Leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun lyfja

Sjá stærri mynd

Hér á eftir fara leiðbeiningar landlæknis um góða starfshætti lækna við útgáfu ávísana á ávanabindandi lyf og nokkra aðra lyfjaflokka.

Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis er aðgengilegur öllum læknum í Sögukerfinu eða beint af vef embættisins á slóðinni https://lyfsedlar.landlaeknir.is/. Gagnagrunnurinn er mjög mikilvægt tæki til að skoða lyfjasögu sjúklings, hvað sjúklingur á af óútleystum lyfjum og hverju aðrir læknar hafa ávísað til hans.

Mikilvægt er að læknar noti þennan gagnagrunn sem mest. Einnig ættu læknar að benda sjúklingum sínum á vefinn Heilsuvera, undir Mínar síður, þar sem er að finna ýmsar heilsufarsupplýsingar, m.a. um lyfjaávísanir.

Almennt er fjallað um ávísanir lyfja í sérlyfjaskrá og klíniskum leiðbeiningum. Sérlyfjaskrá er eitt form klínískra leiðbeininga. Þegar læknir ávísar lyfjum til einstaklinga sem hann veit lítið um er sérstaklega mikilvægt að hann skoði lyfjasögu þeirra í lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis. Að öðrum kosti er læknirinn ekki að stunda góða starfshætti.

Um öll lyf gildir að læknirinn stýrir lyfjagjöf, ekki sjúklingurinn sjálfur. Hann metur á gagnrýninn hátt hvaða lyfjum einstaklingur þarf á að halda og í hvaða skömmtum og endurskoðar lyfjagjöfina reglulega.

Læknir í afleysingastarfi ætti ekki að ávísa lyfjum í skömmtum sem eru stærri en þeir sem mælt er með í sérlyfjaskrá.

Nemar með tímabundið starfsleyfi eiga ekki að ávísa ávanabindandi lyfjum á sjúklinga nema í umsjá yfirlækna, þetta gildir sérstaklega um langtímameðferð með skömmtun. Læknar sem eru ábyrgir fyrir nemum eiga að sjá til þess að slíkt sé ekki gert.

Almennt gildir um ávanabindandi lyf, eins og öll önnur lyf, að ekki ætti að ávísa þeim nema undirliggjandi vandi hafi verið greindur að fullu og að fyrir liggi skýr meðferðaráætlun. Þegar veitt er meðferð með ávanabindandi lyfjum skiptir gott meðferðarsamband læknis og sjúklings höfuðmáli og læknir verður að hitta sjúklinginn reglulega verði lyfjagjöf viðvarandi.

Lyfjaendurnýjanir til sjúklinga sem eiga sér stað án stofuviðtals, til sjúklinga sem eru ekki í samlagi læknis, ættu ekki að eiga sér stað án samráðs við þann lækni sjúklingsins sem hóf meðferðina; þetta á sérstaklega við þegar um ávanabindandi lyf er að ræða.

Verkjalyf (ópíóíðar)

 • Ágætis umfjöllun um lyfjameðferð við verkjum er í Handbók í lyflæknisfræði (Ari J. Jóhannesson o.fl., Háskólaútgáfan, 2015) þar sem m.a. er fjallað um þrep verkjastigans og hvaða lyf eigi að velja á hverju þrepi.
 • Ef læknir á að taka við verkjalyfjaávísunum, er æskilegt að fyrir liggi upprunaleg ábending frá þeim lækni sem hóf lyfjagjöfina.
 • Skammtar í meðferð bráðaverkja eiga að miðast við minnsta mögulega skammt og aðeins nokkra daga ( < 5 dagar ).
 • Í flestum tilfellum er langtímameðferð með ópíóíðum við krónískum verkjum óæskileg og leiðir af sér þolmyndun, fíkn og erfiðar aukaverkanir.
 • Samtímis meðferð með ópíóíðum og benzódíazepínum er varasöm og þess vegna óæskileg.
 • Æskilegt er að sami læknir sjái um lyfjagjöf allra verkjalyfja sjúklings á hverjum tíma.


