Spurningar og svör varðandi kórónuveiruna SARS-CoV-2 og COVID-19

Sjá einnig spurningar og svör varðandi bólusetningu gegn COVID-19

--------------

(English)

 

Um kórónuveiruna SARS-CoV-2

Hvað er kórónuveira?
Kórónuveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (m.a. fuglum og spendýrum). Kórónuveirur eru þekkt orsök kvefs en aðrar kórónuveirur geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Fyrri sjúkdómshrinur sem vitað er að voru af völdum kórónuveiru voru SARS-CoV sem barst frá Kína á árunum 2002–2003 og MERS í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012. SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu.

 

Hvaða kórónuveira er valdur að núverandi faraldri?
Orsök núverandi faraldurs er ný tegund kórónuveiru sem hafði ekki áður greinst í mönnum. Veiran var fyrst nefnd 2019-nCoV en vegna mikils skyldleika við SARS veiruna hlaut hún nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn sem hún veldur COVID-19. Talið er að veiran hafi borist í menn frá dýri en ekki hefur verið staðfest hvaða dýri þó leðurblökur séu taldar líklegar. Veiran var fyrst ekki talin eins skæð og SARS eða MERS kórónuveirur, en í ljós kom að hún var mjög smitandi og faraldurinn hefur haft mun meiri áhrif á heimsvísu en SARS og MERS faraldrarnir höfðu. 

 

Eru börn og unglingar í hættu?
Hlutfallslega fá smit af COVID-19 greindust framan af hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri af upprunalegu veirunni og delta afbrigði. Hins vegar greinast mun fleiri börn af ómíkron afbrigði veirunnar en flest börn fá væg einkenni. Að sama skapi þó börn hafi sjaldan smitað aðra framan af þá hefur það aukist með tilkomu ómíkron og þá sérstaklega innan heimilis. Allir geta sýkst af kórónuveiru og þó mjög lítið sé um alvarlegar sýkingar meðal barna gerist það þó. Rétt er að ítreka varkárni í umgengni við aðra, hreinlæti og sérstaklega tíðan handþvott við öll börn bæði í skólanum og annars staðar. 

Upplýsingar á covid.is og á vef Umboðsmanns barna.

 

Eru börn með langvinna sjúkdóma í sérstakri áhættu?
Börn á öllum aldri hafa smitast af veirunni. Lítið er um alvarlegar sýkingar meðal barna þó það geti gerst. Börn með ákveðna langvinna sjúkdóma þola mögulega COVID-19 sýkingu verr en önnur börn og geta fengið alvarlegri einkenni ef þau sýkjast (Sjá ráðleggingar Barnaspítala Hringsins). Best er að ræða stöðu hvers og eins við lækni barnsins. Rétt er að ítreka varkárni í umgengni við aðra, hreinlæti og sérstaklega tíðan handþvott við öll börn bæði í skólanum og annars staðar.

 

Eru barnshafandi konur í sérstakri áhættu?
Upplýsingar benda til að barnshafandi konur séu í aukinni áhættu á alvarlegum veikindum vegna COVID-19 umfram aukna áhættu sem tengist meðgöngu almennt. Líkami kvenna verður fyrir ýmsum breytingum á meðgöngu sem gerir barnshafandi konur almennt viðkvæmari fyrir sýkingum. Rannsóknir benda til að barnshafandi konur smitist ekki frekar af COVID-19 en ef þær sýkjast þá eru þær líklegri til að leggjast inn á gjörgæslu og hugsanlega þurfa á öndunaraðstoð að halda og að dánartíðni sé jafnvel lítillega aukin en hjá jafnöldrum. Hærri aldur (>35 ára), ofþyngd, háþrýstingur og sykursýki virðast meðvirkandi áhættuþættir. Barnshafandi konur ættu, eins og aðrir, að huga vel að persónulegum sóttvörnum og hreinlæti og almennt leita ráða hjá sínum lækni. Konur sem eru barnshafandi og með aðra áhættuþætti er einnig sérstaklega bent á að ræða við sinn lækni.
Sjá einnig skjal um áhættuhópa.

Hér má finna upplýsingar frá heilsugæslunni á vef heilsugæslunnar um meðgöngu, mæðravernd og COVID-19.

  

Aðgerðir á Íslandi

Hvaða aðgerða var gripið til á Íslandi?
Viðbúnaður á Íslandi var samkvæmt viðbragðsáætlun sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Það var gripið til umfangsmikilla aðgerða til að hefta útbreiðslu faraldursins. Öllum takmörkunum var síðan aflétt í lok febrúar 2022. Sjá yfirlit yfir viðbrögð á Íslandi á covid.is.

