Upplýsingar um sykurneyslu

Sjá stærri mynd

Hvað er viðbættur sykur?

Viðbættur sykur er sykur sem bætt er í matvælin við framleiðslu þeirra. Ekki er bara um hvítan sykur að ræða heldur einnig hrásykur, púðursykur, melassa, síróp, agavesíróp, viðbættan ávaxtasykur og náttúrulegan sykur sem er til staðar í hunangi svo eitthvað sé nefnt.

Það skiptir ekki máli hvaða tegund af sykri er um að ræða, almennt er ekki hollara að bæta í matvalin einni sykurtegund fremur en annarri

Hollráð til að minnka sykurneyslu

Drekka vatn við þorsta og með mat því kranavatn er besti drykkurinn. Kolsýrt vatn, án sítrónusýru (E330), getur einnig verið góður kostur í stað gos- eða svaladrykkja. 

Drekka lítið eða ekkert af gos- og svaladrykkjum.

Gæta hófs í neyslu á sælgæti, kökum, kexi og ís. Fá sér frekar hnetur, fræ og ávexti. 

Hvað er ráðlagt að borða mikinn sykur að hámarki á dag?

Í raun er viðbættur sykur óþarfi en ráðleggingar kveða á um að æskilegt sé að neysla á viðbættum sykri sé undir 10% af heildarorku dagsins. Jafnvel er talið að enn frekari takmörkun geti verið til bóta.

Af hverju er ráðlagt að takmarka neyslu á viðbættum sykri?

Neysla á sykurríkum vörum, þ.m.t. gosdrykkjum, eykur líkur á þyngdaraukningu og tannskemmdum. Mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur auk þess aukið líkur á sykursýki af tegund 2.

Hve mikinn viðbættan sykur borða Íslendingar?

Fullorðnir

Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði 2010-2011 þá fá Íslendingar á aldrinum 18-80 ára að meðaltali tæplega 9% orkunnar úr viðbættum sykri.

Ungir karlmenn (18-30 ára) fá um 12% orkunnar úr viðbættum sykri og ungar konur (18-30 ára) um 11,3%, sem er yfir ráðleggingum. Ungt fólk sem drekkur gosdrykki oftar en tvisvar í viku fær mun meira af viðbættum sykri en ráðleggingar segja til um.

Um 80% af viðbættum sykri í fæði fullorðinna koma úr gos- og svaladrykkjum, sælgæti, kökum, kexi og ís, þar af tæpur helmingur úr gos- og svaladrykkjum.

Börn

Nýleg rannsókn á mataræði 6 ára barna sýndi að þau fá að meðaltali 11% orkunnar úr viðbættum sykri sem er yfir ráðleggingum, tæplega 60% barnanna borðuðu of mikinn sykur.

Samkvæmt niðurstöðum rannsókna á næringu barna þá kemur of hátt hlutfall orkunnar úr viðbættum sykri, 13% hjá 9 ára börnum og 16% hjá 15 ára.

Yfir helmingur af viðbætta sykrinum kemur úr sykruðum gos- og svaladrykkjum og sælgæti og ís hjá 9 ára börnum og tæplega 70% hjá 15 ára.

Tafla 1. Magn viðbætts sykurs (g eða sem %E) samkvæmt íslenskum rannsóknum

Landskönnun á mataræði 2010-2011

Konur

Karlar

Allir

%E

Allir 18-30 ára

40 g

55 g

47 g

8,9%

Karlar 18-30 ára

 

76 g

66 g

12,0%

Konur 18-30 ára

55 g

 

66 g

11,3%

 

 

 

 

 

Börn (Rannsóknir Rannsóknarstofu í næringarfræði, RÍN)

Stúlkur

Drengir

Allir

%E

3 ára (2007)

24 g

28 g

26 g

7%

5 ára (2007)

33 g

35 g

34 g

9%

6 ára (2011-2012)

-           

-           

43 g

11%

9 ára (2003-2004)

62 g

62 g

70 g

13%

15 ára (2003-2004)

87 g

113 g

101 g

16%

 

Tafla 2. Hvaðan kemur viðbætti sykurinn í fæði barna samkvæmt rannsóknum RÍN?

 

3 ára

5 ára

6 ára

9 ára

15 ára

Sykraðir gos- og svaladrykkir

13%

15%

14%

34%

44%

Sælgæti og ís

13%

18%

26%

22%

25%

Kex og kökur

20%

24%

20%

17%

15%

Mjólkurvörur

25%

13%

14%

12%

7%

Morgunkorn

8%

9%

12%

10%

4%

Annað

21%

21%

14%

5%

5%


Fæðuframboðstölur

Fæðuframboðstölur eru reiknaðar í kg/íbúa/ár samkvæmt jöfnunni: fæðuframboð = framleiðsla + innflutningur – útflutningur – önnur not (t.d. í dýrafóður). Í framboðstölu fyrir sykur er meðtalinn sykur úr vörum sem innihalda sykur, t.d. gos- og svaladrykkjum og sælgæti. Tölurnar taka ekki tillit til rýrnunar sem verður við framleiðslu, á lagerum, í verslunum og á heimilum eða birgðastöðu um áramót

Árið 2012 var framboð á sælgæti 18,9 kg á mann á ári, á gos- og vatnsdrykkjum með bæði sætu- og bragðefnum 146 lítrar/íbúa og framboð á sykri 47,7 kg.

Sjá nánar: Fæðuframboðstölur fyrir sykur, sælgæti og gos- og vatnsdrykki með sætu og bragðefnum (PDF)

Hvað geta stjórnvöld gert til að minnka gosdrykkjaneyslu?

Vinnuhópur sem velferðarráðuneytið skipaði til að koma með tillögur að aðgerðaáætlun til að draga úr tíðni offitu setti það í fyrsta sæti að hækka skatta og/eða vörugjöld á óhollustu (t.d. sykruðum gos- og svaladrykkjum, drykkjum með sætuefnum og sælgæti) og lækka skatta á hollustu (t.d. grænmeti, ávöxtum og fiski).

Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að verðstýring með sköttum eða vörugjöldum á sykraða gosdrykki geti verið áhrifarík leið til að minnka neyslu á þeirri vöru. Slík verðhækkun getur haft áhrif þar sem þörfin er brýnust, þ.e. hjá börnum og ungmennum og öðrum þeim sem drekka mest af gosdrykkjum.

Í grein sem birtist árið 2011 í The Lancet, einu þekktasta tímariti heims um heilbrigðismál og lýðheilsu, var lagt mat á hvaða aðgerðir stjórnavalda í Ástralíu skiluðu mestum ávinningi og árangri í því að sporna gegn offitu þar í landi.

Niðurstaða greiningarinnar var sú að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru væri áhrifaríkasta leiðin til að bæta heilsu og að draga úr útgjöldum vegna hennar.
 

Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir
næringarfræðingar hjá Embætti landlæknis


Sjá nánar: Ítarefni (PDF)


Fyrst birt 30.01.2015

<< Til baka