Tannburstun í leikskólanum. Leiðbeiningar

Sjá stærri mynd

Hafa má jákvæð áhrif á tannheilsu leikskólabarna með því að koma á góðum venjum varðandi tannhirðu bæði heima og í leikskólanum.

Börn verja stærstum hluta dagsins í leikskólum og góð tannhirða ætti að vera fastur liður í persónulegu hreinlæti barna á skólatíma. Leikskólabörn hafa ekki þá færni að geta burstað tennur sínar án aðstoðar. Í leikskólum má stuðla að betri tannheilsu og fækkun tannskemmda með daglegri tannburstun með flúortannkremi en flúor herðir yfirborð tanna og veitir virka vörn gegn tannskemmdum.

1. Fræðsla um tannvernd og upplýsingar til foreldra

Í foreldraviðtölum eru foreldrar/forráðamenn spurðir út í tannhirðuvenjur heima auk þess sem bent er á aðgengilegt fræðsluefni um tannhirðu barna. Foreldrar eru hvattir til að bursta tennur barns áður en komið er í leikskólan og mjög vel áður en farið er að sofa á kvöldin. Einnig eru foreldrar upplýstir um tilgang og framkvæmd tannburstunar í leikskólanum.
Allir starfsmenn leikskólans fá fræðslu um tannvernd og læra réttu handtökin við tannburstun barna. Nýir starfsmenn fá einnig þessa fræðslu þegar þeir hefja störf á leikskólanum.

2. Tannburstun fer fram einu sinni á dag

Æskilegt er að tennur barnanna séu burstaðar á svipuðum tíma daglega og mælt er með tannburstun eftir hádegismatinn. Starfsfólk leikskólans hreinsar hendur þegar búið er að bursta tennur hjá einu barni áður en tannburstun hefst hjá því næsta. Tannburstar eru skolaðir undir rennandi vatni eftir notkun.

3. Magn tannkrems

Mikilvægt er að setja rétt magn tannkrems á tannburstann, þar sem börnin skola ekki munninn eftir tannburstun, heldur kyngja tannkreminu. Börnin fá tannkrem úr sömu tannkremstúbu og því þarf að skammta u.þ.b. rétt magn á hreinan disk með hæfilegu bili milli tannkremsdoppanna til að uppfylla kröfur um hreinlæti. Síðan er rétt magn af tannkremi sett á tannbursta barnanna.

  • Börn yngri en 3ja ára
    Magn tannkrems á að samsvara ¼ af nögl litla fingurs barnsins 
  • Börn 3ja ára – 5 ára
    Magn tannkrems á að samsvara nöglinni á litla fingri barnsins

4. Tannburstun

Styðja þarf við höfuð barns þegar burstað er. Bursta þarf vel bitfleti jaxlanna, ytri og innri fleti og bak við öftustu tönn. Látið barnið bíta saman tönnunum þegar augn og framtennur eru burstaðar.

5. Hversu lengi á að tannbursta

Gott er að miða við að bursta tennur barnanna í 1-2 mínútur.

6. Hvar eru tennur barnanna burstaðar

Tannburstun getur farið fram inni á deild, t.d við matarborðið eftir hádegismatinn eða inni á klósetti við vaskinn. Til að sjá betur upp í munn barns er mælt með því að halda á barni „í foreldrastól" eða láta barnið sitja á stól og halla höfðinu aftur. Munið að styðja við höfuð barns meðan burstað er. Börnin hreinsa munn og hendur með þvottastykki þegar tannburstun er lokið.

7. Umhirða tannbursta / endurnýjun

Tannbursta má geyma í geymsluboxum eða plastkössum, án loks. Hvert hólf í plastkössunum eða hver tannbursti er merktur með nafni barnsins. Gott bil þarf að vera milli tannbursta í boxunum svo þeir snertist ekki. Geymsluboxin eru þvegin í uppþvottavél einu sinni í viku og tannburstar lagðir á hrein þvottastykki á meðan og þess gætt að hafa gott bil á milli þeirra svo þeir snertist ekki. Tannburstar eru skolaðir undir rennandi vatni eftir notkun og það þarf að lofta vel um þá í geymsluboxinu. Skipta skal út tannburstum barnanna ekki sjaldnar en á 6 mánaða fresti.

Betri tannheilsa barna (myndband á YouTube)


Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir 15.12.2015


Fyrst birt 30.12.2015
Síðast uppfært 11.10.2016

<< Til baka