Örvandi lyf við ADHD

 •  Fjallað er náið um greiningu og meðferð í lengri og styttri útgáfu klínískra leiðbeininga Embættis landlæknis, sjá ADHD – vinnulag við greiningu og meðferð
 • Einstaklingar sem ekki eru með ADHD-greiningu frá geðlækni eða taugalækni ættu ekki að fá ávísanir á örvandi lyf (nema viðkomandi hafi greinst með drómasýki).
 • Þó að einstaklingur kvarti undan einkennum sem gjarnan fylgja ADHD er ekki þar með sagt að hann sé með ADHD.
 • Sjúklingar með fíknisögu eða flóknar geðgreiningar, og grun um ADHD, ættu í öllum tilvikum að fara í ADHD-greiningu hjá ADHD-teymi Landspítala. Ef læknir er ósáttur við niðurstöðu ADHD-teymisins á hann að óska eftir endurskoðun greiningar hjá teyminu.
 • Í notkunarfyrirmælum um langverkandi form metýlfenidats skal þess getið að ekki skuli taka lyfið inn síðar að deginum en á hádegi, ef skipta þarf dagskammti í tvennt.
 • Samhliða notkun benzódíazepína, z-lyfja, ópíóíða eða pregabalíns er óheppileg vegna andverkunar við örvandi lyf.
 • Ýmsar frábendingar eru fyrir notkun örvandi lyfja og því getur þurft að leita ráðgjafar hjá sérfræðingi áður en meðferð er hafin. Leita getur þurft til sérfræðinga í hjarta-, tauga- eða fíknisjúkdómum svo dæmi séu nefnd.
 • Dagskammtar af metýlfenidati handa fullorðnum eiga helst að vera undir 1,0 mg/kg og alls ekki stærri en 1,3 mg/kg líkamsþunga.
 • Komi upp svefnvandi eftir að lyfjagjöf örvandi lyfja hefst ætti að íhuga að minnka skammta eða færa lyfjagjöfina fyrr að deginum frekar en að bæta við svefnlyfi.
 • Þegar nafn heilsugæslulæknis er sett á lyfjaskírteini fyrir ávísanir á ADHD-lyf á það alltaf að vera með samþykki hans og þarf hann að meta hvort lyfjagjöf sem hann á að sjá um sé sú rétta m.t.t. klíniskra leiðbeininga, notkunarleiðbeininga og annarra þátta eins og t.d. fíknisögu.
 • Ígrunda þarf vandlega hvort þörf sé á að meðhöndla væg ADHD-tilfelli með lyfjum eða hvort önnur úrræði dugi.
 • Ef einhver grunur er um misnotkun eða sölu metýlfenidats er mikilvægt að ávísa hvorki á Ritalin né Ritalin Uno. Heppilegra er þá að ávísa öðrum langverkandi formum lyfsins.
 • Áður en læknir sækir um lyfjaskírteini þarf að skoða ávísanir annarra ávanabindandi lyfja og meta hvort ástæða sé til að endurskoða þær ávísanir áður en ávísanir örvandi lyfja hefjast.


Flogaveikilyf

 • Rannsóknir sýna að bæði pregabalín og gabapentín eru ávanabindandi, enda er varað við því og misnotkun lyfjanna í sérlyfjaskrá. Talið er að misnotkun þessara lyfja byggist mest á því að þau samverki með öðrum ávanabindandi lyfjum og auki þannig vímu. Þetta ber að hafa í huga þegar ávísað er á þessi lyf, sérstaklega þegar sjúklingar með fíknisögu eiga í hlut.


Svefnlyf og róandi lyf

 • Lyf ættu ætið að vera síðasta val við svefnvanda, þegar önnur úrræði hafa verið reynd til fullnustu. Gæta þarf að þáttum eins og reglulegum svefnvenjum, streitu, hitastigi í svefnherbergi, lyfjum eða öðrum efnum sem geta truflað svefn (þ.m.t. kaffi og te) og fleira mætti telja.
 • Svefnlyf og róandi lyf á alltaf að nota í litlum skömmtum og yfirleitt ekki lengur en 2–4 vikur í senn; ef ekki er gætt að þessu fer þol að myndast og lyfin hætta að verka á svefn. Vélskömmtun hentar þess vegna illa fyrir þessi lyf.
 • Svefnlyf og róandi lyf eru sérstaklega varasöm hjá gömlu fólki þar sem þau valda oft sljóleika og auka hættu á byltum.
 • Oft eru gefnir of stórir skammtar, sérstaklega hjá öldruðum.


