Spurningar og svör varðandi kórónaveiruna/COVID-19

Hvað er kórónaveira?
Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (m.a. fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en aðrar kórónaveirur geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Fyrri sjúkdómshrinur sem vitað er að voru af völdum kórónaveiru voru SARS sem barst frá Kína á árunum 2002–2003 og MERS í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012. SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu eða COVID-19.

 

Hvað er vitað um þessa nýju veiru og faraldurinn á þessu stigi?
Orsök núverandi faraldurs er ný tegund kórónaveiru sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Veiran var fyrst nefnd 2019-nCoV en vegna mikils skyldleika við SARS veiruna hlaut hún nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn kallast COVID-19. Veiran er ekki eins skæð og SARS eða MERS kórónaveirur sem höfðu 10% og 35% dánartíðni, en virðist mun meira smitandi og þessi faraldur hefur nú þegar haft mun meiri áhrif á heimsvísu en SARS faraldurinn hafði. Tíðni alvarlegra veikinda og dauðsfalla er mun hærri meðal ákveðinna hópa en almennt en dánarhlutfall er um 2–3% í heildina, undir 1% fram að fimmtugu en rís eftir það og er um 12–15% hjá elstu einstaklingum. Athugið að sennilega er töluvert mikið um vægari smit á öllum aldri sem lækka þá þessar tölur.  

 

Hvað er verið að gera á Íslandi?
Viðbúnaður á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlun sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

 • Frá 6.3.2020 er unnið samkvæmt NEYÐARSTIGI áætlunar um heimsfaraldur
 • Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna hafa verið uppfærðar og gefnar út.
 • Leiðbeiningar til almennings og ferðamanna um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um COVID-19 hafa verið gefnar út.
 • Viðbragðsáætlanir fyrir alþjóðaflugvelli og hafnir landsins hafa verið gefnar út.
 • Heilbrigðisstofnanir hafa uppfært sínar viðbragðsáætlanir.
 • Frá og með 20. mars í 30 daga er útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, óheimilt að koma til landsins nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda. Sóttvarnalæknir mælir með að Íslendingar og erlendir ríkisborgarar sem eru búsettir á Íslandi sleppi öllum ferðalögum meðan heimsfaraldur gengur yfir.
 • Ekki er talin ástæða til að skima farþega við komu eða brottför á flugvöllum hér á landi, en upplýsingum um COVID-19 og hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið vegna veikinda er dreift til ferðalanga með ýmsum leiðum.
 • Íbúar landsins sem snúa erlendis frá eru beðnir um að viðhafa sóttkví í 14 daga.
 • Einstaklingar sem greinast með COVID-19 fara í einangrun og tengdir aðilar þurfa að fara í sóttkví ef þeir hafa umgengist viðkomandi sjúkling síðustu 24–48 tímana áður en einkenni komu fram. Fyrirmæli um hverjir þurfa að fara í sóttkví koma frá yfirvöldum í hverju tilfelli fyrir sig.
 • Einstaklingar sem þurfa að fara í sóttkví eða einangrun en eiga ekki hér samastað eða ekki er fýsilegt að séu heima við í sóttkví eða einangrun geta fengið inni í sóttvarnahúsi á vegum yfirvalda í samráði við heilbrigðisyfirvöld á hverjum stað.

 

Hvað þýðir samkomubann?

 • Samkomutakmarkanir eru í gildi frá og með 22. mars til 12. apríl. Þetta er gert þar sem smit er komið út í samfélagið til að draga úr dreifingu smits. Með takmörkun er átt við viðburði þar sem fleiri en 20 manns koma saman. Slíkir viðburðir verða þar með óheimilir. Þetta á við alla viðburði, samkomur og aðra staði þar sem fólk kemur saman bæði í einkarýmum og opinberum rýmum.
 • Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað meðan á þessum takmörkunum stendur.
 • Starfsemi og þjónusta sem krefst mikillar nálægðar milli fólks eða skapar hættu á of mikilli nálægð er óheimil. Þar undir fellur allt íþróttastarf og einnig allar hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, s.s. skíðalyftur.
 • Sérstakar reglur gilda um matvöruverslanir og lyfjabúðir. Þar verður heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu, að því gefnu að hægt sé að halda a.m.k. 2 metra fjarlægð milli einstaklinga. Ef matvöruverslanir eru yfir 1.000 m2 er heimilt að hleypa til viðbótar einum einstaklingi fyrir hverja 10 m2 þar umfram en þó aldrei fleiri en 200 viðskiptavinum.
 • Allir aðrir staðir þurfi að tryggja að ekki séu á sama tíma fleiri en 20 manns inni í sama rými. Þetta á t.d. við um vinnustaði, skóla, veitingastaði, mötuneyti, kaffihús, skemmtistaði, kvikmyndahús, leikhús og verslanir. Þessi mörk eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilega starfsemi.
 • Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi þar sem færri en 20 eru saman komnir skal eins og mögulegt er skipuleggja rými þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga og að aðgengi að handþvotti og handspritti sé gott.
 • Framhaldsskólum og háskólum hefur verið lokað. Í mörgum tilfellum geta nemendur ekki mætt í skólabyggingar heldur stunda nám í fjarkennslu.
 • Starf grunnskóla heldur áfram en háð skilyrðum, m.a. að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern dag.
 • Leikskólar mega hafa opið og halda uppi leikskólastarfi ef þeir tryggja að börn séu í fámennum hópum og aðskilin eins og kostur er. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa leikskólabyggingarnar eftir hvern dag.
 • Samkomubannið nær ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna, flugvéla eða skipa.

