Leiðbeiningar um MMR bólusetningu utan almenns skema
Mikið ber á því að foreldrar biðji um MMR bólusetningu vegna ferðalaga hjá mjög ungum börnum og er því tilefni til að gefa út ráðleggingar um hvernig best er fyrir heilsugæslu/aðra sem sinna bólusetningum að bregðast við þessum beiðnum þegar ekki er um faraldur að ræða hér á landi.
- Börn 18 mánaða og eldri: MMR í 18 mánaða skoðun. Ef 18 mánaða skoðun tefst er viðeigandi að gefa bólusetninguna fyrir skoðunina ef ferðalag er á döfinni hjá viðkomandi fjölskyldu. Bólusetning er verndandi um 2 vikum eftir að hún er gefin.
- Börn 12–17 mánaða: Viðeigandi að gefa MMR 2 vikum fyrir ferðalag og þarf ekki að endurtaka skammtinn í 18 mánaða skoðun.
- Börn 9–12 mánaða: Viðeigandi getur verið að gefa MMR 2 vikum fyrir ferðalag í eftirfarandi tilvikum.
- Ferðalag á svæði þar sem mislingafaraldur er í gangi.
- Ferðalag á svæði þar sem mislingar eru landlægir (þegar þetta er ritað t.d. Ítalía, Thailand o.m.fl.).
- Ferðalag um stóra alþjóðlega flugvelli þar sem ferðalangar hópast saman víða að (t.d. Heathrow).
- Ef foreldrar óska eftir því.
Athugið að fyrir þennan hóp þarf að endurtaka bólusetningu eftir 12 mánaða aldur, helst í 18 mánaða skoðun, til að sem bestar líkur séu á að bólusetningin veiti langtímavörn.
- Börn 6–9 mánaða: Bóluefnið er ekki skráð til notkunar fyrir þennan aldurshóp og ekki liggja fyrir fullnægjandi rannsóknir um svörun og aukaverkanir MMR bólusetningar á þessu aldursbili. Notkun MMR bóluefnis fyrir börn á þessum aldri er því sambærileg við notkun undanþágulyfja og er rétt að læknir tilgreini í sjúkraskrá ábendingu á einstaklingsgrundvelli áður en MMR er gefið nema þegar í gildi eru sérstök tilmæli sóttvarnalæknis um MMR hjá þessum aldri. Endurtaka þarf bólusetningu eftir 12 mánaða aldur, helst í 18 mánaða skoðun.
- Börn undir 6 mánaða aldri á ekki að bólusetja með MMR í neinum tilvikum. Ef bóluefnið er gefið barni á þessum aldri er rétt að gera atvikaskráningu skv. reglum viðkomandi stofnunar og tilkynna til Lyfjastofnunar ef aukaverkanir koma fram, hverjar sem þær eru.
Sóttvarnalæknir
Fyrst birt 24.05.2019