Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna vegna COVID-19

Mikilvægt er að lágmarka líkur á smiti nýju kórónuveirunnar (COVID-19) til annarra. Það er góð regla að afhenda sjúklingum á biðstofu með áberandi öndunarfæraeinkenni skurðstofugrímu, en hún dregur úr líkum á smiti inflúensu og annarra öndunarfæraveira. Einstaklingar í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 hafa fengið fyrirmæli um að láta vita af þeim ráðstöfunum í öllum samskiptum við heilbrigðiskerfið. Auk þess skal starfsmaður í móttöku eða sá sem svarar í síma við fyrstu samskipti við sjúklinga spyrja þá sem leita heilbrigðisþjónustu vegna einkenna öndunarfærasýkingar „Skimunarspurninga fyrir áhafnir og heilbrigðisstarfsmenn“ til að meta líkur á sýkingum COVID-19.

Ef sjúklingur er þegar í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 sýkingar eða svarar einni af spurningum til áhættumats játandi, skal fylgja eftirfarandi vinnureglum:

Ef sjúklingur hefur samband símleiðis við heilbrigðisstofnun eða gegnum Heilsuveru:

 

 

1. Ef um bráð veikindi eða slys er að ræða og talið nauðsynlegt að viðkomandi fari á heilbrigðisstofnun

 • Meta þarf hvort þörf er á sjúkraflutningi eða hvort sjúklingur getur komið í einkabíl. Hann má ekki ferðast í leigubíl eða almenningssamgöngum.

 •  

  Ef sjúkraflutningur er nauðsynlegur þá þarf að láta þá sem sinna sjúkraflutningi vita af þörf fyrir hlífðarbúnað í flutningi.
 • Ef sjúklingur kemur á stofnun sem tók við símtalinu skal undirbúa komu hans og ákveða hverjir skulu taka á móti honum og hvar skoðun/meðferð fer fram ef það er ekki þegar skilgreint í viðbragðsáætlun stofnunar.
 • Ef hann þarf að fara á aðra stofnun þarf að láta viðkomandi stofnun vita, mögulega í gegnum 112, til að hægt sé að gæta smitgátar þegar viðkomandi sjúklingur kemur á staðinn.

2. Ef ekki er um neyðartilvik að ræða

 • Sjúklingi er bent á að koma ekki beint á stofnunina heldur halda kyrru fyrir og ef mögulegt er skal gefa honum samband við lækni. Ef ekki er hægt að gefa honum samband við lækni er hann beðinn að hringja í 1700.

 •  

  Ef sjúklingurinn fær samband við lækni á stofnuninni skal læknirinn meta líkur á COVID-19 sýkingu, í samræmi við „Ábending fyrir sýnatöku og skilgreining á COVID-19 tilfelli“ og hvort þörf sé á vitjun læknis.
 • Ef þörf er á vitjun læknis er sjúklingurinn beðinn að halda kyrru fyrir og ráðstafanir gerðar til að vitjun geti orðið sem fyrst. Ef ekki er hægt að sinna vitjun frá stofnun sem sjúklingur hafði samband við og sjúklingur er á höfuðborgarsvæðinu skal starfsfólk á stofnuninni hafa samband við 1700 sem skipuleggur vitjunina.
 • Ef eingöngu er þörf á sýnatöku til vegna COVID-19 en ekki þarf læknisskoðun er hægt að bjóða viðkomandi að koma til sýnatöku skv. verklagi stofnunar.

Ef sjúklingur leitar beint á sjúkrastofnun án undanfarandi símtals skal hann ekki sitja og bíða á biðstofu eftir viðtali við lækni. Sömu móttökuviðbrögð ætti að undirbúa ef hann fær fyrirmæli um að koma á stofnunina.

 • Setja skal veiruhelda (FFP2) grímu án ventils á viðkomandi ef hún er aðgengileg og sjúklingur þolir það. Ef ekki er hægt að nota veiruhelda grímu skal nota skurðstofu-grímu og fara með sjúklinginn án tafar inn á herbergi með opnanlegum glugga.
 • Takmarka skal fjölda þeirra sem annast sjúklinginn.
 • Þeir sem annast sjúklinginn skulu nota hlífðarbúnað í samræmi við leiðbeiningar sjá „Sýkingavarnir“ fyrir neðan.
 • Læknir skal skoða sjúkling og meta líkur á COVID-19 sýkingu, í samræmi við „Ábending fyrir sýnatöku og skilgreining á COVID-19 tilfelli“.
 • Ef læknirinn er í vafa hvort sjúklingurinn geti verið með COVID-19 getur hann ráðfært sig við vakthafandi smitsjúkdómalækni á Landspítala í síma 543-1000. Vakthafandi smitsjúkdómalæknir sker endanlega úr um hvort grunur sé fyrir hendi. 

