Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu

Sjá stærri mynd

– Yfirlýsing frá landlækni 19. apríl 2017 –

Fyrir nokkru fór fram umræða í fréttamiðlum um einkarekstur/einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Umræðan átti rætur að rekja til fyrirspurna á Alþingi um hvort heilbrigðisráðherra hygðist veita Klíníkinni í Ármúla leyfi til að reka hér á landi sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Öll var þessi umræða mjög ruglingsleg og erfitt að átta sig á hvaða ákvarðanir höfðu verið teknar og af hverjum.

Í Morgunblaðinu birtist þann 24. mars síðastliðinn stutt fréttatilkynning undir fyrirsögninni „Klíníkin ekki komin með leyfi til reksturs". Þingmenn höfðu spurt heilbrigðisráðherra „hvort hann ætlaði að skrifa undir starfsleyfi þannig að Klíníkin gæti hafið rekstur einkasjúkrahúss."

Samkvæmt greininni mun ráðherra hafa svarað að það væri ekki hans „að veita stöðinni starfsleyfi, það væri landlæknis, en sagði það ekki standa til að hann fæli Sjúkratryggingum Íslands að gera sérstakan samning við Klíníkina ... umfram þá þjónustu sem felst í samningum við Læknafélag Reykjavíkur".

Í lok greinarinnar segir síðan: „Umræðan um rekstur einkarekins sjúkrahúss hófst eftir að Klíníkin Ármúla fékk leyfi frá landlækni til að reka sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með fimm daga legudeild í janúar á þessu ári."


Mismunandi túlkun laga

Embætti landlæknis (EL) hefur ítrekað reynt að leiðrétta þann misskilning að embættið veiti leyfi til rekstrar heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu á landlæknir að staðfesta að fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar lágmarkskröfur. Í lögum um heilbrigðisþjónustu stendur að þegar um er að ræða svokallaða sérhæfða heilbrigðisþjónustu þurfi leyfi ráðherra til rekstrarins.

Í tilvikinu Klíníkin Ármúla hefur Embætti landlæknis staðfest að starfsemi með fimm daga legudeild uppfylli faglegar lágmarkskröfur um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Embættið hefur því bent ráðuneytinu á að samkvæmt skilningi þess á lögum þurfi leyfi ráðherra til þess að hefja rekstur legudeildar með tilheyrandi aðgerðum.

Ráðuneytið hefur með bréfi, dagsettu 13. desember síðastliðinn, lýst því yfir að það sé ósammála túlkun embættisins og að líta beri á þennan rekstur Klíníkurinnar sem hvern annan stofurekstur lækna og þurfi hann því ekki leyfi ráðherra.

Það hefur afgerandi þýðingu fyrir eftirlitshlutverk landlæknis að það sé skýrt hvaða ákvarðanir eru teknar varðandi rekstur heilbrigðisþjónustu og á hvaða lagagrunni þær eru byggðar. Til þess að freista þess að fá skýringu á þessu og staðfestingu á að skilningur embættisins á fjölmiðlaumræðunni og svörum ráðherra væri réttur sendi embættið eftirfarandi til velferðarráðuneytisins:

„Skilningur EL er eftirfarandi:

  1. EL hefur staðfest að fyrirhugaður rekstur á Klíníkinni uppfylli faglegar lágmarkskröfur EL.
    EL veitir ekki leyfi til rekstrar heilbrigðisþjónustu.
  2. EL skilgreinir starfsemi Klíníkurinnar sem sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem samkvæmt lögum þarf leyfi ráðherra til þess að starfa.
  3. Ráðherra hefur ekki og hefur ekki hugsað sér að veita Klíníkinni slíkt leyfi. Þetta er samkvæmt fréttum í fjölmiðlum."

Svar ráðuneytisins var á þá lund að umræðan hefði einungis snúist um hvort leitað yrði til Klíníkurinnar um þátttöku í svokölluðu biðlistaátaki. Enn fremur ítrekaði ráðuneytið þá afstöðu sína að ekki þyrfti leyfi ráðherra vegna starfsemi Klíníkurinnar.

Alþingismenn, ráðherra og fjölmiðlar hafa augljóslega talað um tvo mismunandi hluti:

  • Biðlistaátak í því skyni að stytta biðtíma eftir ákveðnum aðgerðum.
  • Leyfi til að reka sérhæfða heilbrigðisþjónustu á fimm daga legudeild.

Embætti landlæknis var það ljóst af umræðunni að ráðherra hefði ekki í hyggju að snúa sér til Klíníkurinnar hvað varðar biðlistaátakið, a.m.k. ekki næsta hálfa árið.

Túlkun ráðuneytisins á heilbrigðislögunum gerir það hins vegar að verkum að einkarekstur og einkavæðing á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu getur haldið áfram að vaxa hér á landi í skjóli samnings Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur og sjúklinga sem greiða fyrir aðgerðir úr eigin vasa.

Embætti landlæknis tekur ekki afstöðu með eða móti rekstri Klíníkurinnar Ármúla eða annarra sambærilegra stofnanna á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu en vegna túlkunar ráðuneytisins er staðan í dag eftirfarandi:

  • Heilbrigðisstofnanir þurfa ekki sérstakt leyfi ráðherra til að reka sérhæfða heilbrigðisþjónustu/sjúkrahúsþjónustu í formi fimm daga deildar, einungis staðfestingu frá Embætti landlæknis um að þær uppfylli faglegar kröfur til rekstrarins.
  • Þær geta fjármagnað rekstur sinn með gildandi samningi Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur.

Meðan svo er, er vandséð hvernig heilbrigðisyfirvöld geta haft stjórn á því hvert opinbert fjármagn rennur til heilbrigðismála og hvaða rekstrarform verða ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi.


Fyrst birt 19.04.2017

<< Til baka