 

Hvað er smitrakning?
Það hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að hefta útbreiðslu faraldursins. Grundvallaratriði er að greina smit snemma, einangra hinn sýkta og setja þá sem ástæða er til í sóttkví til að forða því að þeir smiti aðra. Snemma í faraldrinum var ráðist í að fræða almenning um smitvarnir og mikil áhersla lögð á að vernda aldraða og aðra áhættuhópa. Á síðari stigum kom einnig til samkomubanns og takmörkun á ýmissi starfsemi til að minnka enn frekar hættu á útbreiðslu.

Umfangsmiklar aðgerðir hafa verið í gangi til að rekja smit, það er að rannsaka hverjir hafa hugsanlega verið útsettir fyrir sýktum einstakling og setja þá í heimasóttkví. Svokallað smitrakningateymi sér um að rekja smit en það er skipað aðilum frá almannavarnadeild lögreglu, landlækni og heilbrigðisstarfsmönnumu. Tölulegar upplýsingar styðja mikilvægi þessa en um helmingur þekktra smita hefur greinst hjá fólki sem þegar er í sóttkví. Það þýðir að þetta fólk var heima við í stað þess að vera úti í samfélaginu og þannig mögulega að smita aðra.

 

Hvað gerir nýtt smitrakningar smáforrit („app“)?
Smitrakning er flókin og það getur verið erfitt fyrir sýkta að muna nákvæmlega hvar þeir hafa verið og hverja þeir hafa umgengist. Því var ákveðið að hanna smáforrit, s.k. „app“, sem ætlað er að auðvelda smitrakningu ef á þarf að halda en slík smitrakningaforrit hafa gefið góða raun í Suður Kóreu og Singapúr.

Notkun forritsins byggir á svokölluðu tvöföldu samþykki notanda, bæði til að taka það í notkun og til miðlunar upplýsinga síðar meir ef þess gerist þörf.

Smáforritið notar GPS staðsetningu og eru upplýsingar um ferðir viðkomandi eingöngu vistaðar á síma notanda. Ef notandi greinist með smit og rakningateymið þarf að rekja ferðir hans þá fær notandi beiðni um að miðla þeim upplýsingum til rakningateymisins. Um leið og rakningateymið biður um aðgang mun það einnig óska eftir kennitölu viðkomandi svo ekki fari á milli mála hver er á bakvið gögnin. Þannig er tryggt að enginn hafi aðgang að þessum upplýsingum nema að notandi vilji. Staðsetningargögnum verður svo eytt um leið og rakningateymið þarf ekki lengur á þeim að halda.

 

Er til bóluefni eða lyf gegn nýju kórónaveirunni?
Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og ekki er vitað um nein veirulyf sem hafa veruleg áhrif á sjúkdómsgang við COVID-19. Ýmis lyf eru í rannsóknum á mismunandi stöðum og er niðurstaða beðið með eftirvæntingu um allan heim. Bóluefni eru einnig á rannsóknarstigi en mun taka töluverðan tíma að fá þau í notkun.

 

Hvaða meðferð er í boði?
Engin lyf eða önnur sértæk meðferð er þekkt við sjúkdómnum en rannsóknir á ýmsum veirulyfjum eru í gangi og er niðurstaða beðið með eftirvæntingu.Einstök lyf er einnig verið að nota í tilraunastigi fyrir ákveðna sjúklinga. Sýklalyf virka ekki því þau virka á bakteríur en kórónaveiran er veira. Meðferð beinist enn sem komið er mest að því að sinna grunnþörfum og einkennum eftir ástandi sjúklings.

 

Hver eru einkennin?
Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, kvefeinkenni, bein- og vöðvaverkir og þreyta, stundum með hálsbólgu. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki áberandi með COVID-19 en eru þó þekkt, líkt og við inflúensu. Eins hefur breytingu eða tapi á bragð- og lyktarskyni verið lýst. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda. Veikindi geta verið langdregin, jafnvel langdregnari en við inflúensu, og virðist vera hætta á öðrum sýkingum í kjölfarið, s.s. bakteríulungnabólgu, svipað og við inflúensu. 