Við grun um COVID-19 sýkingu að mati læknis
Ef það er mat læknis að sjúklingurinn uppfylli skilmerki mögulegs tilfellis skv. "Ábending fyrir sýnatöku og skilgreining á COVID-19 tilfelli" skal fylgja eftirfarandi atriðum:

 • Taka skal sýni og senda í COVID-19 rannsókn, sjá sýnatökuleiðbeiningar.
 • Beðið skal með allar aðrar rannsóknir (t.d lungnamyndatöku og blóðrannsókn) nema sjúklingnum stafi hætta af biðinni.
 • Ef þörf er á innlögn á sjúkrahús skal flutningur í einangrun á Landspítala undirbúinn í samráði við vakthafandi smitsjúkdómalækni.
 • Þeir sem ekki þurfa á innlögn að halda geta dvalið í einangrun í heimahúsi. Sjá Leiðbeiningar fyrir heilsugæslu um einangrun og fyrir almenning.
 • Ef ekki er mögulegt að einangra í heimahúsi skal læknirinn fá upplýsingar hjá umdæmis- eða svæðislækni sóttvarna um hvar sjúklingurinn skuli dvelja í einangrun.
 • Ekki skal nota leigubíl við flutning sjúklinga með grun um COVID-19 sýkingu.
 • Sjúklingar sem eiga fara á sjúkrahús skal flytja í sjúkrabíl. Ef sjúklingur þarf ekki að fara á sjúkrahús má hann keyra sjálfur ef ástand hans leyfir og hann hefur afnot af einkabíl. Ef hann kom í fylgd aðstandanda sem getur keyrt hann heim eða í aðra einangrun, skal setja skurðstofugrímu bæði á sjúklinginn og aðstandandann.
 • Ef þörf er á sjúkrabíl skal upplýsa sjúkraflutningamenn um grun um COVID-19 sýkingu fyrir flutninginn.

 

Sýkingavarnir

Grundvallarvarúð gegn sýkingum
Almenna reglan er að heilbrigðisstarfsfólk viðhafi ávallt grundvallarvarúð gegn sýkingum í störfum sínum við alla sjúklinga. Það felur í sér handhreinsun, varúð við hósta og hnerra, fyrirbyggingu stunguóhappa, örugga meðferð sorps, þrif í umhverfi og hreinsun, sótthreinsun eða dauðhreinsun áhalda og búnaðar sem notaður er við umönnun og meðferð sjúklinga.

Sértækar sýkingavarnir felast í að rjúfa smitleiðir sýkils manna á milli. Skynsamleg og rétt notkun hlífðarbúnaðar í samræmi við smitleiðir og handhreinsun draga úr dreifingu sýkla. Allt starfsfólk sem notar hlífðarbúnað við störf sín þarf að kunna rétta notkun og fylgja reglum um umgengni.

Við öndunarfærasýkingar s.s. COVID-19 þarf að:

 • Setja hlífðargrímu (helst veiruhelda FFP2 grímu ef mögulegt) á sjúklinginn svo fremi að hann þoli það. Ef ekki skal nota skurðstofugrímu.
 • Leiðbeina sjúklingum að halda fyrir vit við hósta og hnerra með bréfþurrku eða olnboga. Bréfþurrka fari beint í lokað sorpílát eftir notkun.
 • Gefa leiðbeiningar um handhreinsun með handþvotti eða handspritti.

Við grun um COVID-19 sýkingu skal beita varúð við dropa- og snertismiti og það felur í sér að allir sem koma inn í herbergi sjúklings meðan sjúklingur dvelur þar skuli nota:

 • Skurðstofugrímu.
 • Einnota hanska og vandaða handhreinsun þegar hanskar eru teknir af ef yfirborð eru snert.
 • Hlífðarslopp ef yfirborð í herbergi eru snert (s.s. tæming ruslafötu/þrif).

Að auki þurfa allir sem sinna aðhlynningu eða öðrum störfum innan við 2 metra frá sjúklingi:

 • Veiruhelda hlífðargrímu (FFP2).
 • Hlífðargleraugu.
 • Einnota hanska við umönnun og vandaða handhreinsun með handspritti (og/eða handþvotti) þegar hanskar eru teknir af.
 • Langerma hlífðarslopp/svuntu við umönnun og meðferð.
 • Ganga tryggilega frá notuðum hlífðarbúnaði í poka sem ekki má flæða upp úr.

Umhverfisþrif og sótthreinsun

 • Tryggja þarf að umhverfisþrif séu gerð og með réttum hætti þ.e. vönduð þrif með hreinu sápuvatni og eftir það strokið yfir helstu snertifleti með sótthreinsunarefni t.d. umhverfisspritti eða natríum hýpóklóríð.
 • Með vísan í rannsóknir á virkni sótthreinsunarefna á sambærilega veiru (SARS) þá virka öll almennt notuð sótthreinsunarefni til að drepa veiruna s.s. umhverfisspritt, handspritt, própanól, virkon, klórblöndur o.s.frv.
 • Nánari upplýsingar um þrif og meðhöndlun líns o.fl. er að finna í leiðbeiningum til sjálfstæðra fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Við útgöngudyr úr herberginu skulu hendur sprittaðar en ef sýnileg óhreinindi eru á höndum skal þvo sér fyrst með sápu og vatni og spritta svo.

 

Tilkynningarskylda til sóttvarnalæknis
Athugið að COVID-19 sýking er tilkynningarskyld til sóttvarnalæknis skv. reglugerð nr. 221/2012 um skýrslugerð vegna sóttvarna.

Greiningarkóði U07.1 mun verða sértækur kóði fyrir öndunarfærasýkingu vegna COVID-19.

Greiningarkóðar sem má nota til bráðabirgða eru: J12.8 Önnur veirulungnabólga + B97.2 Kransveira/kórónaveira sem orsök sjúkdóma sem flokkaðir eru í aðra kafla.

Athugið að sérkóði fyrir einstaklinga í sóttkví (einkennalausir) er: Z29.0A


Fyrst birt 25.02.2020
Síðast uppfært 11.03.2020

<< Til baka