HPV-bólusetning utan almenns skema á Íslandi
Á Íslandi eru markaðssett tvö bóluefni gegn HPV-veirum sem valda krabbameinum, Cervarix® (HPV2) og Gardasil 9® (HPV9). Gardasil 9® veitir vörn gegn vörtuveirum auk varnar gegn krabbameinsvaldandi HPV-týpum.
Í almennum bólusetningum hérlendis er bóluefnið Cervarix® gefið 12 ára stúlkum til varnar gegn leghálskrabbameini. Það veitir afar góða vörn gegn týpum 16 og 18 sem eru algengustu orsakir leghálskrabbameins auk þess sem það veitir vörn gegn nokkrum skyldum veirutýpum sem einnig tengjast krabbameinum vegna svokallaðs krossónæmis (31/33/45). Þetta bóluefni var þróað til að verjast leghálskrabbameini og því upphaflega nær eingöngu rannsakað í stúlkum. Síðar kom í ljós að mótefnamyndun pilta er ekki síðri en stúlkna við Cervarix® bólusetningu og hafa t.d. Norðmenn tekið bólusetninguna upp fyrir pilta til að efla baráttuna gegn leghálskrabbameini. Bóluefnið er einnig líklegt til að verja pilta gegn krabbameinum vegna HPV 16 og 18 en HPV-tengd krabbamein önnur en leghálskrabbamein eru svo sjaldgæf að enn hafa ekki komið fram fullnægjandi rannsóknir til að staðfesta það.
Bóluefnið Gardasil 9® er önnur kynslóð bóluefnis gegn HPV 16 og 18 auk vörtuveiranna HPV 6 og 11. Fyrra bóluefnið Gardasil® (HPV4) hefur sýnt sig að það ver bæði stúlkur og pilta gegn vörtuveirum og sýkingum vegna krabbameinsvaldandi HPV 16 og 18 en hefur ekki veruleg krossónæmisáhrif gegn öðrum krabbameinstengdum HPV-týpum. Gardasil 9® inniheldur mótefnavaka sem vekja svar gegn 5 krabbameinstengdum HPV-týpum til viðbótar við týpur 16 og 18, auk vörtuveira 6 og 11. Það bóluefni er nú t.d. notað í Danmörku, bæði fyrir stúlkur og pilta.
Skammtafjöldi
Fyrir HPV2 og HPV4 hefur verið sýnt fram á að ef a.m.k. sex mánuðir líða á milli skammta #1 og #2 er bólusetning álíka áhrifarík þegar notaðir eru tveir eða þrír skammtar, hvort sem bólusetning hefst fyrir 15 ára aldur eða eftir 15 ára aldur. Því mælir sóttvarnalæknir með að tveir skammtar séu notaðir fyrir alla undir 18 ára aldri þegar Cervarix® er notað og að a.m.k. sex mánuðir líði á milli skammta. Ekki er þörf á að byrja bólusetningu upp á nýtt ef lengra líður á milli skammta. Við bólusetningu eldri einstaklinga er ekki að vænta álíka lýðheilsuáhrifa og við almenna bólusetningu og því ekki á sviði sóttvarnalæknis að mæla með öðru skammtaskema en samkvæmt fylgiseðli. Fyrir einstaklinga með HIV-smit eða aðra ónæmisbælingu mælir ráðgjafahópur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (SAGE hópur WHO) með þremur skömmtum á a.m.k. hálfu ári (0;1–2 mán;6+mán.).
Notkun HPV-bóluefna fyrir hrausta einstaklinga:
Hópur | Bóluefni sem nota má | Greiðandi bóluefnis | Skammtafjöldi (millibil) |
Stúlkur 12–17 ára |
HPV2 |
Sóttvarnalæknir Einstaklingur sjálfur |
2 (6+ mán.) |
Stúlkur 9–11 ára (t.d. ef á undan í skóla) |
HPV2 HPV9 |
Sóttvarnalæknir |
2 (6+ mán.) |
Konur 18–26 ára* | HPV2 HPV9 |
Einstaklingur sjálfur | Skv. lyfseðli |
Konur 27 ára og eldri* | HPV2 HPV9** |
Einstaklingur sjálfur | Skv. fylgiseðli/ákv. læknis |
Drengir 9–17 ára | HPV2 HPV9 |
Einstaklingur sjálfur | 2 (6+ mán.) 2 (6+ mán.) |
Karlar 18–26 ára | HPV2 HPV9 |
Einstaklingur sjálfur | Skv. fylgiseðli/ákv. læknis |
Karlar 27 ára og eldri | HPV2 HPV9** |
Einstaklingur sjálfur | Skv. fylgiseðli/ákv. læknis |
*Bólusetning fyrir HPV-smit eykur líkur á að losa sig við veiruna ef smit verður. Ef smit hefur þegar orðið ver bólusetning einstaklinginn gegn smiti annarra veira bóluefnis en er ekki talin auka líkur á að losa sig við fyrra smit.
** Skv. fylgiseðli eru rannsóknir á HPV9 bólusetningu hjá þessum aldurshópi ófullnægjandi, einnig er smit fyrir bólusetningu svo algengt að erfitt er að spá fyrir um ávinning af bólusetningu. Læknar geta mælt með bólusetningu á einstaklingsgrundvelli í ákveðnum tilvikum.
Nánar um HPV-sýkingar og leghálskrabbamein
Fyrst birt 20.08.2019