Hverjir geta sótt um vinnusóttkví?

A) Sérstakar reglur um sóttkví þríbólusettra, eða tvíbólusettra sem hafa smitast af COVID-19

Frá 7. janúar 2022, gildir sérstök reglugerð um sóttkví þríbólusettra, eða tvíbólusettra sem hafa smitast af COVID-19. Þessir aðilar þurfa ekki að sækja um vinnusóttkví eða tilkynna sig. Nánar:

Þeim einstaklingum sem gert hefur verið að sæta sóttkví en hafa fengið þrjá skammta af bóluefni gegn COVID-19, eða hafa smitast af COVID-19 og verið bólusettir með tveimur skömmtum af bóluefni gegn COVID-19 þurfa ekki að viðhafa fullan aðskilnað við aðra á meðan sóttkví þeirra stendur.

Bóluefni þarf að vera viðurkennt af Lyfjastofnun og þriðji skammtur (eða annar skammtur hjá þeim sem hafa smitast af COVID-19) hafa verið gefinn fyrir a.m.k. 14 dögum.

Í sóttkví þessara einstaklinga felst takmörkun á athafnafrelsi í 5 daga eftir útsetningu smits með eftirfarandi hætti:

 • Einstaklingur má hvorki fara á mannamót né staði þar sem fleiri koma saman heldur en 20 manns.
 • Einstaklingur má sækja vinnu eða skóla þótt þar séu fleiri komnir saman en 20 manns.
 • Einstaklingur má sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, sækja matvöru- eða lyfjaversl­anir og nota almenningssamgöngur.
 • Einstaklingur skal bera grímu í umgengni við einstaklinga, aðra en þá sem teljast vera í nánum tengslum, þótt unnt sé að viðhafa tveggja metra fjarlægð.
 • Einstaklingi er ekki heimilt að fara í heimsókn á heilbrigðisstofnanir, þ.m.t. hjúkrunar­heimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar. Einstaklingur skal enn fremur forðast umgengni við þá einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19.
 • Einstaklingur skal undirgangast PCR-sýnatöku 5 dögum eftir útsetningu og losnar úr sóttkví ef niðurstaða er neikvæð. Dagur útsetningar er dagur núll.
 • Dveljist einstaklingur í sóttkví án þess að viðhafa fullan aðskilnað við ein­stakling í einangrun skal sóttkví ekki aflétt fyrr en degi eftir afléttingu einangrunar þess einstak­lings sem henni sætti. Einstaklingur í sóttkví skyldi þá nota strikamerki sem hann fær sent þegar einangrun hins/annarra á sama stað lýkur (en ekki eftir 5 daga).
 • Ein­stak­lingur sem gengst ekki undir PCR-próf til afléttingar á sóttkví skal sæta henni í 14 daga frá útsetn­ingu fyrir smiti.
 • Einstaklingi er skylt að undirgangast PCR-sýnatöku án tafar vakni hjá honum grunur um smit sökum einkenna. Neikvæð niðurstaða úr slíku prófi styttir þó ekki sóttkví.

B) Hverjir aðrir geta sótt um vinnusóttkví?

 • Ekki er veitt alger undanþága frá sóttkví ef tilefni er til sóttkvíar s.s. vegna ferðalags eða útsetningar við tilfelli.
 • Einstaklingar geta ekki fengið undanþágu frá sóttkví vegna persónulegra aðstæðna, s.s. vegna útfarar eða veikinda ættingja. Einstaklingar sem eru í sóttkví geta hins vegar verið viðstaddir útför ástvinar skv. sérstökum leiðbeiningum.
 • Ferðamenn sem hingað koma frá áhættusvæðum og eru í sóttkví, þurfa að fylgja reglum um sóttkví. Ekki eru veittar undanþágur vegna afþreyingar fyrir ferðamenn frekar en fyrir einstaklinga sem eru búsettir hér.

a)       Útvíkkun sóttkvíar til vinnustaðar fyrir ferðamenn

Fyrirtæki sem þurfa á sérþekkingu verktaka erlendis frá að halda við ákveðin nauðsynleg verkefni sem ekki getur beðið geta sótt um vinnusóttkví. Viðkomandi skal vera bólusettur og vottorð viðurkennt hérlendis.  Gert er ráð fyrir að óbólusettir starfsmenn ljúki sóttkví vegna ferðalags áður en þeir komi til starfa. Í vinnusóttkví er vinnustaður skilgreindur sem sóttkvíarúrræði ásamt dvalarstað. Fyrirtæki þurfa að kynna sér leiðbeiningar um sóttvarnir þegar starfað er í sóttkví. Einstaklingar í sóttkví sem eru tilgreindir í slíkum undanþágum eru skráðir sérstaklega í rakningagrunn almannavarna. Utan vinnustaðar gilda allar almennar reglur um sóttkví fyrir þessa einstaklinga.

Ef upp kemur smit við þessar aðstæður fellur undanþága úr gildi, sá sýkti fer í einangrun og tengdir aðilar í sóttkví.

Ef upp kemst um brot á reglum um sóttkví við þessar aðstæður verður undanþága dregin til baka og mögulega sektað fyrir brotin.

b)      Útvíkkun sóttkvíar til vinnustaðar vegna tengsla við sýktan einstakling

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví skv. reglugerð vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast, svo sem á sviði raforku, fjarskipta, samgangna, sorphirðu, heil­brigðis­starfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga eða slökkviliða. Hið sama á við vegna kerfislega og efnahagslega mikilvægrar starfsemi, svo sem til að tryggja fæðuöryggi, dreifingu nauðsynjavara eða efnahagslegt öryggi ríkisins með útflutningi. Atvinnurekandi sækir þá um vinnusóttkví.

Sjá nánar hér upplýsingar fyrir atvinnurekendur.

 

 


Fyrst birt 24.04.2020
Síðast uppfært 17.01.2022

<< Til baka