 

Hverjir eru í mestri hættu á að smitast af COVID-19?
Nánir aðstandendur einstaklinga sem hafa veikst af COVID-19 eru í mestri hættu á að smitast sjálfir. Einstaklingar sem í starfi sínu eða félagslífi umgangast náið mikinn fjölda einstaklinga eru einnig í meiri smithættu en þeir sem umgangast fáa aðra. Handhreinsun og almennt hreinlæti eru mikilvægasta vörn gegn smiti.
Ákveðnir skilgreindir hópar sem bregðast þurfa við veikindum annarra, s.s. lögregla, bráðaliðar/sjúkraflutningamenn og heilbrigðisstarfsmenn eiga að hafa aðgang að hlífðarbúnaði við sín störf sem dregur verulega úr smithættu við þær aðstæður.

 

Hverjir eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni?
Líkur á alvarlegum sjúkdómi hækka með hækkandi aldri, sérstaklega eftir 50-60 ára aldur. Einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál eru einnig í aukinni hættu á alvarlegri sýkingu ef þeir smitast af COVID-19 sjúkdómi. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef þessi vandamál eru til staðar, en þegar borin eru saman væg og alvarleg tilfelli er greinilegt að ákveðin vandamál voru til staðar hjá mun fleirum með alvarlegan sjúkdóm en vægan sjúkdóm. Þessi vandamál eru: Hjarta- og lungnasjúkdómar, sykursýki, langvinn nýrnabilun og krabbamein. 

Einstaklingar sem reykja virðast vera í aukinni hættu á alvarlegum sjúkdómi en ekki er hægt að útiloka að þar sé í raun langvinn lungnateppa undirliggjandi vandamál sem eykur alvarleika sjúkdómsins.

Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu.

 

Eru börn og unglingar í hættu?
Allir geta sýkst af kórónaveiru en mjög lítið virðist vera um alvarlegar sýkingar meðal barna. Upplýsingar um sjúkdómsgang hjá börnum eru takmarkaðar enn sem komið er. Börn með alvarlega langvinna sjúkdóma ættu mögulega að forðast margmenni, þ.m.t. í skólum. Rétt er að ítreka hreinlæti og sérstaklega tíðan handþvott við öll börn bæði í skólanum og annars staðar (sjá einnig „Hvað get ég gert til að forðast smit“). Nýlegt yfirlit yfir COVID-19 sjúkdóminn hjá 2143 börnum í Kína (1/3 staðfest tilfelli með prófi en hin 2/3 með grun um COVID-19) sýndi að börn á öllum aldri geta smitast en einkenni voru yfirleitt vægari en hjá fullorðnum þó hugsanlegt sé að ung börn (yngri en 6 ára) fái alvarlegri sýkingar (en þar sem meirihluti tilfella var ekki staðfest COVID-19 gætu börnin líka hafa verið með RSV eða inflúensu).

 

Eru barnshafandi konur í sérstakri áhættu?
Frá 36. viku meðgöngu er æskilegt að halda sig sem mest heima. Ástæðan er ekki sú að þú sért í aukinni hættu á að fá COVID-19 smit/sjúkdóm heldur bæði til að minnka líkur á því að smitast og til að draga úr líkum á því að smita heilbrigðisstarfsfólk. Það er mikilvægt að vernda starfsemi fæðingadeilda eins og hægt er og minnka líkur á því að kona sé smituð þegar hún kemur í fæðingu. Ef þess er kostur er æskilegt að reyna að vinna heima á þessum tíma eftir því sem við á.

Sjá upplýsingar á vef heilsugæslunnar um meðgöngu, mæðravernd og COVID-19. Ef nýjar upplýsingar berast verður þeim bætt við hér.

 

Er hægt að greina nýja kórónaveirusýkingu á Íslandi?
Já. Próf til að greina nýja kórónaveiru er gert á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Læknir metur hvort taka skuli sýni og framkvæmir sýnatöku. Ekki er mælt með að taka sýni hjá einkennalausum til að leita að COVID-19 en niðurstaða prófsins er yfirleitt neikvæð þar til einkenni koma fram. Skimun einkennalausra einstaklinga í samfélaginu fer nú einnig fram í sérstöku verkefni Íslenskrar erfðagreiningar í samvinnu við embætti landlæknis og Landspítala.

 

Hvað er vitað um smit manna á milli?
COVID-19 smitast á milli einstaklinga. Smitleið er snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og annar einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur mengast af dropum og viðkomandi ber þær svo upp að andliti sínu. Fólk virðist ekki vera smitandi á meðgöngutíma sýkingar áður en einkenni koma fram en sumir fá lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi. Með því að hrækja getur hráki borist til annarra og því ætti aldrei að gera það á almannafæri hvorki innanhús né utandyra.

