Ráðleggingar til þeirra sem ferðast erlendis

(Enska - Pólska)

Íbúum Íslands sem ekki eru full bólusettir fyrir COVID-19 (eða með staðfesta fyrri sýkingu) er ráðið frá ferðalögum til áhættusvæða. Öll lönd og svæði erlendis, nema Grænland, eru skilgreind sem áhættusvæði vegna COVID-19. Þeir sem ferðast ættu að sýna varúð og fylgja ráðum um hreinlæti og sóttvarnir.

Ísland fylgir ferðatakmörkunum á ESB/Schengen-svæðis (sjá nánar á vef ríkislögreglustjóra ).

Öllum sem koma til landsins og hafa dvalið í meira en sólarhring á áhættusvæði sl. 14 daga er skylt að fylla út forskráningarform  fyrir komu til landsins. Þeir sem eru ekki full bólusettir eða með vottorð um fyrri sýkingu þurfa að framvísa vottorði um neikvætt PCR próf fyrir COVID-19 við brottför og aftur við komuna og undirgangast tvær COVID-19 sýnatökur og sæta 5 daga sóttkví á milli sýnatöku (PCR próf). Þeir sem eru full bólusettir eða með vottorð um fyrri sýkingu þurfa frá og með 27. júlí að framvísa neikvæðu PCR eða antigen prófi við brottför og aftur við komuna, en eru annars undanþegnir sýnatöku og sóttkví við komuna. Sjá nánar hér .

Fyrir þá sem fara í tvær sýnatökur er sú fyrri á landamærum við komu til landsins en sú seinni  5 dögum eftir þá fyrri á vegum heilsugæslunnar. Seinni sýnataka ákvarðast af þeirri fyrri, t.d. ef sú fyrri er á miðvikudegi er sú seinni á mánudegi. Ef seinni sýnataka er neikvæð er sóttkví aflétt.

Sjá nánar um vottorð um fyrri COVID-19 sýkingu eða fulla bólusetningu sem þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að vera viðurkennd.

Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin forskráningu og sýnatöku og þau þurfa heldur ekki að framvísa vottorði um neikvætt próf við komuna. Ef foreldri/forráðamaður fer í sóttkví fer barn einnig í sóttkví en barn losnar úr sóttkví, án sýnatöku, þegar sóttkví foreldris/forráðamanns er aflétt. Ef foreldri/forráðamaður er með vottorð til undanþágu á sóttkví eða barn ferðast eitt, er barnið einnig undanþegið sóttkví.

Sjá leiðbeiningar um sóttkví í heimahúsi  á vef embættis landlæknis.

Ef einstaklingur fær einkenni sem gæti verið COVID-19 eins og hita, hósta, andþyngsli o.fl. skal panta sýnatöku á heilsuvera.is  eða hafa samband við heilsugæslu símleiðis, eða við netspjall heilsuveru.is. Utan dagvinnutíma, við Læknavaktina í síma 1700. Í neyð skal hringja í 112. Ekki skal mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.

  • Ferðamönnum er ráðlagt að gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handhreinsuni með sápu og vatni eða handspritti.
  • Fylgja reglum um sóttkví við komu til Íslands og mæta í seinni sýnatöku á boðuðum degi fyrir þá sem það á við.
  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með kvefeinkenni/hósta eða önnur veikindi.
  • Ekki snerta munn, nef eða augu með óþvegnum höndum. Hreinsið hendur aftur eftir að hafa snert andlitið.
  • Nota pappír fyrir vit við hnerra og hósta og þvo hendur reglulega. Henda skal pappír eftir notkun. Annars hnerra og hósta í olnbogabót.
  • Halda a.m.k. 1 metra fjarlægð frá ótengdum aðilum.
  • Nota andlitsgrímur þar sem það á við.

Fyrst birt 24.02.2020
Síðast uppfært 22.07.2021

<< Til baka