Leiðbeiningar um smitvarnir vegna Ólympíuleikanna í Brasilíu 2016

Sjá stærri mynd

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hefur birt áhættumat vegna mögulegrar smithættu af völdum smitsjúkdóma í tengslum við Ólympíuleikana í Rio de Janeiro í Brasilíu 2016.

Ferðamönnum, þar með talið íþróttamönnum, sem sækja Ólympíuleikana í Ríó í Brasilíu dagana 5.–21. ágúst og Ólympíuleika fatlaðra dagana 7.–18. september 2016 stafar mest hætta af iðrasýkingum og skordýrabornu smiti, einkum moskítóflugum.

Því er mikilvægt að gæta að grundvallarsmitgát til að draga úr líkum á iðrasýkingum og verjast moskítóflugum og öðrum skordýrum með því að nota mýflugnafælandi áburð og klæðast langerma skyrtum og buxum á svæðum þar sem skordýraborið smit er algengt.

Hafa þarf í huga áhættuna á því að fjölónæmir sýklar nái fótfestu í meltingarvegi hjá ferðamönnum án tillits til þess hvort þeir hafa haft samband við heilbrigðisþjónustuna eða ekki á meðan dvalist er í Brasilíu og næstu þrjá mánuðina eftir að komið er heim frá Brasilíu. Skerpa þarf á vöktun smitsjúkdóma til að finna ógnanir á því stigi þegar aðgerðir geta komið í veg fyrir eða dregið úr afleiðingum hópsýkinga.

Ólympíuleikarnir verða haldnir að vetri til í Brasilíu. Svalara og þurrara loftslag mun draga úr fjölda moskítóflugna. Það dregur úr líkum á moskítóbornu smiti meðal ferðamanna svo sem Zíkaveiru, beinbrunasótt (dengue) og Chikungunya, nema í Manaus á Amasónsvæðinu þar sem nokkrir fótboltaleikir fara fram.

Enda þótt líkurnar á því að verða fyrir biti af sýktri moskítóflugu séu taldar litlar á meðan á leikunum stendur er ekki hægt að útiloka að ferðamenn komi heim með sýkingu. Virkar moskítóflugur eru til staðar í sumum suðlægum Evrópuríkjum. Þær gætu sýkst og valdið staðbundinni útbreiðslu í Evrópu. Þetta á ekki við um Ísland þar sem ekki er að finna moskítóflugur á Íslandi.

Á undanförnum árum hefur rauðum hundum verið bægt frá Brasilíu og frá því í júlí 2015 hefur mislingum einnig verið bægt frá þar í landi. Þessir sjúkdómar eru enn til staðar í mörgum öðrum löndum, þar með talið sumum Evrópulöndum, og gætu því borist til Brasilíu með ferðamönnum.

 

Ráðleggingar til ferðamanna

Ferðamenn á leið til Brasilíu ættu að leita sér ráðlegginga um bólusetningar. Allir ferðamenn ættu að afla sér viðeigandi sjúkratrygginga áður en ferðast er til Brasilíu. Ef þörf verður á heilbrigðisþjónustu þar ættu ferðamenn að hafa samband við brasilíska heilbrigðiskerfið (Sistema Único de Saúde – SUS) í næsta sjúkrahúsi eða með því að nota sína sjúkratryggingu á hvaða heilbrigðismóttöku sem er.

 

Áður en lagt er af stað til Brasilíu þarf að huga að:

 • Bólusetningum gegn lömunarveiki, barnaveiki, stífkrampa, kikhósta, ef liðin eru meira en 10 ár frá síðustu bólusetningu. Einnig mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR) hafi viðkomandi ekki fengið slíka bólusetningu eða einungis fengið hana einu sinni.
 • Lifrarbólgu A, en það eru meiri líkur á að smitast af henni í Brasilíu en Evrópu. Mikilvægt að hafa gilda bólusetningu gegn lifrarbólgu A.
 • Gulusótt (yellow fever), en sjúkdómurinn er landlægur á sumum svæðum Brasilíu. Mikilvægt að hafa í huga fyrir þá sem ætla að sækja fótboltaleiki í Belo Horizonte, Brasilia (höfuðborginni) eða í Manaus á Amasónsvæðinu.
 • Hundaæði er að finna í Brasilíu. Forðast ber samneyti við flækingshunda og ketti. Hafa skal samband við lækni þegar í stað ef dýr hefur bitið viðkomandi. Rétt er að íhuga bólusetningu gegn hundaæði fyrir brottför ef ætlunin er að dvelja lengur en mánuð í sveitum landsins. 
 • Malaríu, en sjúkóminn er að finna víða utan Rio de Janeiro. Huga skal að fyrirbyggjandi meðferð ef dvalið er á svæðum þar sem malaríu er að finna, ef það á við.
 • Öðrum bólusetningum sem taka mið af lífsstíl, gjörningum eða undirliggjandi heilsufarsvandamálum. Þetta á einnig við um bólusetningu gegn inflúensu, helst með þeim stofnum sem eiga við árstíðabundnu inflúensuna 2016 á suðurhveli jarðar. Ólympíuleikirnir eru einmitt haldnir þegar inflúensan er þar í hámarki. Reynt verður að tryggja aðgengi að slíku bóluefni fyrir ferðamenn sem leggja leið sína á Ólympíuleikana.

Á meðan dvalið er í Brasilíu þarf að huga að:

 • Grundvallarsmitgát svo draga megi úr líkum á iðrasýkingum. Drekka átappaða drykki, ísmola sem framleiddir eru í verksmiðjum (ekki úr kranavatni). Borða gegnsoðið kjöt og fisk. Framreiða blandaðar máltíðir, svo sem feijoada (brasilísk bauna- og kjötstappa) eða lasagne við hitastig yfir 60°C og salatrétti undir 5°C og hreinsa alla ávexti og grænmeti fyrir neyslu. 
 • Huga að smitgát við neyslu staðbundinna afurða svo sem ferskra ávaxtasafa, hnetuvatns, hanastéla og annarra drykkja. 
 • Forðast skal áhættuhegðun í kynlífi svo draga megi úr líkum á kynsjúkdómum, blóðbornum sýkingum og HIV.

Þegar komið er heim frá Brasilíu

 • Ef ferðamenn þurfa á sjúkrahúsvist að halda innan árs eftir heimkomu frá Brasilíu, eftir að hafa legið þar á sjúkrahúsi, þarf að upplýsa um sjúkrahúsið þar í landi til að flýta fyrir greiningu á hugsanlegu smiti af völdum fjölónæmra sýkla og þannig koma í veg fyrir frekari útbreiðslu þeirra.

Sérstakar ráðleggingar vegna sýkinga af völdum Zíkaveiru

 • Þungaðar konur og konur sem hyggja á barneign ættu að íhuga að fresta för, sem ekki er brýn þörf fyrir, til svæða þar sem sjúkdómurinn geisar, þar til eftir fæðingu. Á meðan á Ólympíuleikunum stendur ber að líta á Norður- og Norð-Austur héruð landsins (sérstaklega Manaus og Salvador) sem hættusvæði þar sem búast má við smiti af völdum Zíkaveiru. 
 • Þungaðar konur sem hyggja á ferð til Ríó 2016 og þungaðar konur sem eru búsettar á hættusvæðum ættu að ráðfæra sig við heilbrigðisstarfsmenn og fylgja reglum um að fyrirbyggja moskítóbit. 
 • Ferðamenn sem eru með skert ónæmiskerfi eða viðvarandi sjúkdóma ættu að ráðfæra sig við lækni eða að leita ráða hjá heilsugæslunni einkum hvað varðar forvarnir.
 • Ferðamönnum sem leggja leið sína til Brasilíu er ráðlagt að nota smokka til að draga úr líkum á smiti með samförum.

Sóttvarnalæknir


Fyrst birt 23.05.2016

<< Til baka