 

Hvað þýðir takmörkun á samkomum (samkomubann)?

Samkomutakmarkanir: Gripið var til ýmissa takmarkanna á samkomum og starfsemi til að draga úr dreifingu smits í samfélaginu vegna farsóttar. Gildandi takmarkanir voru birtar í reglugerð, sem birtar voru í Stjórnartíðindum. Sjá nánar um viðbrögð á Íslandi á covid.is

 

Smit og smitrakning

Hvað er vitað um smit manna á milli?
COVID-19 smitast á milli einstaklinga. Smitleið er úða/loft-, snerti- og dropasmit, svipað og hlaupabóla. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og annar einstaklingur andar að sér úða frá þeim veika eða hendur mengast af dropum og viðkomandi ber þær svo upp að andliti sínu. Úðasmit eða loftborið smit felur í sér að veiran getur hangið í loftinu í mjög fínum úða frá öndunarfærum. Þá getur smitaður einstaklingur verið farinn úr rými s.s. herbergi eða lyftu þar sem loftræsting er léleg en veiran enn verið í loftinu í smátíma og næstu einstaklingar sem nota rýmið eða lyftuna andað henni að sér og smitast.

Með því að hrækja getur hráki borist til annarra og því ætti aldrei að gera það á almannafæri hvorki innanhúss né utandyra.

Sýnt þykir nú að fólk geti smitað í 1–2 daga áður en einkenni koma fram. Sumir fá einnig lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.

 

Hverjir eru í mestri hættu á að smitast af COVID-19?
Aðstandendur á heimili með einstakling(um) veikum af COVID-19 eru í mestri hættu á að smitast sjálfir. Einstaklingar sem í starfi sínu eða félagslífi umgangast náið mikinn fjölda einstaklinga eru einnig í meiri smithættu en þeir sem umgangast fáa aðra. Grímunotkun, handhreinsun og almennt hreinlæti eru mikilvægar varnir gegn smiti.
Ákveðnir skilgreindir hópar sem bregðast þurfa við veikindum annarra, s.s. lögregla, bráðaliðar/sjúkraflutningamenn og heilbrigðisstarfsmenn hafa aðgang að hlífðarbúnaði við sín störf sem dregur verulega úr smithættu við þær aðstæður.

 

Er hægt að sýkjast aftur af COVID-19?
Endursýkingar gerast en þær eru sjaldgæfar (hérlendis í febrúar 2022 höfðu 2% smitast aftur). Líkur á endursýkingu minnka eftir bólusetningu. Aðal smitleið COVID-19 er úða- og dropasmit en smit getur einnig borist manna á milli með snertismiti. Því eru allir hvattir til að sinna reglulegri handhreinsun, forðast sameiginlega snertifleti sem mest og virða nándarmörk eins og kostur er.

Hvað er smitrakning?
Umfangsmiklar aðgerðir voru lengst af í gangi til að rekja smit til að finna þá sem hugsanlega voru útsettir fyrir sýktum einstakling til að setja þá í heimasóttkví. Smitrakningateymi sóttvarnalæknis og almannavarna, tók ákvörðun í hverju tilfelli fyrir sig hverjir þurfa að fara í sóttkví eftir samskipti við smitaða. Tölulegar upplýsingar styðja mikilvægi rakningar. Ef útsettir aðilar eru í sóttkví og reynast svo smitaðir þýðir að þetta fólk var heima við í stað þess að vera úti í samfélaginu og þannig mögulega að smita aðra. Þann 11. febrúar 2022 voru reglur um sóttkví innanlands afnumdar.

 

Hvað gerir smitrakningar smáforritið Rakning C-19?
Smáforritið („appið“) Rakning C-19 notar „bluetooth“ tækni til að nema önnur símtæki sem einnig eru með appið og hafa verið í nánd við smitaðan sem getur þá sent skilaboð til útsettra. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru notaðar eða sendar. Nánar.

