Ný kórónaveira upprunnin í Wuhan-borg í Kína – COVID-19

Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína, þá af óþekktum orsökum. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast COVID-19.

Sennilega er veiran upprunin í dýrum en hefur nú öðlast hæfileika til að sýkja menn. Staðfest er að veiran getur smitast manna á milli en óljóst er hversu smitandi hún er. Ekki er vitað hversu hátt hlutfall smitaðra fær alvarlega sýkingu eða hvaða dýr er upphaflegur hýsill veirunnar.

Kórónaveirur eru nokkuð algeng orsök kvefs og öndunarfærasýkinga almennt hjá mönnum en þegar ný afbrigði berast úr dýrum í menn er þekkt að kórónaveirusýkingar geta verið alvarlegar. Veikin hefur borist til annarra héraða Kína og út fyrir Kína með fólki með tengsl við Wuhan. Flest tilfelli utan Kína hafa komið upp í Asíu en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa hvatt sóttvarnayfirvöld um heim allan að gera ráðstafanir til að geta brugðist fljótt við ef veikin berst til fleiri landa.

Tilfelli sýkingarinnar skipta hundruðum, langflest í Wuhan-borg. Heilbrigðisstarfsfólk sem hefur sinnt sjúkum hefur smitast. Þeir einstaklingar sem hafa dáið hafa hingað til allir verið með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.

Engin sérstök meðferð er til við kórónaveirusýkingum og ekki er til bóluefni gegn þessari veiki. Til að forðast smit vegna kórónuveiru, svipað og inflúensu, er mikilvægt að beita almennu hreinlæti, s.s. handþvotti og/eða handsprittun ef ekki er aðgengi að vatni og sápu. Ferðalangar á svæðum þar sem þessi veiki hefur komið upp ættu að forðast umgengni við lifandi og dauð dýr, sérstaklega dýramarkaði, og veika einstaklinga. Handhreinsun eftir snertingu við yfirborð sem margir koma við, s.s. á flugvöllum, getur einnig dregið úr smithættu. Sjá einnig sérstakar upplýsingar til ferðamanna á þessari síðu.

Einstaklingum sem telja sig hafa komist í tæri við COVID-19 er bent á upplýsingar til útsettra á þessari heimasíðu.


Fyrst birt 23.01.2020

<< Til baka