 

Hver er hættan á frekari útbreiðslu?
Sýkingin hefur borist með mörgum einstaklingum frá nokkrum mismunandi stöðum til Íslands og hafa smitaðir einstaklingar ekki allir verið í sóttkví eða einangrun frá komunni til landsins. Smit er nú í samfélaginu og líkur eru á aukinni útbreiðslu á næstunni áður en búist er við að faraldurinn hjaðni.

 

Af hverju er Íslendingum ráðlagt að fara í sóttkví eftir að hafa verið, en ferðamönnum sem hingað koma ekki?

 • Þeir sem eru búsettir á Íslandi og eru þátttakendur í íslensku samfélagi er hættara við að smita út frá sér hér á landi ef þeir veikjast heldur en ferðamenn. Þetta gildir bæði um íslenska ríkisborgara og erlenda sem eru búsettir hér.
 • Ef ferðamenn sem eru hér á ferðalagi gefa sig fram vegna veikinda eða tengsla við veika einstaklinga með COVID-19 verða þeir einnig settir í einangrun eða sóttkví.

 

Af hverju er ekki skimun fyrir kórónaveirunni á flugvellinum hér?
Ekki er ráðlagt að leita að veirunni hjá einkennalausum ferðalöngum þar sem hún finnst yfirleitt ekki fyrr en einkenni koma fram. Hitamælingar og spurningalistar til farþega frá sýktum svæðum hafa verið notaðir í fyrri faröldrum með litlum sem engum árangri. Sóttkví þeirra sem hafa verið á áhættusvæðum og leit að veirunni ef einkenni koma fram er mun vænlegri til árangurs. Veikir einstaklingar og einstaklingar sem hafa umgengist veika einstaklinga eru einnig hvattir til að gefa sig fram til að þeir geti fengið læknishjálp og ráð um hvernig þeir geta takmarkað smithættu til annarra. 

 

Hvað get ég gert til að forðast smit?
-Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur.

-Handspritt má nota ef hendur eru ekki sýnilega óhreinar eftir snertingu sameiginlegra snertiflata s.s. hurðahúna eða eftir meðhöndlun peninga eða greiðslukorta.

-Rétt er að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta.

-Grímur nýtast best þegar veikir nota þær til að hindra dreifingu dropa en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt, s.s. fyrir heilbrigðisstarfsmenn eða aðra viðbragðsaðila þegar þeir hlúa að veikum.

-Við þrif eftir aðra, s.s. í veitingasölum eða á almenningssalernum ætti að nota einnota hanska en mikilvægt er að taka af sér hanska þegar slíkum verkum er lokið og þvo vel hendur. Sjá nánar hér.

-Hanskar. Við mælum ekki með að hanskar séu notaðir að staðaldri, heldur ekki í verslunum. Það veitir falska öryggiskennd og stöðug notkun ýtir undir að farið sé á milli hreinna og óhreinna, án þess að skipt sé um hanska. Fólk á að þvo sér um hendurnar og þurrka vel áður en matvæli eru snert og eða matar er neytt,  alltaf eftir salernisferðir og þegar hendurnar mengast. Komist viðkomandi ekki í handlaug til að þvo sér er ráðlagt að nota handspritt í stað handþvottar. Ef fólk vill nota hanska t.d. við afgreiðslu eins og í bakaríum, þá þarf að fara í hreina hanska fyrir hverja afgreiðslu og henda þeim gömlu.

 

Get ég smitast af COVID-19 við að opna vörusendingar?
Nei. Líkurnar á að sýktur einstaklingur hafi mengað vörur eru mjög litlar og líkur á að smitast af vörusendingu sem hefur tekið tíma í sendingu við mismunandi aðstæður og hitastig eru líka litlar. Ekkert smit hefur verið rakið til mengaðra vörusendinga. Við tilraunaaðstæður (stöðugt hita- og rakastig á rannsóknarstofu) gat veiran lifað allt að 24 tíma á pappa (van Doramalen, et al. NEJM 17. mars, 2020).

 

Getur veiran lifað utan líkama? Getur veiran borist með pappír (dagblöð/bækur/bréf)?
Það er óljóst hvað veiran lifir lengi utan líkama á ýmsu yfirborði ef yfirborð hluta mengast frá sýktum einstakling. Rannsóknir benda til að kórónaveirur (þ.m.t. takmarkaðar rannsóknir á COVID-19 veirunni) geti lifað utan líkama í einhverjar klukkustundir upp í mesta lagi nokkra daga. Þetta er mismunandi eftir aðstæðum (t.d. tegund yfirborðs, hita og rakastigi umhverfis). Veiran virðist lifa lengur utan líkama á hörðu og köldu yfirborði heldur en á mjúku efni eins og pappír (van Doramalen, etal. NEJM 17. mars, 2020).

