast stöðugt vinnuafls erlendis frá er frá og með 19.05.2020 hægt að sækja um heimild til að beita sóttkví á vinnustað fyrir verkefnið í heild en senda reglulega lista yfir starfsmenn sem koma til starfa í sóttkví.
  • Frá og með 14.05.2020 er hægt að sækja um sérstaka sóttkví fyrir kvikmyndaframleiðslu ef fylgt er leiðbeiningum vegna slíkra verkefna. Við undirbúning slíkra verkefna geta minni hópar þurft að koma til að kynna sér aðstæður og velja tökustaði. Sóttvarnalæknir mælist til að við slíkar ferðir sé miðað við leiðbeiningar fyrir fjölmiðlamenn.
  • Frá og með 07.05.2020 geta erlendir fjölmiðlamenn sótt um aðlagaða sóttkví skv. sérstökum leiðbeiningum.

Útvíkkun sóttkvíar vegna tengsla við sýktan einstakling til vinnustaðar
Fyrirtæki og stofnanir sem hafa verið skilgreind sem veitendur samfélagslega ómissandi þjónustu þar sem starfsmenn lenda í sóttkví og mönnun nauðsynlegrar þjónustu sem krefst sérþekkingar er ómöguleg án viðkomandi starfsmanna geta einnig sótt um sérstaka vinnusóttkví þrátt fyrir tengsl við tilfelli. Slíkar undanþágur hafa verið nýttar í velferðar- og heilbrigðisþjónustu meðan á COVID-19 faraldri hefur staðið hér á landi og hafa þá verið sendar sérstakar leiðbeiningar til stofnana sem hafa þurft að hafa starfsmenn í sóttkví í umgengni við viðkvæma einstaklinga, t.d. um notkun hlífðarbúnaðar. Almennt er þetta úrræði aðeins notað ef skjólstæðingar eru einnig í sóttkví eða í einangrun vegna COVID-19. Í undantekningartilvikum er nauðsynlegt að starfsmaður í sóttkví sinni skjólstæðingi/sjúklingi sem ekki er sjálfur í sóttkví en þá eru settar enn strangari reglur um umgengni og hlífðarbúnað starfsmanns og reynt að manna þjónustuna með aðilum úr bakvarðasveitum heilbrigðis- og velferðarþjónustu frekar en að nota úrræðið sóttkví á vinnustað (einnig kallað sóttkví B). Þegar um skilgreindan hóp tengiliða er að ræða eru þeir einnig skráðir sérstaklega hjá sóttvarnalækni til að auðvelda eftirlit með smithættu og smitkeðjum ef veikindi koma upp hjá einstaklingi í sóttkví á vinnustað. Utan vinnustaðar gilda allar almennar reglur um sóttkví fyrir þessa einstaklinga.

 


Fyrst birt 24.04.2020
Síðast uppfært 08.09.2020

<< Til baka