Ráðleggingar til ferðamanna

Íbúum Íslands er ráðið frá ferðalögum áhættusvæða COVID-19. Flest lönd eru enn skilgreind sem áhættusvæði vegna COVID-19. Þeir sem ferðast ættu að sýna varúð og fylgja ráðum hér að neðan um hreinlæti og sóttvarnir.

Landamæri Íslands eru opin íbúum og ríkisborgurum EES og Sviss en Ísland fylgir ferðatakmörkunum á ytri landamærum Schengen-svæðisins, sem nú eru í gildi til 30. júní 2020. Frá og með 15. júní 2020 er öllum sem koma til landsins skylt að fylla út forskráningarform fyrir komu til landsins og velja að fara í sóttkví í 14 daga eða undirgangast COVID-19 sýnatöku (PCR-próf). Ef próf er neikvætt er sóttkví undanþegin. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin sóttkví og sýnatöku.

Krafa um sóttkví á við um komu fólks frá löndum sem sóttvarnalæknir skilgreinir sem áhættusvæði. Nánar á vef heilbrigðisráðuneytisins. Reglulega verður endurmetið hvort einhver lönd falli ekki lengur undir þessa skilgreiningu. Sjá nánari upplýsingar hér.

Þeir sem velja að fara í sóttkví, skulu halda sig heima í 14 daga eftir að þeir koma til Íslands, sjá leiðbeiningar til einstaklinga í sóttkví. Ef þeir fá einkenni frá öndunarfærum, sérstaklega með hita, skulu þeir hafa samband við sína heilsugæslu símleiðis, hafa samband við netspjall heilsuveru.is eða Læknavaktina í síma 1700. Ekki skal mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.

  • Ferðamönnum er ráðlagt að gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni.
  • Handspritt má nota ef ekki er hægt að þvo hendur. Þó skyldi alltaf þvo hendur með sápu og vatni ef þær eru sýnilega óhreinar.
  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni/hósta.
  • Ekki snerta munn, nef eða augu með óþvegnum höndum. Hreinsið hendur aftur eftir að hafa snert andlitið.
  • Nota pappír fyrir vit við hnerra og hósta og þvo hendur reglulega. Henda skal pappír eftir notkun
  • Halda 2ja metra fjarlægð frá öðrum eins og kostur er.

 


Fyrst birt 24.02.2020
Síðast uppfært 24.06.2020

<< Til baka