Spurningar og svör vegna brjóstapúða

  • Hvað stendur skammstöfunin BIA-ALCL fyrir?
   Skammstöfunin stendur fyrir „Breast Implant Associated Anaplastic Large Cell Lymphoma“ sem þýða má sem eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum.
  • Hvað er eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum?
   Eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum getur myndast í brjósti þeirra sem hafa ígræddan brjóstapúða.

   Um er að ræða svokallað T-frumu eitilfrumukrabbamein en ekki hefðbundið brjóstakrabbamein. Meinið getur myndast í bandvefshimnunni („kapsúlunni“) sem umlykur brjóstapúðann og er langoftast staðbundið. Í einstaka tilfellum getur það dreift sér í nærliggjandi vefi eða líffæri.
  • Hversu algengt er eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum?
   Meinið er afar sjaldgæft. Í heiminum öllum eru nú greind um 800 tilfelli í hópi þeirra 35 milljóna kvenna sem fengið hafa brjóstapúða, sem þýðir eitt tilfelli á um 44 þúsund einstaklinga skv. upplýsingum þýsku lyfjastofnunarinnar (0,002% líkur).

   Meirihluti tilvika tengist púðum með hrjúfri áferð en nákvæmar tölur um áhættu vegna einstakra tegunda púða liggja ekki fyrir. Þó eru vísbendingar um að tíðnin er varðar hrjúfustu gerðina sé eitt tilvik á hver 4.000 ígræði samkvæmt tölum frá Ástralíu og Nýja Sjálandi (0,025% líkur).
  • Hafa þeir púðar sem helst eru taldir tengjast þessari áhættu verið notaðir á Íslandi?
   Já.
   Á Íslandi voru púðar með hrjúfri áferð af grófustu gerð, frá framleiðandanum Allergan (Natrelle), notaðir á árunum 2007 til 2015. Talið er að þeir hafi verið græddir í um 470 konur hér á landi, bæði á Landspítalanum og á einkareknum stofum. Þessir púðar hafa ekki verið á markaði í Evrópu síðan í lok árs 2018.
  • Hefur eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum greinst hérlendis?
   Nei.
  • Hver eru einkenni meinsins?
   Einkennin eru síðbúin og koma fram meira en ári, eða jafnvel mörgum árum eftir ígræðslu. Einkenni meinsins eru bólga í brjósti vegna vökvasöfnunar í kringum púðann þannig að brjóstið stækkar. Einnig geta einkenni verið verkur eða hnútur í brjósti eða holhönd. Stundum myndast hersli í bandvefnum í kringum púðann eða í húðinni yfir brjóstinu.
  • Þarf að fjarlægja þessa gerð púða sem fyrirbyggjandi aðgerð?
   Nei.
   Þar sem meinið er sjaldgæft og einkenni afgerandi eru alþjóðlegar stofnanir og sérfræðingar sem um þessi mál fjalla sammála um að þess þurfi ekki. Hinsvegar er mikilvægt að þær konur sem einhver einkenni hafa leiti skoðunar hjá lækni. Best er að leita til viðkomandi læknis eða læknastofu þar sem aðgerðin var gerð en að öðrum kosti til heilsugæslulæknis.

   Konur eru hvattar til að nýta sér reglubundið boð um brjóstaskimun hjá Krabbameinsfélagi Íslands.
  • Hvernig er meinið greint?
   Þær konur sem eru með einhver einkenni þurfa að leita skoðunar hjá lækni. Í framhaldi er oft gerð ómskoðun af brjóstinu og í kjölfarið er gerð ástunga á æxlinu og sýni sent til frumugreiningar ef ástæða þykir til. Gerðar eru frekari rannsóknir til að útiloka að meinið hafi dreift sér.
  • Hver er meðferðin?
   Gera þarf skurðaðgerð þar sem púðinn og bandvefshimnan utan um púðann eru fjarlægð. Horfur eru góðar ef meinið er staðbundið. Ef meinið hefur dreift sér er frekari meðferð nauðsynleg en horfur eru góðar.
  • Hvert eiga konur sem hafa áhyggjur að snúa sér?
   Best er að leita til þess læknis sem gerði aðgerðina. Tegund púða er skráð annars vegar á svokallað ígræðisskírteini sem einstaklingur fær afhent að lokinni aðgerð og hinsvegar í sjúkraskrá einstaklings sem varðveitt er hjá viðkomandi lækni eða stofnun.

   a. Ef aðgerðin var gerð á Landspítalanum skal senda fyrirspurn      varðandi tegund brjóstapúða í gegnum Mínar síður á Heilsuvera.is, nota þarf rafræn skilríki.

   b. Ef aðgerðin var gerð hjá sjálfstætt starfandi lýtalækni skal hafa samband við hann eða læknastofuna þar sem aðgerðin var gerð.
  • Hver eru viðbrögð annarra þjóða?
   Allergan púðarnir eru ekki lengur á markaði í Evrópu. Frakkar hafa gengið lengra en aðrar þjóðir og bannað notkun á öllum púðum með yfirborð af hrjúfustu gerð. Hvergi hafa heilbrigðisyfirvöld tekið ákvörðun um að viðhafa sérstakt eftirlit með konum með umrædda tegund brjóstapúða né mælt með að púðarnir séu fjarlægðir.
  • Hvað ætla yfirvöld að gera?
   Embætti landlæknis, Lyfjastofnun og heilbrigðisráðuneyti, í nánu samstarfi við Landspítala og Félag íslenskra lýtalækna hafa myndað vinnuhóp sem mun fylgjast grannt með gangi og þróun mála. Þessir aðilar munu taka mið af viðbrögðum nágrannalanda. Til skoðunar er að koma upp miðlægri ígræðaskrá.
  • Hvers þurfa konur sem hyggjast fá brjóstapúða að gæta?
   Ræðið tegund brjóstapúða við skurðlækninn og fáið upplýsingar um áhættu, hugsanlega fylgikvilla aðgerðar og eftirfylgni.
  • Frekari spurningar?
   Ef frekari spurningar vakna vinsamlega sendið fyrirspurnir á netfangið: mottaka@landlaeknir.is.

Fyrst birt 07.05.2019

<< Til baka