 

Bóluefni og meðferð

Sjá um bóluefni og bólusetningu gegn COVID-19 á covid.is

 

Hvaða meðferð er í boði?
Ýmis veirulyf hafa verið í rannsóknum og önnur eru komin á markað. Á vef Lyfjastofnunar má finna upplýsingar um lyf vegna COVID-19. Sýklalyf virka ekki því sýklalyf virka á bakteríur en SARS-CoV-2, sem veldur COVID-19, er veira. Lyf gegn árlegri inflúensu virka almennt ekki heldur þó einhver þeirra, t.d. favipiravir, hafi verið notað til meðferðar á COVID-19. Meðferð beinist enn mest að því að sinna grunnþörfum og einkennum eftir ástandi sjúklings (t.d. gefa súrefni, gefa vökva í æð) en lyf eru notuð fyrir suma sjúklinga. Fyrir sjúklinga innlagða á sjúkrahús hér á landi hafa lyfin Remdesivir og Tocilizumab verið notuð við alvarlegum sjúkdómi auk dexametasón, sem er barksteri.

Remdesivir er veirulyf sem var prófað við ebólu en Dexametasón er barksteri sem hefur lengi verið notaður við ýmsum öðrum sjúkdómum. Bráðabirgðarannsóknir á Remdesivir benda til þess að lyfið stytti veikindatímann og hugsanlega lækki dánartíðni hjá innlögðum sjúklingum og eru með undirliggjandi áhættuþætti. Þá hafa rannsóknir á dexametasón sýnt lækkaða dánartíðni hjá þeim sem hafa þurft á súrefnismeðferð að halda.

 

Einkenni og próf

Hver eru einkennin?
Einkenni geta mögulega komið fram 2-12 dögum eftir smit en flestir sýna einkenni eftir 2-3 daga og nær allir innan 7 daga. Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, kvefeinkenni, bein- og vöðvaverkir og þreyta, stundum með hálsbólgu. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) og breyting eða tap á bragð- og lyktarskyni gerist einnig. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu, sem kemur þá oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda. Veikindi geta verið langdregin, jafnvel langdregnari en við inflúensu, og virðist vera hætta á öðrum sýkingum í kjölfarið, s.s. bakteríulungnabólgu, svipað og við inflúensu. Þá hefur borið á að sumir glími við langvarandi fylgikvilla svo sem þreytu og orkuleysi.

 

Hverjir eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni?
Líkur á alvarlegum sjúkdómi hækka með hækkandi aldri, sérstaklega eftir 65–70 ára aldur. Einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál eru einnig í aukinni hættu á alvarlegri sýkingu ef þeir fá COVID-19 sjúkdóm. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef þessi vandamál eru til staðar. Þessi vandamál eru m.a.: Hjarta- og æðasjúkdómar og langvinnir lungnasjúkdómar, sykursýki, mikið skert nýrnastarfsemi, offita (BMI >35), krabbamein, ákveðnir meðfæddir ónæmisgallar eða sjúkdómar/lyf sem valda ónæmisbælingu. Líffæraþegar, barnshafandi konur og einstaklingar með alvarlegar geðraskanir eru einnig talin í aukinni áhættu sem og börn með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma. Sjá einnig vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC).

Upplýsingar eru misvísandi um hvort reykingar eru áhættuþáttur fyrir alvarlegri COVID-19 veikindum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur birt yfirlit sem gefur til kynna aukna áhættu á alvarlegum veikindum hjá reykingafólki. Mikilvægt er hins vegar að hætta reykingum vegna ýmissa skaðlegra áhrifa þeirra. Engar rannsóknir eru til um áhrif rafretta á COVID-19 sýkingu en notkun rafretta getur valdið bólgu í öndunarvegum og lungum.

 

Ég tel mig vera í áhættuhópi fyrir alvarlega COVID-19 sýkingu, hvað á ég að gera?
Mjög mikilvægt er að vera varkár í umgengni við aðra, sérstaklega utan heimilis, gæta hreinlætis í umgengni við aðra einstaklinga og fresta ferðalögum ef mögulegt. Mögulega þurfa einstaklingar í áhættuhópum að forðast margmenni, halda nándarmörk eins og kostur er og nota andlitsgrímur, sjá leiðbeiningar fyrir áhættuhópa. Einstaklingar ættu að leita nánari leiðbeininga hjá sínum læknum.

