Tannheilsa leikskólabarna

Meira er um tannskemmdir meðal íslenskra barna en sambærilegra hópa í nágrannalöndunum. Auka má tannvitund og bæta tannheilsu með því að kenna og koma á góðum venjum varðandi mataræði og munnhirðu bæði heima og í leikskólanum því mikilvægt er að börn á leikskólaaldri læri að þeim líður vel með hreinar og heilbrigðar tennur.

Almennar ráðleggingar mæla með tannburstun með flúortannkremi að lágmarki tvisvar á dag, eftir morgunverð og mjög vel áður en farið er að sofa á kvöldin. Foreldrar gegna lykilhlutverki í tannhirðu barna sinna en samvinna heimila og leikskóla getur stuðlað að enn betri tannheilsu barna og þar með að betri tannheilsu síðar á ævinni.

Í Breiðholti er í gangi átaksverkefnið Betri tannheilsa barna en þar starfar tannlæknir með leikskólunum, metur tannheilsu barnanna og veitir m.a. aðstoð við skráningu barna hjá heimilistannlækni. Foreldrar vanda sig við tannhirðu barnanna heima bæði á morgnana og á kvöldin, en eftir hádegismatinn eru tennurnar burstaðar í leikskólanum.

Betri tannheilsa barna (myndband á YouTube um tannburstun í leikskólum)


Fyrst birt 30.12.2015
Síðast uppfært 11.10.2016

<< Til baka