Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna - e. National Centre for e-Health

Samkvæmt 4 gr. reglugerðar um sjúkraskrár (nr. 550/2015) hefur Embætti landlæknis yfirumsjón með rafrænni sjúkraskrá á landsvísu. Í því felst að embættið er samhæfingaraðili rafrænnar sjúkraskrár og annast meðal annars uppbyggingu, þróun og umsýslu hennar svo og samræmingu, innleiðingu og eftirlit með öryggi hennar, þ.m.t. samtengingum sjúkraskráa og rafrænum samskiptum.

Verkefni Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna eru margvísleg. Stærstu verkefnin felast í að þróa og innleiða samtengda rafræna sjúkraskrá, fyrir landið allt, í samræmi við þarfir sjúklinga, heilbrigðisstarfsmanna og stjórnenda og stuðla þannig að góðri, öruggri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu. Jafnframt að þróa aðgang einstaklinga að eigin sjúkraskrá um vefinn Mínar síður á heilsuvera.is, þróa rafræna lyfseðlakerfið  og reka og þróa íslenska heilbrigðisnetið.

Með væntanlegri NIS tilskipun, sem lýtur að net og upplýsingakerfi mikilvægra innviða, mun Embætti landlæknis fara með eftirlit vegna heilbrigðisþjónustu og mun það verkefni vera á höndum Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna.

Embætti landlæknis hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á gott samstarf við notendur rafrænnar sjúkraskrár í þessari þróun. Til þess að styrkja enn frekar aðkomu hagsmunaaðila í heilbrigðisþjónustu að stjórn verkefnisins hefur Embætti landlæknis fengið velferðarráðuneytið til að skipa stýrinefnd rafrænnar sjúkraskrár samkvæmt tilnefningum frá aðilum í heilbrigðisþjónustu.

Eftirfarandi stofnanir og samtök eiga fulltrúa í stýrinefndinni; Landspítali háskólasjúkrahús, Sjúkrahús Akureyrar, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnana af landsbyggðinni og samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Stýrinefndin mun vinna með Embætti landlæknis að uppbyggingu, þróun og samhæfingu rafrænnar sjúkraskrár. Stýrinefndin samþykkir starfsáætlun rafrænnar sjúkraskráar og fylgist með framkvæmd hennar. Landlæknir er formaður stýrinefndarinnar.

Rafræn sjúkraskrá hjá Embætti landlæknis

Í mars 2012 voru málefni sem tengjast rafrænni sjúkraskrá flutt frá velferðarráðuneyti til Embættis landlæknis. Verkefninu var komið fyrir innan heilbrigðisupplýsingasviðs og þar varð til starfseining sem sinnt hefur stýringu, samhæfingu og framkvæmd verkefna rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu.

Á þeim tæplega sex árum sem liðin eru frá því að verkefnið flutti til embættisins hefur það vaxið og dafnað. Frá og með 1. mars 2018 heyrir verkefnið beint undir landlækni og kallast nú Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna. Helstu verkefni sem unnin hafa verið eru samtengingar milli heilbrigðisstofnana sem tryggja aðgang heilbrigðisstarfsmanna að mikilvægum upplýsingum um sína sjúklinga á milli stofnana, nýr lyfjagagnagrunnur, aðgengilegur læknum, er kominn í notkun, aðgangur almennings að eigin heilbrigðisupplýsingum er í þróun í gegnum Mínar síður á heilsuvera.is og verið er að innleiða nýja rafræna mæðra- og fæðingaskrá. Á árinu 2019 munu væntanlegar mæður fá aðgang að sinni mæðraskrá um Mínar síður á heilsuvera.is


Fyrst birt 21.02.2019

<< Til baka