Niðurstöður viðhorfskönnunar

Samkvæmt samnorrænni könnun á viðhorfi og þekkingu á áhrifum mikillar saltneyslu sem framkvæmd var sumarið 2014 kemur fram að Íslendingar eru mjög móttækilegir fyrir því að draga úr saltneyslu ef þeir fá að vita að þeir neyti of mikils salts.

Þeir eru einnig almennt hlynntir því að geta valið saltminni matvæli. Rúmlega 60% telja að það að matvælaiðnaðurinn dragi úr saltmagni í vörum sínum geti hjálpað þeim við að velja saltminni mat.

Íslendingar leggja langmesta áherslu á verð (81%) við innkaup. Tæp 60% leggja áherslu á næringarefnainnihald og svipað hlutfall á bragð. Þegar skoðað var út frá heilsufarssjónarmiðum hve mikla athygli fólk veitir ákveðnum innihaldsefnum matvæla kom í ljós að Íslendingar veita sykurinnhaldi að meðaltali mesta athygli og saltinnihaldi minnsta.

Rúmur helmingur Íslendinga þekkir ekki ráðlegginguna varðandi saltneyslu, sem er 6 grömm að hámarki á dag. Tæplega 30% telja að þeir neyti þess saltmagns sem mælt er með en einn af hverjum fjórum telja að þeir neyti aðeins meira eða miklu meira salts en mælt er með. Sama hlutfall, einn af hverjum fjórum telur saltneysluna aðeins minni eða miklu minni en mælt er með. Stór hluti Íslendinga veit að stærstur hluti þess salts sem þeir neyta kemur úr unnum matvælum en 7% telja að það sé salt sem notað er við matreiðslu eða við matarborðið.

Tæp 90% telja að of mikil saltneysla geti haft neikvæð áhrif á heilsuna, 21% í miklum mæli, 54% í nokkrum mæli og 14 % í minna mæli. Aðeins fjórir af hverjum tíu reyna oft eða næstum alltaf að minnka saltneyslu sína. Konur reyna mun meira en karlar að draga úr saltneyslu. Tvöfalt fleiri karlar en konur gera aldrei neitt í því. Aldur hefur mikil áhrif, því eldra sem fólk er því meira reynir það að draga úr saltneyslu sinni.

Sjá nánar skýrslu með niðurstöðum um viðhorfskönnun, niðurstöður fyrir Ísland annars vegar og niðurstöður fyrir öll Norðurlöndin saman hins vegar.

Skýrslur:

Viðhorf og þekking Íslendinga varðandi saltneyslu 2014 (PDF)

Samnorrænar niðurstöður á viðhorfi og þekkingu varðandi saltneyslu 2014 (PDF)

 

Ráðleggingar um mataræði fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri (PDF)


Fyrst birt 12.05.2015
Síðast uppfært 15.05.2015

<< Til baka