Pósturinn og önnur slík fyrirtæki sem sjá um dreifingu bréfa, blaða og þess háttar eru meðvitaðir um hreinlæti og hanskanotkun og vinna eftir verklagsreglum sem tryggja hreinlæti og smitgát. Veiran virðist ekki lifa lengi á pappír eða plasti en ekki er alveg vitað hversu lengi. Sýktur einstaklingur þyrfti fyrst að menga pappír með vessa (munnvatni) og viðtakandi að mengast af því með því að snerta og bera í andlit sér svo veiran komist í slímhúð gegnum augu, munn eða nef).

Ef þú hefur áhyggjur að yfirborð gæti verið mengað skaltu þrífa það með vatni og sápu eða sótthreinsiefni. Hreinsa skal hendur með sápu og vatni eða handspritti og varast að snerta andlit (augu, munn eða nef).

 

Er hætta á því að matvæli geti borið smit?
Ekkert bendir til þess að kórónuveiran berist með matvælum skv. áliti matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Þeir sem eru í einangrun ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra.

 

Getur veiran borist með ferskum ávöxtum og grænmeti?
Veiran þrífst ekki í ávöxtum og grænmeti, né öðrum matvælum. Hins vegar gæti hún setið á yfirborði eftir dropasmit (hnerra eða hósta frá sýktum einstaklingi) en ekki er vitað hversu lengi. Matvælastofnun hvetur neytendur, nú sem áður, til að skola vel ávexti og grænmeti fyrir neyslu.

 

Getur veiran borist með umbúðum matvæla?
Það er mjög ólíklegt að menn smitist af COVID-19 við snertingu matvælaumbúða. Handþvottur eftir verslunarferð er góð venja. Fylgið leiðbeiningum um handþvott og smitvarnir.

 

Hvað þýðir að vera útsettur fyrir COVID-19 smiti?
-Einstaklingur sem hefur umgengist veikan einstakling með COVID-19 hefur verið útsettur. Með því er átt við að hafa verið innan við 1–2 metra frá veikum einstaklingi meðan hann var með hósta eða hnerra, eða hafa snert hann, sofið í sama rúmi, dvalið í sama húsnæði eða verið í sama farartæki. 

-Heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með COVID-19 hafa líka mögulega verið útsettir, en notkun hlífðarbúnaðar við slík störf minnkar verulega smithættu.

-Einkenni COVID-19 koma fram innan 14 daga frá smiti, svo aðeins þeir sem hafa verið útsettir innan 14 daga eru álitnir í hættu á að veikjast. Ferðamenn geta verið útsettir fyrir veirunni án þess að vita af því og þess vegna er mælt með sóttkví þeirra sem hafa verið á áhættusvæðum.

 

Hvað er sóttkví?
Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki ennþá veikur (er einkennalaus). Þú gætir hafa smitast ef þú hefur verið á ferðalagi á skilgreindum áhættusvæðum hefur umgengist fólk sem svo greinist með COVID-19. Aðrir á þínu heimili sem voru útsettir fyrir smiti á sama tíma geta verið samtímis í sóttkví á sama stað. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á heimili. Heimild sóttvarnalæknis til að grípa til slíkra ráðstafana er lögð fram í 12. grein sóttvarnalaga.

 

Hvernig fæ ég vottorð/staðfestingu um sóttkví?
Einstaklingar þurfa að vera skráðir í sóttkví til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð um slíkt. Þeir hafa þá annað hvort farið í sóttkví vegna ferðalaga eða hafa verið skráðir í sóttkví af heilsugæslunni eða rakningateymi skv. fyrirskipun sóttvarnalæknis.

 • Einstaklingar með rafræn skilríki geta skráð sig sjálfir í sóttkví á heilsuvera.is (eingöngu sóttkví fyrirskipuð af yfirvöldum sbr. að ofan en ekki sjálfskipuð sóttkví)
 • Ef einstaklingar eru ekki með rafræn skilríki þá skrá þeir sig í sóttkví á sinni heilsugæslu.
 • Þegar skráning er frágengin þá er hægt að sækja vottorð/staðfestingu um sóttkví á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum.
 • Ef einstaklingar eru ekki með rafræn skilríki og þurfa vottorð/staðfestingu um sóttkví þá geta þeir sent beiðni á mottaka@landlaeknir.is með efnislínuna: Staðfesting á sóttkví og fá það þá sent í tölvupósti.

Þetta má sjá nánar hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/03/23/Rafraen-utgafa-vottorda-til-stadfestingar-a-sottkvi/

 

Hvað er einangrun?
Einangrun á við sjúklinga með einkenni og staðfestan sjúkdóm (eða bíður eftir niðurstöðu). Sjá leiðbeiningar fyrir einstaklinga í einangrun. Heimild sóttvarnalæknis til að grípa til slíkra ráðstafana er lögð fram í 12. grein sóttvarnalaga.

Á meðan þú ert í einangrun mun starfsfólk heilbrigðisþjónustu hafa samband við þig daglega. Fleiri en einn sem greinst hafa með smit mega dveljast saman í einangrun.