 

Hvaða greiningaraðferðir eru notaðar á Íslandi?
Próf til að greina SARS-CoV-2 kórónuveiru er svokölluð kjarnsýrumögnun eða RT-PCR próf eða hraðpróf (e. rapid antigen test, RAT). Hægt að panta sýnatöku vegna einkenna á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum eða gegnum netspjall. PCR próf leitar að erfðaefni veirunnar (kjarnsýru, RNA) en hraðprófin leita að prótíni (e. antigen) veirunnar. Ef merki um veiruna finnst telst próf jákvætt en neikvætt ef veiran finnst ekki. Niðurstöður fást oftast samdægurs úr hraðprófi en getur tekið lengra tíma að fá að fá niðurstöður úr PCR ef álag er mikið á rannsóknarstofu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur yfirumsjón með einkennasýnatöku á höfuðborgarsvæðinu. Heilsugæslan á landsbyggðinni sér um sýnatökur í öðrum umdæmum.  Þá gera einkafyrirtæki sem með tilskilin leyfi hraðpróf. Slík hraðpróf eru þá framkvæmd og niðurstöður túlkaðar af þjálfuðu starfsfólki. Sjálfspróf eru hraðpróf sem einstaklingar framkvæma á sjálfum sér og yfirleitt lesa þeir einnig og túlka niðurstöður sjálfir. Sjálfspróf nægir til greiningar en ef greininguna á að skrá í opinbera grunna og sjúkraskrá þá þarf hins vegar að staðfesta hana með hraðgreiningaprófi hjá heilsugæslunni eða á viðurkenndum einkareknum stöðum, eða með PCR prófi.

Mótefnamæling er blóðprufa sem mælir mótefni sem einstaklingur myndar sem hluta af ónæmissvari við smiti. Þannig er hægt að sjá hver hefur smitast þó honum sé batnað. Mótefnamælingar hafa verið gerðar af sóttvarnalækni í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu sem sérstakt verkefni. Annars eru mótefnamælingar gerðar á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og einka rannsóknarstofum sem hafa til þess sérstakt leyfi.
 

Hvað get ég gert til að forðast smit?

 • Umgengni eða nánd við aðra, grímunotkun og góð handhreinsun eru mikilvæg ráð til að forðast smit.
 • Smit er helst beint á milli einstaklinga með dropa- og úðasmiti. Nánd við aðra eykur líkur á smiti en 1-2 metra fjarlægð dregur úr líkum á smiti.
 • Rétt er að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta. Þeir sem þurfa að hósta og hnerra ættu að gera slíkt í olnbogabót eða í bréfþurrku sem síðan er hent.
 • Grímur nýtast til að takmarka dreifingu dropa/úða en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt. Grímur ætti að nota við ákveðnar aðstæður eins og innandyra þar sem margir koma saman og almenningssamgöngum þar sem ekki er hægt að tryggja nándarmörk. Þá eru grímur notaðar í heilbrigðisþjónustu. Grímur veita mismikla vörn eftir tegund og eftir því hvernig þær eru notaðar.
 • Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur til handhreinsunar. Best er að þvo sér um hendur og þurrka vel áður en matvæli eru snert og eða matar er neytt, alltaf eftir salernisferðir og þegar hendurnar mengast. Komist maður ekki í handlaug til að þvo sér er ráðlagt að nota handspritt í stað handþvottar.
 • Handspritt má nota ef hendur eru ekki sýnilega óhreinar eftir snertingu sameiginlegra snertiflata s.s. hurðahúna eða eftir meðhöndlun peninga eða greiðslukorta.
 • Við þrif eftir aðra, s.s. í veitingasölum eða á almenningssalernum ætti að nota einnota hanska en mikilvægt er að taka af sér hanska þegar slíkum verkum er lokið og þvo vel hendur
 • Hanskar. Almennt er ekki mælt með hanskanotkun, heldur ekki í verslunum. Þeir geta veitt falska öryggiskennd og stöðug notkun ýtir undir að farið sé á milli hreinna og óhreinna hluta, án þess að skipt sé um hanska. Betra er að sinna vel handhreinsun. Ef fólk vill nota hanska t.d. við afgreiðslu, þá þarf að fara í hreina hanska fyrir hverja afgreiðslu og henda þeim gömlu í ruslaílát. Við ákveðnar aðstæður á hanskanotkun þó við, s.s. í heilbrigðisþjónustu og við þrif.

 

Á ég að nota andlitsgrímu?
Grímur eru mikilvægur hlutieinstaklingsbundna sóttvarna og nauðsynlegar þar sem erfitt er að virða nándarmörk. Þær kom til viðbótar við handþvott og annarra sóttvarna. Sjá covid.is

Muna þarf, að um úða-/dropa- og snertismit er að ræða, og því eru fjarlægð, grímunotkun og handhreinsun allt mikilvægar varnir. Mikilvægt er að nota grímu rétt og að hún hylji nef og munn, einnig ef gríma blotnar (vegna raka í andardrætti) gerir hún ekki gagn og þess vegna þarf að skipta reglulega um grímu.

Sjá leiðbeiningar um grímunotkun.

