Næring ungbarna. Spurningar og svör

Sjá stærri mynd

Næringin fyrsta aldursárið leggur grunninn að fæðuvenjum barnsins síðar meir. Fæðuval foreldra og annarra á heimilinu mótar viðhorf barnsins til fæðunnar og getur haft áhrif á mataræði barnsins til frambúðar. Það er því góð og gild ástæða til að endurskoða eigin fæðuvenjur þegar nýr fjölskyldumeðlimur bætist í hópinn. Hér eru nokkrar algengar spurningar varðandi næringu ungbarna.

Sjá Ráðleggingar um mataræði á vef Embættis landlæknis. Einnig getur norræna matvælamerkið Skráargatið auðveldað hollara val í matarinnkaupum.

 • Hverjir eru helstu kostir brjóstagjafar?

  Brjóstamjólkin er náttúruleg og besta næringin fyrir ungbarnið. Hún inniheldur, auk næringarefna, ýmis efni sem hafa áhrif á þroska meltingarfæranna og starfsemi þeirra, vaxtarþætti, hormóna og efni sem örva ónæmiskerfið.

  Brjóstagjöf verndar börn fyrir bráðri eyrnabólgu, sýkingum í meltingarvegi og í neðri hluta öndunarfæra.

  Einnig eru minni líkur á ofþyngd og offitu hjá börnum og unglingum sem eru lengur eingöngu á brjósti.

  Það er einnig mögulegt að brjóstagjöf og minnki líkur á sjúkdómum og áhættuþáttum þeirra síðar á ævinni, svo sem háum blóðþrýstingi, háu kólesteróli í blóði, þróun sykursýki af gerð 1 og gerð 2 og bólgusjúkdómi í meltingarvegi (inflammatory bowel).

  Auk annarra kosta brjóstagjafar má nefna samveru móður og barns, þægindi við næturgjöf, og að brjóstamjólkin er ætíð fersk við rétt hitastig.

 • Nú hefur verið talað um að það geti dregið úr líkum á ofnæmi að innleiða fasta fæðu á aldrinum 4–6 mánaða í stað 6 mánaða,
  Af hverju var ráðleggingunum ekki breytt í þá átt?

  Við endurskoðun ráðlegginganna var sérstök áhersla lögð á að skoða hvort það væri heilsufarslegur ávinningur af því að innleiða annan mat en móðurmjólk fyrir 6 mánaða aldur.

  Niðurstöður rannsókna sýna að hvorki brjóstagjöf eingöngu í sex mánuði, né það að innleiða ofnæmisframkallandi matvörur við fjögurra mánaða aldur frekar en við sex mánaða aldur minnki líkur á fæðuofnæmi.

  Yfirlitsgreinar sem leggja mat á rannsóknaniðurstöður út frá ákveðnum gæðastöðlum um rannsóknir og taka tillit til margvíslegra þátta (ekki eingöngu ofnæmis) benda til þess að ekki sé ástæða til að breyta ráðleggingunni um að gefa börnum eingöngu brjóstamjólk auk D-vítamíns fyrstu sex mánuði ævinnar, vaxi þau og dafni eðlilega.

 • Hverjar eru helstu breytingarnar frá síðustu ráðleggingum?

  Ekki fresta neyslu hugsanlegra ofnæmisvalda

  Ekki er lengur talin ástæða til þess að börn í áhættuhópum fyrir ofnæmi, þ.e. ungbörn sem eiga foreldra og systkini sem hafa ofnæmi og einnig ung börn sem hafa exem, fresti neyslu hugsanlegra ofnæmisvalda.

  Móðir með barn á brjósti ætti ekki að útiloka fæðutegundir úr eigin mataræði í því skyni að fyrirbyggja ofnæmi hjá barninu þar sem þekking í dag bendir til þess að það að móðir forðist ákveðnar fæðutegundir verndi ekki gegn, eða seinki, ofnæmi og óþoli hjá barni.

  Ef hún hefur sjálf greinst með fæðuofnæmi þarf hún eingöngu að útiloka þær fæðutegundir sem hún er sjálf með ofnæmi fyrir og þá vegna eigin heilsu.

  Æskilegt er að leita til næringarfræðings/næringarráðgjafa í slíkum tilvikum til að tryggja gott næringargildi móðurmjólkurinnar.

  Auka fjölbreytni í fæðuvali tiltölulegar hratt eftir 6 mánaða aldur

  Æskilegt er að auka fjölbreytni í fæðuvali tiltölulega hratt eftir 6 mánaða aldur. Þá byrjar barnið að borða annan mat en móðurmjólk og fær litla skammta af mörgum fæðutegundum sem eru stækkaðir smám saman.

  Áður var ráðlagt að kynna barninu eina nýja fæðutegund í einu með nokkurra daga millibili, en nú er mælt með að gefa eina nýja fæðutegund í einu en auka fjölbreytnina nokkuð fljótt, þ.e. gefa mismunandi tegundir fæðu í litlu magni með áferð sem hentar barninu.

  Barn sem frá upphafi venst á að borða mat með mismunandi áferð og bragði verður síður matvant seinna á æskuárum.

  Gefa litla skammta af öðrum mat jafnvel frekar en ungbarnablöndu

  Ef barn á aldrinum fjögurra til sex mánaða þarf meira að borða en móðurmjólk eingöngu, getur það fengið að smakka litla skammta af öðrum mat, jafnvel frekar en að byrja að gefa því ungbarnablöndu til að ekki dragi úr myndun brjóstamjólkur þannig að brjóstagjöf geti haldið áfram.

  Þá þarf að hafa í huga að magnið sé svo lítið að annar matur leiði ekki til þess að brjóstagjöfin minnki. Börn sem eru farin að fá fasta fæðu í litlum skömmtum á aldrinum 4–6 mánaða geta núna fengið grauta úr korni sem inniheldur glúten ásamt glútenlausum tegundum.

 • Nú er ráðlagt að ungbarnið fái D-vítamín, hvort er mælt með D-vítamíndropum eða lýsi?

  Mælt er með að gefa D-vítamíndropa frá 1–2 vikna aldri og Krakkalýsi þegar barnið byrjar að borða fasta fæðu.

  Ef börnin virðast þola illa D-vítamíndropana má prófa að gefa aðra tegund.

  Mikilvægt er að skoða vel magn D-vítamíns í dropunum þar sem þeir innihalda mismikið D-vítamin og gefa sem samsvarar 10 míkrógrömmum. Jafnframt þarf að hafa í huga að ráðlagður skammtur framleiðanda gæti verið annar en ráðlagt er fyrir ungbörn á Íslandi.

  D-vítamín magn í mismunandi D-vítamíndropum á markaði. Upplýsingar af umbúðum varanna í júní 2016.

   

  LIVOL – D

  5 dropar

  Baby D-drops

  1 dropi

  Animal Parade

  2 dropar

  NOW

  4 dropar

  Natures aid

  1 ml

  D-vítamín, míkrógrömm

  10

  10

  10

  10

  10


Fyrst birt 09.11.2016
Síðast uppfært 27.06.2017

<< Til baka