Fjölmiðlaumræða um Landspítalann

Vegna fréttar RÚV sl. sunnudagskvöld 19. des. þess efnis að ástandið á Landspítalanum (LSH) væri sérstaklega alvarlegt og að sjúklingar lægju þar á göngum og setustofum ákvað Embætti landlæknis þegar á mánudagsmorgni að gera skyndikönnun á ástandinu.

Könnunin fólst annars vegar í því að senda spurningalista til stjórnar LSH og hins vegar í því að fara í eftirlitsheimsókn á legudeildir á LSH við Hringbraut.

Niðurstaða eftirlitsheimsóknarinnar var sú að á þremur af þeim deildum sem voru skoðaðar lágu samtals sex sjúklingar á göngum eða í öðrum rýmum sem ekki eru sjúkrastofur. Viðtöl við deildarstjóra og starfsfólk leiddu í ljós að þetta væri ekki óvenjuleg staða, sérstaklega í lok helgar. Einhver tók svo til orða að þetta ástand hefði verið viðvarandi um áratugabil.

Það kom jafnframt fram að starfsfólk og deildarstjórar legðu sig alla fram um að leysa vandamál sjúklinga á sem bestan hátt og að sjá til þess að eingöngu sjúklingar sem ekki þyrftu aðkallandi þjónustu lægju í öðrum rýmum en venjulegum sjúkrarýmum.

Þegar viðtalið við landlækni var tekið lágu fyrir upplýsingar úr eftirlitsheimsókninni en ekki þær tölulegu upplýsingar sem beðið var um frá stjórn spítalans. Það var því viss léttir fyrir embættið að ástandið virtist ekki eins slæmt og gefið var til kynna í umræddri frétt á sunnudagskvöldinu.

Það breytir því hins vegar ekki að það er afar slæmt að sjúklingar sem þurfa á sjúkrahúsþjónustu að halda liggi á göngum eða setustofum. Það kemur einnig skýrt fram í viðtali við landlækni. Ákveðin skýring á ástandinu er sú að verið er að endurnýja eina 18 rúma deild og hún því lokuð af þeim sökum. Því miður voru sum atriði klippt úr viðtalinu svo sem ummæli landlæknis um frábært starf starfólks spítalans við að sinna þörfum sjúklinga eftir bestu getu.

Embættið mun skila skýrslu til Velferðarráðuneytisins og Landspítala þegar umbeðnar tölur liggja fyrir.

 Landlæknir


Fyrst birt 21.12.2016

<< Til baka