Spurningar og svör um salt

Sjá stærri mynd
 • Af hverju er ráðlagt að minnka saltneyslu?
  Það er heilsufarslegur ávinningur af því að minnka saltneyslu því þannig má draga úr hækkun blóðþrýstings, en háþrýstingur er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Mest eru áhrifin hjá þeim sem eru með of háan blóðþrýsting og hjá þeim sem eru yfir kjörþyngd en einnig má vinna gegn þeirri blóðþrýstingshækkun sem yfirleitt fylgir hækkandi aldri. Þá tengist mikil saltneysla einnig auknum líkum á krabbameini í maga.
 • Hvað er ráðlagt að borða mikið af salti að hámarki?
  Æskilegt er að draga úr saltneyslu (NaCl) þannig að hún verði ekki meiri en 6 g á dag að meðaltali fyrir fullorðna. Þetta samsvarar 2,4 g á dag af natríum. Fyrir börn frá 2 til 9 ára aldri ætti saltneysla að vera takmörkuð við 3–4 g á dag.
 • Hvað telst vera saltrík vara?
  Mikið unnin matvæli eru yfirleitt saltrík, t.d. unnar kjötvörur, ostur, brauð, pakkasúpur og sósur, snakk, tilbúnir réttir og skyndibiti. Ráðlagt er að lesa utan á umbúðir matvæla og velja sem oftast saltminni kostinn. Þegar lesið er á umbúðir er hægt að nota sem grófa viðmiðun að vara sé saltrík ef hún inniheldur 1,25 g af salti eða meira í 100 g vöru. Sjá nánar í grein um þetta efni frá mars 2014: Drögum úr saltneyslu.
 • Skiptir tegund salts máli? Þ.e. hvort notað er gróft salt, sjávarsalt eða annað salt?
  Nei, tegund salts skiptir ekki máli, natríum úr hvaða salti sem er getur stuðlað að hækkun blóðþrýstings.
 • Hvar er saltið helst að finna?
  Erfitt getur verið fyrir fólk að átta sig á hversu mikið salt það borðar frá degi til dags. Ástæðan er sú að stærstur hluti salts í fæðunni, eða um 75%, er dulinn í matvælum, svo sem í unnum kjötvörum, brauði, ostum, pakkasúpum og sósum, tilbúnum réttum og skyndibitum. Mikilvægt er því að skoða innihaldslýsingar og merkingar um næringargildi og velja saltminni kostinn. Skráargatið getur einnig hjálpað til því skráargatsmerktar vörur innihalda yfirleitt minna salt.
 • Hvað borða Íslendingar mikið salt?
  Þrátt fyrir að saltneysla hafi minnkað um 5% frá árinu 2002 borða Íslendingar enn of mikið salt. Þetta sýna niðurstöður landskönnunar á mataræði meðal fullorðinna sem fram fór 2010–2011. Meðalneysla karla á salti er a.m.k. 9,5 g og kvenna 6,5 g á dag. Þetta miðar við salt við matreiðslu skv. algengum uppskriftum, og uppgefið magn í tilbúnum réttum. Ekki er tekið tillit til þess salts sem hugsanlega er stráð á diskinn né hversu mikið er í raun saltað við matreiðslu. Því er neyslan trúlega vanmetin. Niðurstöður rannsókna á foreldrum 6 ára barna sem Rannsóknastofa í næringarfræði framkvæmdi þar sem mælt var natríum í 24-tíma þvagsýni benti til að saltneyslan væri vanmetin um 2 g á dag.
 • Hvernig get ég minnkað saltneyslu mína?
  Með því að fara eftir neðangreindum hollráðum er auðveldara að minnka saltneysluna Veldu matvörur með litlu salti og takmarkaðu notkun á salti við matargerð og á matinn. Veldu lítið unnin matvæli enda eru mikið unnin matvæli yfirleitt saltrík. Lestu utan á umbúðir matvæla og veldu sem oftast saltminni kostinn. Vara telst saltrík ef það eru meira en 1,25 g salt (meira en 0,5 g natríum) í 100 grömmum. Bragðaðu matinn áður en saltað er. Ekki bera fram salt með matnum. Stilltu skammtastærðinni í hóf ef þú borðar saltríkar vörur. Veldu skráargatsmerktar vörur þar sem þær innihalda yfirleitt minna salt.

 


 

 


Fyrst birt 12.05.2015
Síðast uppfært 28.06.2017

<< Til baka