Veggspjald

 

Hvernig andlitsgrímu á að nota?
Í tengslum við heilbrigðisþjónustu skal nota viðeigandi hlífðarbúnað og þá helst veiruhelda grímu (FFP2). Fyrir allan almenning, s.s. í almenningssamgöngum eða þar sem margir koma saman, má nota einnota grímu, s.s. svokallaðar skurðstofugrímur en einnig kemur til greina að nota fjölnota grímur sem uppfylla evrópskar kröfur. Afar mikilvægt er að nota ekki sömu grímu of lengi og þvo fjölnotagrímur daglega. Einnota grímur á ekki að geyma til að nota aftur.

Hvernig á að setja á, taka af og henda grímu?
Ef gríma er tekin niður og á að nota aftur ætti að geyma hana í poka eða íláti á milli nota. Áður og eftir að gríma er snert ætti að hreinsa hendur.

Einnota grímur:

Gríma sett upp:

 • Hreinsið hendur
 • Skoðið grímuna til að vera viss um að hún sé ekki rifin eða með göt.
 • Athugið hvernig gríman á að snúa (á einnota grímum er oft málmhluti eða stíf rönd sem á að fara yfir nefbein).
 • Athugið hvaða hlið grímunnar snýr fram (oft litaða hliðin).
 • Setjið grímuna á andlit. Klípið stífu (málm) rönd grímunnar svo hún lagi sig að nefbeini.
 • Togið neðri hluta grímunnar niður svo hún hylji nef, munn og nái niður fyrir höku.
 • Hreinsið hendur

Eftir notkun:

 • Hreinsið hendur
 • Takið grímuna af með því að losa lykkjur fyrir aftan eyru (eða losið slaufu bundna á hnakka) og varist að hugsanlega menguð gríman snerti andlit, hendur eða klæði.
 • Hendið grímunni í ruslaílát um leið og hún er tekin af.
 • Hreinsið hendur eftir að hafa snert grímu eða hent grímu í ruslaílát. Notið handspritt, eða ef hendur eru sýnilega óhreinar þvoið þær þá með sápu og vatni.

Margnota grímur:

Gríma sett upp:

 • Hreinsið hendur
 • Skoðið grímuna til að vera viss um að hún sé ekki óhrein eða slitin.
 • Athugið hvernig gríman á að snúa (upp og niður, að andliti og frá).
 • Setjið grímuna á andlit og festið á viðeigandi hátt. Lagið grímuna til svo hún hylji nef, munn og höku.
 • Hreinsið hendur.

Eftir notkun:

 • Hreinsið hendur
 • Takið grímuna af og varist að hugsanlega menguð gríman snerti andlit, hendur eða klæði.
 • Setjið grímuna í poka eða ílát sem hægt er að tæma í þvottakörfu eða þvottavél án þess að koma við grímuna aftur. Ef gríman er snert áður en hún er þvegin þarf að hreinsa vel hendur.
 • Hreinsið hendur 

Getur veiran lifað utan líkama? Getur veiran borist með pökkum eða pappír (dagblöð/bækur/bréf)?
Almennt lifa kórónuveirur ekki lengi utan líkama. Það er óljóst hvað SARS-CoV-2 veiran lifir lengi utan líkama á ýmsu yfirborði ef hlutir mengast frá sýktum einstakling. Rannsóknir benda til að kórónuveirur (þ.m.t. SARS-CoV-2) geti lifað utan líkama í einhverjar klukkustundir upp í nokkra daga. Þetta er mismunandi eftir aðstæðum (t.d. tegund yfirborðs, hita og rakastigi umhverfis). SARS-CoV-2 veiran virðist lifa lengur utan líkama á hörðu og köldu yfirborði heldur en á mjúku efni eins og pappa og pappír (sjá t.d. van Doramalen, et al. NEJM 17. mars, 2020).

Pósturinn og önnur slík fyrirtæki sem sjá um dreifingu bréfa, blaða og þess háttar eru meðvitaðir um hreinlæti og vinna eftir verklagsreglum sem tryggja hreinlæti og smitgát. Veiran virðist ekki lifa lengi á pappa, pappír eða plasti en ekki er alveg vitað hversu lengi. Sýktur einstaklingur þyrfti fyrst að menga hlutinn með vessa (munnvatni) og viðtakandi að mengast af því með því að snerta hlut og bera svo hendur í andlit sér svo veiran komist í slímhúð gegnum augu, munn eða nef.