Einangrun er strangara úrræði en sóttkví og leggur því auknar kröfur á þann sem er í einangrun umfram þær sem gilda um sóttkví.

 

Hvernig fæ ég vottorð um einangrun?
Vottorð/staðfesting vegna einangrunar þarftu að nálgast hjá þínum lækni.

 

Hvað er úrvinnslusóttkví?
Úrvinnslusóttkví er tímabundin ráðstöfun þar sem sóttkví er skipuð á meðan unnið er að smitrakningu. Meðan á úrvinnslusóttkví stendur eru aðilar í sóttkví (einstaklingur, heimili, bær, landsvæði) og þeir fara eftir leiðbeiningum um sóttkví, nema ef allir á heimili eru undir þessari ráðstöfun þá má einn af hverju heimili yfirgefa heimilið í einu til að afla aðfanga.

Úrvinnslusóttkvíin gildir ekki um lífsnauðsynlega starfsemi á svæðinu, s.s. hjúkrunarheimili, sjúkrahús og dreifingu og verslun með matvæli og eldsneyti.

 

Ég var á ferðalagi erlendis, get ég hafa verið útsett(ur) fyrir COVID-19?
-Einstaklingar sem hafa dvalið erlendis (áhættusvæði) undanfarna 14 daga eru taldir hafa verið útsettir og ættu að vera í sóttkví. Þeir eru beðnir um að skrá sig hjá sinni heilsugæslustöð eða hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 til að fá frekari ráðleggingar. Mikilvægt er að taka fram hvar ferðast var um. Með dvöl erlendis er átt við a.m.k. 24 klst.

-Flug gegnum flugvöll kallar yfirleitt ekki á sóttkví. Ef tilfelli koma upp í flugvél geta þeir sem næstir sátu þeim veika eða jafnvel öll vélin eftir atvikum þurft að fara í sóttkví, slíkt er metið í hverju tilviki fyrir sig.

 

Ég er á ferðalagi og komin með einkenni sýkingar, hvað á ég að gera?
Ef þú ert erlendis og færð einkenni sem gætu verið vegna COVID-19 máttu ekki fara í flug. Það á að útiloka COVID-19 sýkingu þar sem þú ert. Ef einkenni reynast ekki vera vegna COVID-19 og ekki um eiginleg veikindi að ræða má fara í flug (helst innan 24 tíma frá læknisskoðuon/prófi en reglur geta verið mismunandi eftir löndum) með vottorð um að einkennin séu ekki vegna COVID-19. Ekki er mælt með að fljúga meðan veikindi standa þar sem það getur valdið smithættu fyrir aðra í vélinni og ótta, þótt ekki sé um COVID-19 að ræða.
Einkennalausir einstaklingar sem eru á ferðalagi sem fá einkenni á leiðinni, ættu að láta áhöfn flugvélar vita af sér og biðja um grímu, passa handhreinsun o.fl.

 

Ég á bókaða ferð til útlanda, á ég að hætta við að fara?
Sóttvarnalæknir og íslensk stjórnvöld ráða Íslendingum frá ferðalögum og hvetja Íslendinga á ferðalagi erlendis til að íhuga að flýta heimför.

-Einstaklingar með áhættuþætti fyrir alvarlegum öndunarfærasýkingum (sjá "Hverjir eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni?") ættu að hafa samráð við sinn lækni ef ferð er talin nauðsynleg.

 

Getur fólk þurft að fara aftur í sóttkví sem kemur að utan?
Það hefur verið miðað við það að fólk þurfi ekki að fara aftur í sóttkví ef það hefur lokið sinni sóttkví í útlöndum, en þetta fer eftir aðstæðum. Þetta á yfirleitt við formlega sóttkví undir eftirliti. Ef kæmi upp tilfelli í grennd við það í flugvél á leið heim eða það hitti einhvern nákominn hér sem reynist svo smitandi gæti þetta einnig átt við.

Má ég nota almenningssamgöngur eftir að ég lendi í Keflavík (innanlandsflug/rútu/leigubíl) ef ég kem frá áhættusvæði?
Almennt er ráðlagt að hefja sóttkví þegar lent er á Íslandi og forðast að nota almenningssamgöngur frá Keflavík. Fólk þarf að nota almenningssamgöngur til að komast til Íslands en biðlað er til fólks að nýta eftir það, eins og hægt er, ekki almenningssamgöngur og halda í lágmarki samneyti við annað fólk.

Þér er því ráðlagt að keyra frekar en að taka rútu, leigubíl eða innanlandsflug. Ef þú færð einkenni innan tveggja daga frá því að þú komst heim þá myndi smitrakningateymi sóttvarnalæknis hafa samband og rekja ferðir þínar aftur um tvo daga. Loftgæðin eru betri í flugvél og því yrðu þeir sem eru tveimur sætaröðum fyrir framan og aftan þig beðnir um að fara í sóttkví. Hins vegar þyrfti öll rútan að fara í sóttkví ef þú ferðast með rútu. Ef þú ferðast í bíl eru það einungis aðrir sem eru með þér í bílnum sem þurfa að fara í sóttkví.

