Er hægt að ruglast á kórónaveirusýkingu og inflúensu?

Einkenni COVID-19 líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.

Einkenni inflúensunnar koma yfirleitt snögglega, eru einkum hár hiti, skjálfti, höfuðverkur, beinverkir, þurr hósti, hálssærindi og nefrennsli. Algeng einkenni hjá börnum eru ógleði, uppköst og kviðverkir. 

Árlega inflúensan veturinn 2019–2020 fór hægt af stað fyrstu vikurnar í janúar en hefur nú færst í aukana. Þar sem þessir tveir faraldrar virðast ætla að ganga samtímis á norðurhveli jarðar kann það að valda vandamálum við greiningu sjúkdómanna. Þeir sem fá þessi einkenni eru hvattir til þess að halda sig heima og hafa samband við heilbrigðisþjónustu símleiðis ef óskað er eftir skoðun. Einnig er rétt að minna á að til eru öflug lyf gegn inflúensu (Tamiflu® hylki og Relenza® innúðaðalyf) sem geta dregið úr einkennum og flýtt bata ef þau eru tekin innan tveggja sólarhringa frá upphafi einkenna. Þessi lyf eru lyfseðilskyld og eru aðallega notuð fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri inflúensu.

 


Fyrst birt 27.01.2020
Síðast uppfært 12.02.2020

<< Til baka