Ef yfirborð gæti verið mengað skyldi þrífa það með vatni og sápu eða sótthreinsiefni. Síðan skyldi hreinsa hendur með sápu og vatni eða handspritti og varast að snerta andlit (augu, munn eða nef).

 

Get ég smitast af COVID-19 við að opna vörusendingar?
Líkurnar á að sýktur einstaklingur hafi mengað vörur eru mjög litlar og líkur á að smitast af vörusendingu sem hefur tekið tíma í sendingu við mismunandi aðstæður og hitastig eru líka litlar. Ekkert smit hefur verið rakið til mengaðra vörusendinga. 

 

Er hætta á því að matvæli geti borið smit?
Ekkert bendir til þess að kórónuveiran berist með matvælum skv. áliti matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Þeir sem eru í einangrun ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra þar sem snertismit er smitleið.

 

Getur veiran borist með umbúðum matvæla?
Það er mjög ólíklegt að smitast af COVID-19 við snertingu matvælaumbúða. Handþvottur eftir verslunarferð er samt alltaf góð venja. Fylgið leiðbeiningum um handþvott og smitvarnir.

 

Getur veiran borist með ferskum ávöxtum og grænmeti?
Veiran þrífst ekki í ávöxtum og grænmeti, né öðrum matvælum. Hins vegar gæti hún setið á yfirborði eftir dropasmit (hnerra eða hósta frá sýktum einstaklingi) en ekki er vitað hversu lengi. Því er þetta ólíkleg smitleið. Matvælastofnun hvetur neytendur, nú sem áður, til að skola vel ávexti og grænmeti fyrir neyslu. Einnig ætti alltaf að þvo hendur eftir meðhöndlun matvæla og fyrir neyslu.

Fleiri spurningar og svör er varða matvæli og COVID-19 er að finna á vef Matvælastofnunar.

 

Hvað þýðir að vera útsettur fyrir COVID-19 smiti?

 • Einstaklingur sem hefur umgengist veikan einstakling með COVID-19 hefur verið útsettur. Með því er átt við að hafa verið innan við 1–2 metra frá veikum einstaklingi frá og með 1–2 dögum áður en einkenni hans byrjuðu í 15 mín. eða lengur, hafa snert viðkomandi, sofið í sama rúmi, dvalið í sama húsnæði (snert sömu hluti) eða verið í sama farartæki eða öðru lokuðu rými þó í stuttan tíma sé.
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með COVID-19 hafa líka mögulega verið útsettir, en notkun hlífðarbúnaðar við slík störf minnkar verulega smithættu.

Ég hef verið útsett(ur) fyrir COVID-19 smiti, hvað á ég að gera?

Ef þú hefur á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, en hefur engin einkenni sjúkdómsins nú, er þér bent á að vera vakandi fyrir einkennu. Ef einkenni koma fram skyldi fara tafarlaust í COVID próf. Hægt er að panta einkennasýnatöku (hraðpróf) á Heilsuveru með rafrænum skilríkjum eða gegnum netspjall. Ef þarf aðstoð eða ráðgjöf vegna einkenna getur þú haft samband við þína heilsugæslustöð í gegnum netspjalli heilsuvera.is eða í síma en utan dagvinnu í vaktsíma Læknavaktarinnar í 1700 og fá nánari leiðbeiningar.  

 

Ég hef verið útsett(ur) fyrir COVID-19 smiti og er að veikjast, hvað á ég að gera?
Ef þú hefur einkenni COVID-19 (hiti, hósti, andþygsli, kvefeinkenni eða hálssærindi, bein- og vöðvaverkir eða þreyta, stundum með meltingareinkennum eða skyndilegri breytingu á lyktar- og bragðskyni), skaltu panta COVID próf á heilsuvera.is (Mínar síður eða netspjall). Ef þú þarft að ræða við heilbrigðisstarfsmann getur þú notað netspjall heilsuvera.is eða haft samband við heilsugæsluna þína í gegnum síma eða utan dagvinnu við Læknavaktina í síma 1700. Ef um neyðartilvik er að ræða, hringið þá í 112 . Á meðan beðið er niðurstöðu skaltu halda þér til hlés eins og hægt er. Ef COVID próf reynist jákvætt eru tilmæli sóttvarnaryfirvalda að fylgja leiðbeiningum um einangrun.

