Vef- og samfélagsmiðlastefna embættis landlæknis

Sjá stærri mynd

Samþykkt í október 2015 og uppfærð í september 2017.


Almennt

Embætti landlæknis starfrækir vefinn www.landlaeknir.is til þess að miðla upplýsingum, leiðbeiningum og ráðleggingum til almennings og fagfólks á skýran og vandaðan hátt. Vefurinn er einn helsti farvegur fyrir upplýsingar frá embættinu. Að auki starfrækir embættið aðra vefi og vefsvæði sem þjóna sértækari þörfum notenda.

Vefir og vefsvæði á vegum embættisins lúta sömu vefstefnu. Stefnan nær einnig til samfélagsmiðla sem embættið notar til að koma skilaboðum eða upplýsingum á framfæri á óformlegri hátt. Hún nær einnig til allrar rafrænnar þjónustu sem er í boði á vef embættisins.

Vefurinn og tengd vefsvæði skulu vera í samræmi við stefnu embættis landlæknis eins og hún er á hverjum tíma.


Markmið

Markmið með vef- og samfélagmiðlastefnu embættis landlæknis er að allir rafrænir miðlar á þess vegum veiti notendavæna og vandaða þjónustu þar sem fagmennska og þekking, áreiðanleiki og framsækni eru í fyrirrúmi.


Leiðarljós

Vef- og samfélagsmiðlastefnu er ætlað að vera leiðarljós þeim sem vinna efni fyrir vef og vefsvæði embættisins. Leiðarljósin eru:

  • Áreiðanleiki: Vönduð og fagleg efnistök þannig að notandinn geti treyst því að allar upplýsingar séu réttar og uppfærðar. Efnið skal yfirfarið og/eða uppfært árlega.
  • Einfaldleiki: Skýr framsetning; upplýsingar settar fram á hnitmiðuðu og greinargóðu máli. Nota á málfar sem miðar við almennan lesanda og forðast sérhæft og tæknilegt orðaval þar sem því verður við komið.
  • Skilvirkni: Notandinn finni hratt það sem hann leitar að og rafræn þjónusta á vefnum gangi greiðlega fyrir sig.


Aðgengi

Viðmót og leiðakerfi skal vera aðgengilegt og augljóst og vísa notandanum auðveldlega og hratt áfram.

Íslenska skal vera aðaltungumál í öllum rafrænum miðlum og rafrænni þjónustu embættisins. Taka skal tillit til þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og birta lykilupplýsingar um embættið og áríðandi fréttir einnig á ensku. Auk þess skal sumt útgefið efni þýtt á fleiri tungumál þegar sérstök ástæða þykir til.

Vefur embættis landlæknis skal fara eftir aðgengisstöðlum fyrir sjónskerta. 

Gerðar hafa verið ýmsar breytingar á vef til að auðvelda notendum með fötlun að ferðast um vefinn og nálgast það efni sem þar er birt. Sá staðall sem tekið er mið af eru alþjóðlegu viðmiðunarreglurnar um stafrænt aðgengi, eða Web Content Accessibility Guidelines.

Vefurinn er meðal annars aðgengilegur blindum sem nýta sér heimasíður með hjálp skjálesara, sjónskertum sem þurfa sérstaklega stórt letur, lesblindum sem hentar annar bakgrunnur en venja er að nota og hreyfihömluðum sem eiga erfitt með að nota mús við að ferðast um vefsíður. Þessi atriði auðvelda einnig öldruðum að nýta sér vef stofnunarinnar.

Nýtt efni skal vera í samræmi við yfirlýsta stefnu sem birt er á vefnum. Eldra efni sem talið er mikilvægt eða er mikið sótt er uppfært til að það standist sömu viðmið.

Vefurinn skal vera aðgengilegur í öllum helstu tækjum, snjallsímum og spjaldtölvum og fylgja tækniþróun á hverjum tíma.


Margs konar rafræn miðlun með samræmda stefnu

Samræmi

Vef- og samfélagsmiðlastefnunni er ætlað að skapa samræmi í rafrænni miðlun embættisins. Með henni er leitast við að skapa heildstæða umgjörð og samræmi í framsetningu þótt útlit og viðmót geti verið mismunandi eftir vefsvæðum.

Upplýsingar um sama efni á mismunandi vefjum og miðlum mega ekki stangast á og þurfa að uppfylla sömu kröfur um vönduð vinnubrögð og áreiðanleika, sama hver miðillinn er.

Vefir/vefsvæði

Auk aðalvefseturs embættisins, www.landlæknir.is, starfrækir embættið fleiri vefi og vefsvæði sem þjóna sértækari þörfum notenda. Hægt er að hlekkja af forsíðu embættisins á öll þessi vefsvæði: influensa.is, skafl.is, gagnaskil.is, donor.landlaeknir.is; hreyfitorg.is og sykurmagn.is.

Heilsuvera.is er samstarfsverkefni embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Markmið síðunnar er að koma á framfæri til almennings áreiðanlegri þekkingu um þroska, heilsu og áhrifaþætti heilbrigðis. Inn á mínum síðum er öruggt vefsvæði þar sem hægt er að eiga í samskiptum við starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar og nálgast gögn úr eigin sjúkraskrá.

Gæta verður þess að fullt samræmi sé í upplýsingum um sama efni á öllum þessum vefjum. Betra er að tengja á milli þeirra heldur en að margskrá sömu upplýsingar.

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar gegna vissu hlutverki í rafrænni þjónustu sem hefur öðlast viðurkenningu sem árangursrík aðferð til að auka upplýsingaflæði og stuðla að samræðu við notendur. Þar eru samskipti óformlegri en í öðrum miðlum, en ávallt skal gæta að málfari og kurteisi og fagmennska höfð í heiðri.

Sjá samfélagsmiðlastefnu embættis landlæknis.

Rafræn gagnvirk þjónusta

Stefnt er að því að bjóða gagnvirka rafræna þjónustu á sem flestum sviðum þjónustu hjá embættinu, t.d. rafræna afgreiðslu umsókna um starfsleyfi heilbrigðisstétta, gagnasendingar og fleiri þætti.


Ábyrgð

Vefstefnan gerir ráð fyrir vefstjóra, sem jafnframt er ritstjóri aðalvefs embættis landlæknis. Vefráð, sem skipað er fulltrúum allra sviða, er vefstjóra til ráðgjafar og samráðs um þróun og viðhald vefsins. Ritstjórn tekur ákvarðanir um þróun vefsins og meiri háttar breytingar en daglegur rekstur hans og viðhald eru á ábyrgð vefstjóra. Vefstjóri og starfræksla vefsins heyrir undir svið rekstrar og öryggis.

Í verklagsreglum er nánar kveðið á um ábyrgð á einstökum undirvefjum og vefsvæðum.


Verklagsreglur

Vefstefnunni fylgja verklagsreglur sem taka annars vegar til ábyrgðar á einstökum undirvefjum og vefsvæðum og hins vegar til verklags við vefumsjón og útfærslu einstakra verkþátta. Verklagsreglurnar eru gefnar út í Gæða- og öryggishandbók embættisins.

 


Fyrst birt 07.10.2015
Síðast uppfært 20.08.2021

<< Til baka