Ef fólk sem þarf að fara í sóttkví er ekki með bíl á Keflavíkurflugvelli þá er t.d. hægt að biðja ættingja eða vini um að keyra á tveimur bílum til Keflavíkur, skilja annan eftir og skilja lyklana eftir fyrir ferðalangana til að taka bílinn heim. Eða taka bílaleigubíl.

 

Ég er sóttkví og þarf að gista í Reykjavík áður en ég fer heim út á land, hvað geri ég? /Aðstandandi minn er í áhættuhóp get ég farið í sóttkví annars staðar en heima?
Það er engin sérstök gisting í boði fyrir þá sem eru í sóttkví, þú verður að sjá um það sjálfur/sjálf og meta aðstæður. Fólk sem er í sóttkví getur umgengis aðstandendur og hægt er að bóka hótel og láta það vita af aðstæðum. En biðlað er til þess að halda í lágmarki samneyti við annað fólk og leggja ofuráherslur á hreinlæti og önnur sóttvarnarráð.

 

Á að hætta við ráðstefnur og aðrar fjölmennar samkomur, loka söfnum o.s.frv.?
Heilbrigðisráðherra tilkynnti 13. mars 2020 þá ákvörðun að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur. Þann 22. mars var samkomubann útvíkkað til 12. apríl (sbr. að ofan Hvað þýðir samkomubann?)

Samkomubannið takmarkar samkomur við 20 manns og ná takmarkanirnar til landsins alls. Auk þess þarf að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum á öllum viðburðum, sjá nánar að ofan.

Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað meðan á þessum takmörkunum stendur.
Starfsemi og þjónusta sem krefst mikillar nálægðar milli fólks eða skapar hættu á of mikilli nálægð er óheimil. Þar undir fellur allt íþróttastarf og einnig allar hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og önnur sambærileg starfsemi.

Sjá nánari leiðbeiningar um samkomubannið á covid.is

 

Ég tel mig vera í áhættuhópi fyrir alvarlega COVID-19 sýkingu, hvað á ég að gera?
Mjög mikilvægt er að gæta hreinlætis í umgengni við aðra einstaklinga og fresta ferðalögum, óháð áhættuþáttum fyrir alvarlegum veikindum. Mögulega þurfa einstaklingar í áhættuhópum að draga verulega úr umgengni við aðra, sjá leiðbeiningar til áhættuhópa. Einstaklingar geta leitað nánari leiðbeininga til sinna lækna.

 

Ég hef verið útsett(ur) fyrir COVID-19 smiti, hvað á ég að gera?
Samfélagssmit á Íslandi er að aukast. Ef þú hefur verið á ferðalagi undanfarna 14 daga eða á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, en hefur engin einkenni sjúkdómsins nú, er þér bent á að hafa samband við vaktsíma Læknavaktarinnar í 1700 eða þína heilsugæslustöð til að fá nánari leiðbeiningar. Íslendingum og öðrum með búsetu á Íslandi er skylt að fara í tveggja vikna sóttkví eftir heimkomu erlendis frá. Sjá leiðbeiningar um sóttkví.

 

Ég hef verið útsett(ur) fyrir COVID-19 smiti og er að veikjast, hvað á ég að gera?
Ef þú hefur einkenni COVID-19 (hósti, hiti, kvefeinkenni, bein- og vöðvaverkir og þreyta, stundum með hálsbólgu) eða hefur á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, og þú hefur einkenni sem gætu tengst COVID-19 er þér bent á að hafa samband við heilsugæsluna þína eða Læknavaktina í síma 1700 til að fá nánari leiðbeiningar. Ef um neyðartilvik er að ræða, hringið í 112.

Munið að nefna ferðasögu m.t.t. COVID-19 í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna og 112. Ekki fara á sjúklingamóttöku, heilsugæslu, Læknavakt eða sjúkrahús án þess að hafa látið vita af þér fyrirfram. Meðan þú bíður niðurstöðu læknisskoðunar og/eða rannsókna getur verið gagnlegt að fara eftir leiðbeiningum fyrir einstaklinga í einangrun. Ef samskipti við aðra eru óhjákvæmileg er rétt að vera með grímu fyrir andlitinu eða að lágmarki nota bréf fyrir munn og nef við hósta og hnerra.

 

Mega einstaklingar sem eru í sóttkví en ekki á sama heimili halda áfram umgengni hver við annan?
Nei. Það lengir sóttkví þegar þeir veikjast svo einn af öðrum, einnig er mögulega hætta á smitmögnun sem er þekkt fyrirbæri við aðrar veirusýkingar svo sem hlaupabólu, þ.e. að þeir sem eru útsettir endurtekið eða yfir langan tíma fái alvarlegri einkenni.