 
Ef þú hefur einkenni sem gætu verið COVID-19 er ráðlagt að fara í COVID próf

Ef þú hefur einkenni sem gætu verið COVID-19 er ráðlagt að fara sem fyrst í COVID próf. Ef einkenni eru væg og þú þarft að mæta til vinnu á meðan beðið er eftir niðurstöðu er ráðlagt að ræða það við þinn yfirmann. Við þessar aðstæður er mælt með að nota andlitsgrímu í vinnunni og einnig ef farið er á staði þar sem aðrir eru. Þá skyldi gæta sérlega vel að handhreinsun og ekki vera í meira návígi við aðra en þörf er á. Loks ætti að forðast að dvelja þar sem margir koma saman eða að umgangast viðkvæma einstaklinga. Ef prófið er neikvætt getur þú haldið áfram vinnu í samráði við yfirmann. Ef COVID-19 próf reynist jákvætt eru tilmæli að fylgja leiðbeiningum um einangrun.

 

Sóttkví og einangrun

Hvað er sóttkví?
Sóttkví
 er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki ennþá veikur (er einkennalaus). Ekki er skylda til að viðhafa sóttkví vegna nándar við tilfelli á Íslandi frá 11. febrúar 2022.

Hvernig fæ ég vottorð/staðfestingu um sóttkví?
Einstaklingar þurftu að vera skráðir í sóttkví vegna nándar við smitaðan einstakling til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð um slíkt.

 • Þegar sóttkví skv. beinum fyrirmælum vegna nándar við tilfelli er lokið er hægt að sækja staðfestingu/vottorð um sóttkví á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum.
 • Ef einstaklingar eru ekki með rafræn skilríki og þurfa staðfestingu/vottorð um skráða sóttkví skv. beinum fyrirmælum vegna nándar við tilfelli þá geta þeir sent beiðni á mottaka@landlaeknir.is með efnislínuna: „Staðfesting á sóttkví“ og fá það þá sent í tölvupósti.
 • Ekki eru gefin út vottorð vegna sóttkvíar eftir ferðalög. Reglur um sóttkví eftir ferðalög gilda um alla sem koma til landsins frá skilgreindu áhættusvæði skv. reglugerð ráðherra og er ekki eru gefin út sérstök vottorð vegna þessa.
 • Ekki eru gefin út vottorð vegna svokallaðar úrvinnslusóttkvíar (sjá um það hugtak hér að neðan) enda tímabundin ráðstöfun en ekki formleg sóttkví skv. beinum fyrirmælum.
 • Ekki eru gefin út vottorð vegna sjálfskipaðrar sóttkvíar enda velur fólk að gera það sjálft.

Hér má sjá myndband sem sýnir hvernig hægt er að nálgast staðfestingu/vottorð vegna sóttkvíar á Heilsuveru.

Hvað er einangrun?
Einangrun á við sjúklinga með einkenni og staðfestan sjúkdóm. Sjá leiðbeiningar fyrir einstaklinga í einangrun. Tilmæli eru um einangrun í a.m.k. fimm daga eftir greiningu COVID-19 en lengur ef einkenni gefa tilefni til. Heilsugæslan og COVID göngudeild Landspítala sjá um eftirlit og þjónustu við þá sem greinst hafa með COVID-19.

 

Hvernig fæ ég vottorð um einangrun?

 • Læknisvottorð vegna einangrunar má fá á Heilsuveru (ef með rafræn skilríki), vottorð um staðfesta sýkingu eru einnig send í tölvupósti til þeirra sem hafa ekki rafræn skilríki. Þá er hægt að fá vottorð hjá sínum lækni.

 

Ferðalög 

Ég er á ferðalagi og komin með einkenni sýkingar, hvað á ég að gera?
Ef þú ert erlendis og færð einkenni sem gætu verið vegna COVID-19 áttu ekki fara í áætlunarflug. Það á að útiloka COVID-19 sýkingu þar sem þú ert, með sýnatöku. Ef einkenni reynast ekki vera vegna COVID-19 og ekki um eiginleg veikindi að ræða má fara í flug (helst innan 24 tíma frá læknisskoðun/prófi en reglur geta verið mismunandi eftir löndum). Ekki er mælt með að fljúga meðan veikindi standa þar sem það getur valdið smithættu fyrir aðra í vélinni og ótta, þótt ekki sé um COVID-19 að ræða.

Ef þú lendir í sóttkví eða einangrun erlendis þarftu að fylgja reglum þess lands og ekki fljúga heim til Íslands fyrr en útskrifaður af yfirvöldum þar og með neikvætt COVID-próf eftir atvikum en amk ekki fyrr en eftir 5 daga frá greiningu og bata er náð.