Róandi og kvíðastillandi lyf

 • Kvíði fylgir oft þunglyndi og heilabilun og stundum þarf að íhuga lyfjameðferð (sjá hér fyrir neðan).
 • Benzódíazepín geta verið gagnleg en ætti einungis að nota í skamman tíma (oft 2–4 vikur).
 • Við langtímanotkun benzódíazepína dvínar gagnsemi þeirra en hætta á ávana og fíkn eykst.
 • Við langvinnum kvíða kemur til greina að nota þunglyndislyf, t.d. SSRI-lyf.


Testósterón

 • Lyfjum með innihaldsefninu testósteróni ætti ekki að ávísa nema fyrir liggi reglulegar hormónamælingar sem framkvæmdar eru af viðurkenndri rannsóknarstofu. Greining kynkirtlavanseytingar er vandasöm og á að vera í höndum sérfræðings í innkirtlasjúkdómum.


Almennt um ávanabindandi lyf

 • Mjög óheppilegt er að læknir ávísi ávanabindandi lyfjum á sjúkling sem er búsettur fjarri starfsstöð læknisins vegna þess að slíkt hindrar eðlilegt meðferðarsamband.
 • Þegar sjúklingar gefa endurteknar skýringar fyrir beiðni um meiri lyfjagjöf á borð við stolin/gleymd/horfin/týnd lyf, utanlandsferðir eða uppköst þá er ástæða til að hafa varann á.
 • Ef einstaklingar eru komnir á stærri skammta af ávanabindandi lyfjum en læknir telur eðlilegt ætti hann að leggja fyrir sjúkling meðferðaráætlun eða gera við hann meðferðarsamning sem miðar að því að koma skömmtum í eðlilegt horf.
 • Læknar ættu ávallt að ávísa ávanabindandi lyfjum til eins skamms tíma og mögulegt er og ekki nota lægra töfluverð stærri pakkninga sem rök fyrir því að ávísa á stærri pakkningar.
 • Ef í ljós kemur að sjúklingur fær mörg ávanabindandi lyf frá fleiri en einum lækni ætti viðkomandi læknir að kanna sérstaklega sjúkrasögu sjúklingsins, kanna hugsanlegar frábendingar fyrir einhverju lyfjanna en einnig möguleika á milliverkunum.
 • Ef ljóst er að einstaklingur á við fíknivanda að stríða, misnotar ávanabindandi lyf eða aðra vímugjafa þarf að vísa sjúklingnum í viðeigandi meðferð á stofnun og setja upp meðferðaráætlun.
 • Áfengi, jafnvel í hóflegu magni, getur aukið verkanir slævandi lyfja þannig að hættuástand skapast.
 • Ýmis ávanabindandi lyf er ekki æskilegt að setja í skömmtun, til dæmis svefnlyf og róandi lyf sem ekki eru ætluð til langtímanotkunar. Einnig getur verið varasamt að hafa sterk verkjalyf í skömmtun í langan tíma því að mikið utanumhald þarf við slíka lyfjagjöf og fylgjast þarf náið með meðferð og árangri hennar.
 • Læknir ætti að hafa yfirsýn yfir þá einstaklinga sem hann er með í skömmtun á ávanabindandi lyf og kanna reglulega lyfjagjöf annarra lækna á þá.
 • Leggist sjúklingur inn á sjúkrastofnun þarf að gæta þess að lyfjagjöf þar skarist ekki á við skömmtun.
 • Ef sjúklingur sem fær umtalsvert af ávanabindandi lyfjum mætir ekki í bókaða tíma hvað eftir annað er ástæða til að endurskoða lyfjaávísanir.
 • Ávísanir lækna á ávanabindandi lyf á sig sjálfa eða nána ættingja eru óheppilegar af ástæðum sem ættu að vera nokkuð augljósar.
 • Mikilvægt er að læknir taki lyfjagjöf sérhvers sjúklings til reglulegrar endurskoðunar. Þetta er m.a. mikilvægt eftir að sjúklingur útskrifast af sjúkrastofnun þar sem hann kann að hafa fengið lyfjameðferð sem hugsuð var til skamms tíma.Við slíka endurskoðun er mikilvægt að sjúklingur og læknir hittist. 

Geðrofslyf og þunglyndislyf

 • Læknir ætti ekki að hefja lyfjagjöf þessara lyfja nema fyrir liggi örugg greining og meðferðaráætlun.

Sjá einnig greinina Verklag lyfjaeftirlits hjá Embætti landlæknis.

Lyfjateymi Embættis landlæknis


Fyrst birt 16.03.2017

<< Til baka