 

Hvernig er einangrun aflétt eftir COVID-19 sýkingu?
Læknar COVID-19 teymis Landspítala sjá um útskriftarsímtöl fyrir einstaklinga sem útskrifast úr einangrun. Þeir þurfa að uppfylla bæði eftirfarandi skilyrði og staðfesta það í samtali við lækni:

 • Að komnir séu a.m.k. 14 dagar frá jákvæðu sýni (greiningarsýni)
 • Að hafa verið einkennalausir í 7 daga

Þá fá allir þau tilmæli að huga sérstaklega vel að handþvotti og hreinlæti í tvær vikur eftir að einangrun hefur verið aflétt. Þá ber þeim einnig að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga svo sem eldra fólk og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma í a.m.k. 2 vikur.

Sérstök tilvik:

 • Einkennalausir einstaklingar: Krafist er að einstaklingur hafi verið alveg hitalaus, alveg laus við slappleika/veikindatilfinningu, hósta, mæði og nefrennsli í viku, og meira en 14 dagar frá jákvæðu prófi.
 • Sambýlisfólk í sóttkví og einangrun saman: Aflétta má sóttkví sambýlismanna þess sem var í einangrun þegar liðnir eru 14 dagar frá seinustu útsetningu (bein snerting, náin umgengni, deilt salerni, nálægð undir 1–2 m í 15 mín eða meira) þeirra fyrir veika einstaklingnum.
 • Sambýlisfólk allt í einangrun saman: Þegar fyrsta einstaklingnum í hópnum batnar, er hægt að leysa hann úr einangrun (sbr. að ofan) með því skilyrði að hinir veiku verði áfram í einangrun gagnvart hinum læknaða og öðrum. Ef ekki er hægt að aðskilja hinn læknaða frá hinum sem ennþá eru veikir, verður að hafa þá alla saman og er þá einangrun ekki aflétt fyrr en sá seinasti útskrifast úr einangrun. Mikilvægt er að allir heimilismenn þrífi sig og heimili vel áður en einangrun er aflétt.
 • Heilbrigðisstarfsfólk: Sömu reglur og um aðra, þarf þó að huga að verkefnum viðkomandi þegar hann snýr aftur til starfa (viðkvæmir hópar). Læknir og yfirmaður meta hvert tilfelli fyrir sig.

 

Geta húsdýr eða gæludýr smitast af nýju COVID-19 veirunni, og geta þau orðið veik?
Talið er að veiran sé upprunin í dýrum, líklega leðurblökum en er nú aðlöguð að mönnum og fyrst og fremst lýðheilsuvandamál meðal manna. Engum sjúkdómi eða útskilnaði á þessari veiru hefur verið lýst hjá húsdýrum eða gæludýrum. Matvælastofnun fylgist með þekkingarþróun á þessu sviði og verða upplýsingar hér uppfærðar eins og við á.

 

Geta einstaklingar sem eru smitaðir af COVID-19 veirunni verið í kringum gæludýrin sín?
Það er engin ástæða fyrir fólk að vera ekki með gæludýrunum sínum og þau geta veitt mikilvægan andlegan stuðning við erfiðar aðstæður. Að þvo hendur eftir snertingu við dýr er góð venja og almennt ætti að forðast að hundar sleiki fólk í andlitið eða hendur. Það er í lagi að fara út með hundinn að því gefnu að leiðbeiningum varðandi sóttkví í heimahúsi og einangrun í heimahúsi sé fylgt. Ekki er staðfest að gæludýr geti smitast af fólki.

 

Get ég gætt dýra einhvers sem er smitaður af COVID-19 veirunni eða er í sóttkví í heimahúsi?
Já, þú getur gætt gæludýra einstaklinga sem eru í sóttkví eða eru veikir af COVID-19 veirunni, en gæta samt fyllsta hreinlætis. Forðast skal að láta gæludýr sleikja andlit eða hendur og ávallt skal þvo hendur eftir snertingu við dýrin.

 

Ætti fólk sem hefur verið erlendis að takmarka snertingu við dýr þegar það snýr aftur heim?
Mælst er til þess að þú haldir þig heima í 14 daga í sóttkví eftir heimkomu. Fyrir einstaklinga sem eru með matvælaframleiðandi dýr á heimili eða í nálægð við heimili, er mælt með því að takmarka snertingu við slík dýr meðan á sóttkví eða einangrun stendur. Matvælastofnun minnir líka á að einstaklingur sem hefur verið í snertingu við húsdýr erlendis umgangist ekki matvælaframleiðandi dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.

Fleiri spurningar og svör varðandi umgengni við dýr er að finna á vef Matvælastofnunar.  


Fyrst birt 27.01.2020
Síðast uppfært 02.04.2020

<< Til baka