Húsdýr/gæludýr

Geta húsdýr eða gæludýr smitast af COVID-19 veirunni, og geta þau orðið veik?
Talið er að veiran sé upprunin í dýrum, líklega leðurblökum en veiran er nú aðlöguð að mönnum og er fyrst og fremst vandamál meðal manna. Ekki hefur verið sýnt fram á smit frá húsdýrum eða gæludýrum til manna eða annarra dýra. Veiran hefur greinst í ýmsum dýrategundum en aðallega kattardýrum (köttum, tígrísdýrum og ljónum) en einnig minkum, dádýrum, hundum, hömstrum o.fl. Engar vísbendingar eru um að dýr hafi borið smit í fólk né önnur dýr heldur talið að dýrin hafi smitast frá fólki. Matvælastofnun fylgist með þekkingarþróun á þessu sviði.

 

Geta einstaklingar sem eru smitaðir af COVID-19 veirunni eða eru í sóttkví verið í kringum gæludýrin sín?
Það er engin ástæða fyrir fólk að vera ekki með gæludýrunum sínum og þau geta veitt mikilvægan andlegan stuðning við erfiðar aðstæður. Að þvo hendur eftir snertingu við dýr er góð venja og almennt ætti að forðast að kyssa dýr eða að dýr sleiki andlit eða hendur fólks. Það er í lagi að fara út með hundinn að því gefnu að leiðbeiningum varðandi sóttkví í heimahúsi og einangrun í heimahúsi sé fylgt.

 

Get ég gætt dýra einhvers sem er smitaður af COVID-19 veirunni eða er í sóttkví í heimahúsi?
Já, þú getur gætt gæludýra einstaklinga sem eru í sóttkví eða eru veikir af COVID-19 veirunni, en gæta þarf fyllsta hreinlætis. Forðast skal að láta gæludýr sleikja andlit eða hendur og ávallt skal þvo hendur eftir snertingu við dýrin.

 

Ætti fólk sem hefur verið erlendis að takmarka snertingu við dýr þegar það snýr aftur heim?
Fyrir einstaklinga sem eru með matvælaframleiðandi dýr á heimili eða í nálægð við heimili, er mælt með því að takmarka snertingu við slík dýr meðan á sóttkví eða einangrun stendur eða á meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku ef slíkt á við. Matvælastofnun minnir líka á að einstaklingur sem hefur verið í snertingu við húsdýr erlendis umgangist ekki matvælaframleiðandi dýr á Íslandi í 48 klukkustundir.

Geta villt dýr á Íslandi verið með COVID-19?
Veiran hefur ekki fundist í dýrum á Íslandi, hvorki húsdýrum né villtum dýrum.
Minkar eru móttækilegir fyrir veirunni en ekki hefur greinst smit í minkabúum hérlendis og litlar líkur eru á smiti yfir í villta minkastofninn þar sem umgengni við menn er í lágmarki.

Má fólk með COVID-19 eða í sóttkví vinna við minkabú?
Einstaklingum sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja reglum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Starfsfólk minkabúa sem hafa smitast, ættu að fá afleysingu við fóðrun og aðra umhirðu um minka. Bæði með tilliti til eigin heilsu og til koma í veg smit í minkahús.
Einstaklingum í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónuveiru og eru einkennalausir, er skylt að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis. Starfsfólk minkabúa ætti forðast starf við umönnun minka en ef það er óhjákvæmilegt þarf að gæta ýtrustu smitvarna, s.s. tíðan handþvott og notkun hanska og grímu við fóðrun og aðra umhirðu.
Ef grunur leikur á að minkar séu smitaðir af kórónuveirunni, til dæmis vegna einkenna frá öndunarfærum eða hækkaðrar dánartíðni, skal kalla til dýralækni og tilkynna til Matvælastofnunar.

Ætti fólk í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 að forðast snertingu við húsdýr?
Einstaklingar sem eru í sóttkví og einangrun ættu að takmarka snertingu sína við búfénað og gæta fyllsta hreinlætis í umgengni við öll dýr. Mælt er með að fólk þvoi hendur fyrir og eftir snertingu við dýr, sérstaklega áður en matvæla er neytt. Einnig er góð regla að þvo hendur fyrir og eftir að matur fyrir dýr er framreiddur. Sýktur einstaklingur ætti að forðast að kyssa dýr og almennt ætti að forðast að leyfa dýrum að sleikja andlit eða hendur sýktra einstaklinga.

Fleiri spurningar og svör varðandi umgengni við dýr er að finna á vef Matvælastofnunar.  

 

 


Fyrst birt 01.10.2020
Síðast uppfært 14.03.2022

<< Til baka