Hærri álögur á óhollustu og lægri á hollar vörur eins og grænmeti og ávexti
Embætti landlæknis hefur lagt til að stjórnvöld hækki verð á gos- og svaladrykkjum (þ.m.t. orkudrykkjum) og sælgæti um a.m.k. 20% prósent, í þágu bættrar lýðheilsu þjóðarinnar. Fjármunir sem kæmu inn í gegnum þessa hækkun mætti nýta til að lækka álögur á grænmeti og ávexti. Einnig mætti eyrnamerkja hluta af álögunum fyrir starf á sviði heilsueflingar, eins og gert er með gjöld á tóbak og áfengi. Þannig gætu stjórnvöld skapað aðstæður sem hvetja til heilbrigðari lifnaðarhátta og auka jöfnuð til heilsu.
Þetta er í samræmi við niðurstöður skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarnnar (WHO) frá 2016 og skýrslu World Cancer Research Fund frá 2018. Þar kemur fram að það sé vaxandi vísindalegur grunnur fyrir því að vel skipulagðir skattar á matvæli, ásamt fleiri aðgerðum, geti verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur. Margar þjóðir hafa því hækkað álögur á gosdrykki, eða um það bil 50 lönd og ríki, með það að markmiði að minnka neyslu á óhollustu. Til að þessi aðgerð sýni árangur er mikilvægt að hækkunin sé umtalsverð eða að minnsta kosti 20%, sem hefur sýnt sig að geta minnkað neyslu viðkomandi drykkja um 20%. Jafnframt kemur fram í skýrslu WHO að 10-30% lækkun á álögum á hollum vörum, eins og ávöxtum og grænmeti, geti verið áhrifarík leið til að auka neyslu á þessum hollu fæðutegundum.
Hvað hefur verið gert á Íslandi í þessum málum?
Árið 2013 var gerð tilraun hér á landi til að setja vörugjöld á vörur sem innihéldu sykur eftir sykurinnihaldi. Átti sú aðgerð að vera lýðheilsuaðgerð en þegar upp var staðið var ekki tekið tillit til lýðheilsusjónarmiða við þá framkvæmd. Þá hækkuðu sykraðir gosdrykkir einungis um 5 krónur/lítra og súkkulaði lækkaði í verði, þar sem vörugjöld sem fyrir voru á súkkulaði voru hærri en þau vörugjöld sem lögð voru á eftir sykurinnihaldi. Það hafa því í raun aldrei verið settar auknar álögur á sykruð matvæli á Íslandi út frá lýðheilsusjónarmiðum. Árið 2015 var virðisaukaskattur á matvælum hækkaður úr 7% í 11%. Jafnframt voru vörugjöld, þar með talin þau sem lögðust á sykruð matvæli, afnumin. Afleiðing þessara aðgerða varð til þess að gosdrykkir lækkuðu í verði og ávextir og grænmeti hækkuðu.
Sjá nánar um rök fyrir því að hækka álögur á gos- og svaladrykki og reynslu annarra þjóða af slíkum aðgerðum undir tengdu efni og ítarefni hér á síðunni:
Tengt efni:
- Aðgerðaáætlun um beitingu efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu: Útfærslur starfshóps á innleiðingu
- Aðgerðaáætlun til að draga úr sykurneyslu
- Frétt á heimasíðu embættis landlæknis í janúar 2017
- Fyrirlestur Hólmfríðar Þorgeirsdóttur á ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum 3. janúar 2017
- Þróun virðisaukaskatts og vörugjalda á gosdrykkjum, sælgæti og öðrum matvælum
- Aðgerðaáætlun til að draga úr tíðni offitu
- Fyrri umfjöllun embættis landlæknis um álögur á óhollustu
Ítarefni:
- Áhrif gosdrykkjaskatts í Bretlandi 2018
- Skýrsla frá World Cancer Research Fund International: Building momentum: lessons on implementing a robust sugar sweetened beverage tax (2018)
- Áhrif gosdrykkjaskatts í Berkeley Kaliforníu frá árinu 2016
- Skýrsla frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni frá árinu 2016: Fiscal Policies for Diet and Prevention of Noncommunicable Diseases https://apps.who.int/iris/bitstream/handle/10665/250131/9789241511247-eng.pdf;jsessionid=1D0220B9578A739BC038AAE57E9EE860?sequence=1
- Skýrsla frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni frá árinu 2015: Using price policies to promote healthier diets http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0008/273662/Using-price-policies-to-promote-healthier-diets.pdf
- Ný íslensk rannsókn um áhrif verðbreytinga á gosdrykkjaneyslu, frétt á mbl.is
- Áhrif gosdrykkjaskatts í Fíladelfíu í Bandaríkjunum
- Áhrif gosdrykkjaskatts í Mexíkó
- Brownell KD and Frieden TR, M.D. Ounces of Prevention — The Public Policy Case for Taxes on Sugared Beverages. N Engl J Med 10.1056/nejmp0902392. New England Journal of Medicine
- Gortmaker SL, Swinburn BA, Levy D, Carter R, Mabry PL, Finegood DT, Huang T, Marsh T, Moodie ML. Changing the future of obesity: science, policy, and action. Lancet 2011; 378: 838–47.
Fyrst birt 02.05.2019
Síðast uppfært 22.01.2021