Hlutverk sviða hjá Embætti landlæknis

Sjá stærri mynd

Hlutverk einstakra sviða hjá Embætti landlæknis samkvæmt breyttu skipulagi sem gekk í gildi 1. október 2018 eru eftirfarandi:


Eftirlit og gæði

 

Sviðið hefur aðalumsjón með eftirliti með heilbrigðisstofnunum, einstökum heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisstéttum, hvort sem þeir starfa í opinberri eða einkarekinni heilbrigðisþjónustu.

Eftirlitið tekur bæði til stofnana í opinberum rekstri og í einkarekstri.

Sviðið sér um kvartanir sjúklinga og að þær séu afgreiddar á óhlutdrægan og skjótan hátt.

Sviðið sér um að rannsaka alvarleg atvik og fylgja eftir að úrbætur séu gerðar til að fyrirbyggja slík atvik.

Sviðið fylgist með lyfjaávísunum lækna og stuðlar að skynsamlegri lyfjanotkun.

Sviðið hefur yfirumsjón með veitingu starfsleyfa heilbrigðisstétta og, ef við á, takmörkun eða sviptingu starfsleyfa.

Sviðið tekur á móti tilkynningum um rekstur heilbrigðisþjónustu og metur þær með tilliti til faglegra lágmarkskrafna landlæknis.

Lögfræðingar embættisins hafa starfsaðstöðu sína innan sviðsins en veita lögfræðiaðstoð öllu embættinu eftir því sem við á.

Hluti eftirlitsins er fólginn í úttektum innan stofnana sem taka m.a. til eftirfarandi atriða:

  • Hlutverks viðkomandi stofnunar, stefnumörkunar og skipurits og að ábyrgð og skyldur yfirmanna og starfsfólks séu skýr og öllum kunnug.
  • Gæða, öryggis og aðgengileika þjónustunnar.
  • Fyrirkomulags stofnunarinnar á skráningu atvika og kvartana sjúklinga.
  • Starfshátta og aðstöðu starfsfólks ásamt öryggismenningu á vinnustað.
  • Skráningar í samræmda, rafræna sjúkraskrá og aðgangs að Veru og öðrum nauðsynlegum rafrænum gögnum, svo sem lyfjagagnagrunni.
  • Eftirlitið getur beinst að einstökum eða fleiri af ofangreindum þáttum í hverri úttekt.

Heilbrigðisupplýsingar

Sviðið ber ábyrgð á heilbrigðisskrám og öðrum gagnagrunnum embættisins og að vinnsla þeirra fari eftir landslögum. Sviðið hefur yfirumsjón með upplýsingakerfum embættisins og ber ábyrgð á því að þau séu hverju sinni í samræmi við kröfur og þarfir embættisins. Þá ber sviðið ábyrgð á að annast uppbyggingu og þróun rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu.

Vinnslu gagna úr gagnagrunnum ber að aðlaga að þörfum einstakra sviða embættisins. Mikilvægt er að önnur svið embættisins skilgreini eins vel og auðið er hvaða gögn þau þurfa að fá greind, á hvaða formi þau eru afhent og hversu oft.

Sviðið sér um að skila inn gögnum sem nauðsynleg eru fyrir stefnumótun stjórnvalda.

Sviðið ber ábyrgð á að miðla reglubundinni tölfræði um heilsufar og heilbrigðisþjónustu, m.a. á vefsetri embættisins.

Sviðið ber ábyrgð á því að gögnum sé skilað til alþjóðlegra stofnana í samræmi við alþjóðasamstarf stjórnvalda.

Sviðið ber ábyrgð á framkvæmd reglubundinnar könnunar á heilsu og líðan Íslendinga.

Sviðið sér til þess að veita aðgang að gögnum úr heilbrigðisskrám til vísindastarfs að fengnum leyfum Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.

Sviðið ber ábyrgð á verkefnum á sviði rafrænnar sjúkraskrár, s.s. Veru og samtengingum og að þau verkefni verði til lykta leidd samkvæmt áætlunum.

