Ráðleggingar til ferðamanna

Íbúum Íslands er ráðið frá ferðalögum áhættusvæða COVID-19. Öll lönd og svæði erlendis eru skilgreind sem áhættusvæði vegna COVID-19. Þeir sem ferðast ættu að sýna varúð og fylgja ráðum um hreinlæti og sóttvarnir.

Ísland fylgir ferðatakmörkunum á ESB/Schengen-svæðis (sjá nánar á vef Útlendingastofnunar).

Öllum sem koma til landsins er skylt að fylla út forskráningarform fyrir komu til landsins og undirgangast tvær COVID-19 sýnatökur (PCR-próf) og sóttkví á milli sýnataka. Ef sýnataka er ekki valin þarf að sæta sóttkví í 14 daga.

Ef sýnataka er valin þá er fyrri sýnataka á landamærum við komu til landsins en sú seinni 5 dögum síðar á vegum heilsugæslunnar. Seinni sýnataka ákvarðast af þeirri fyrri, t.d. ef sú fyrri er á miðvikudegi er sú seinni á mánudegi. Ef seinna próf er neikvætt er sóttkví aflétt.

Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin sóttkví og sýnatöku.

Sjá leiðbeiningar um sóttkví í heimsókn til Íslands og leiðbeiningar um sóttkví í heimahúsi á vef embættis landlæknis. Ef einstaklingur fær einkenni sem gæti verið COVID-19 eins og hita, hósta, andþyngsli o.fl. skal hafa samband við heilsugæslu símleiðis, hafa samband við netspjall heilsuveru.is eða, utan dagvinnutíma, Læknavaktina í síma 1700. Ekki skal mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.

  • Ferðamönnum er ráðlagt að gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni.
  • Fylgja reglum um sóttkví við komu til Íslands og mæta í aðra sýnatöku á boðuðum degi.
  • Handspritt má nota ef ekki er hægt að þvo hendur. Þó skyldi alltaf þvo hendur með sápu og vatni ef þær eru sýnilega óhreinar.
  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni/hósta.
  • Ekki snerta munn, nef eða augu með óþvegnum höndum. Hreinsið hendur aftur eftir að hafa snert andlitið.
  • Nota pappír fyrir vit við hnerra og hósta og þvo hendur reglulega. Henda skal pappír eftir notkun. Annars hnerra og hósta í olnbogabót.
  • Halda 2 metra fjarlægð frá öðrum.
  • Nota hlífðargrímur þar sem það á við.

 


Fyrst birt 24.02.2020
Síðast uppfært 30.10.2020

<< Til baka