 

Áhrifaþættir heilbrigðis

Sviðið ber ábyrgð á heilsueflingu og forvarnastarfi þar sem unnið er heildstætt með helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Unnið er að áfengis-, tóbaks- og vímuvörnum, bættu mataræði, aukinni hreyfingu, geðrækt og tannvernd ásamt ofbeldis- og slysavörnum.

Sviðið ber ábyrgð á að fylgjast með stöðu og þróun áhrifaþátta heilbrigðis, með árlegri vöktun og könnuninni Heilsa og líðan Íslendinga. Byggt á þessum gögnum og öðrum vinnur sviðið að gerð svæðisbundinna lýðheilsuvísa. Áhersla er á að koma á samvinnu við sveitarfélög, heilsugæslu, menntastofnanir og aðra hagsmunaaðila til að stuðla að árangursríku lýðheilsustarfi þvert á geira og stig samfélagsins í gegnum Heilsueflandi samfélag og Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Meginmarkmiðið er að styðja samfélög og skóla í að skapa aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan fyrir alla.

Sviðið vinnur með stjórn Lýðheilsusjóðs að faglegri úthlutun styrkja.

 

Sóttvarnir

Sviðið ber ábyrgð á sóttvörnum og að þeim sé háttað í samræmi við sóttvarnalög.

Enn fremur ber sviðið ábyrgð á því að framfylgja aðgerðum sem tilgreindar eru í Stefnu í almannavarna- og öryggismálum ríkisins 2015–2017.

Sviðið annast tengsl við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina samkvæmt alþjóða heilbrigðisreglugerðinni, við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Heilbrigðis- og öryggismálaráð Evrópusambandsins.

Sviðið ber ábyrgð á því að fylgast með þeim mælivísum sem geta gefið til kynna að ógn steðji að landsmönnum af völdum smitsjúkdóma, heimsfaraldra, eiturefna, geislavirkra efna, náttúruhamfara eða óvæntra atburða sem geta ógnað heilsu landsmanna.

Sviðið ber enn fremur ábyrgð á því að veita ráðleggingar á sviði sóttvarna til stjórnvalda, almennings og annarra aðila sem koma að almannavörnum, gera viðbragsáætlanir í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og grípa til opinberra og einstaklingsbundinna aðgerða sem geta hindrað farsóttir í landinu.

Sviðið ber ábyrgð á því að skipulegga og fylgjast með almennum bólusetningum í landinu, notkun sýklalyfja og útbreiðslu ónæmra sýkla, veita ráðgjöf þar að lútandi og grípa til aðgerða ef þess gerist þörf.

 

Rekstur og þjónusta

Sviðið ber ábyrgð á öllum innri rekstri embættisins, svo sem fjársýslu, starfsmannahaldi, skjalavörslu, öryggismálum, húsnæðismálum, móttöku og símavörslu ásamt útgáfu og miðlun efnis á vefsetri og í öðru formi.

Sviðið ber ábyrgð á því að fjármál embættisins séu sýnd samkvæmt góðum bókhaldsvenjum og að raunhæf staða og útkomuspá fyrir rekstur embættisins liggi fyrir minnst ársfjórðungslega.

Sviðið ber ábyrgð á því að bregðast við framúrkeyrslu í rekstri og upplýsa framkvæmdastjórn þegar í stað.

Sviðið er ráðgefandi gagnvart öðrum sviðum embættisins varðandi starfsmannahald og sér um að reglum ríkisins og samningum milli ríkis og stéttarfélaga sé fylgt.

Sviðið ber ábyrgð á því að hafa samskipti við húseiganda og fylgjast með því að aðgengi og öryggismál fylgi lögum og reglum og uppfylli kröfur sem gerðar eru til húsnæðis opinberra stofnana.


Fyrst birt 03.09.2015
Síðast uppfært 21.02.2017

<< Til baka