Reiðhjól

Verslanirnar eru fullar af glæsilegum tvíhjólum með hjálpardekkjum fyrir börn sem hafa jafnvel ekki náð þriggja ára aldri. Staðreyndin er samt sú að þríhjól er besti kosturinn fyrirStelpa á þríhjóli yngri börn. Rannsóknir á slysum hafa leitt það í ljós að börn eru ekki tilbúinn til að hjóla á tvíhjólum án hjálpardekkja fyrr en um 5- 6 ára.

Hvað þarf að hafa í huga þegar hjól er valið fyrir barnið?

Tvíhjól eða þríhjól?

Fyrir þriggja ára börn er æskilegt að velja þríhjól. Best er að bíða með að kaupa tvíhjól þangað til að barnið hefur náð 5 til 6 ára aldri en kaupa þá hjól án hjálpardekkja. Hjálpardekk eru ekki góður kostur þar sem þau veita barninu falskt öryggi um að það hafi náð jafnvægi.

Oft má sjá mjög lítil börn alein úti á götu á tvíhjólum með hjálpardekkjum. Fjöldi slysa verða ár hvert þegar þau hafa hjólað allt of hratt, hafa síðan þurft að taka beygju eða hemla skyndilega en ekki náð því þar sem þau hafa ekki náð þeim þroska sem til þarf. Þegar barnið tekur beygju á tvíhjóli með hjálpardekkjum virka þau þannig að það þarf að halla sér í öfuga átt við það sem þarf að gera á hjóli án hjálpardekkja. Þegar hjálpardekkin eru fjarlægð þarf barnið því að læra aftur að taka beygju á hjólinu. Alvarleg slys hafa einnig orðið þegar börn á tvíhjóli með hjálpardekkjum hafa hjólað eftir gangstéttum og farið of nálægt gangstéttarbrúninni með þeim afleiðingum að hjálpardekkið hefur farið út fyrir hana og barnið dottið út á götuna í veg fyrir bíl.

Þegar barnið hefur náð 5 til 6 ára aldri er hægt að kenna því að hjóla á tvíhóli án hjálpardekkja. Það tekur auðvitað einhvern tíma en getur verið skemmtilegur tími fyrir barnið og ekki síður fyrir foreldrana. Það er stór stund í lífi barns þegar það hefur lært að hjóla á tvíhjóli.

Þegar barnið hefur náð tökum á að hjóla sjálft á tvíhjólinu er þjálfun þess langt frá því að vera lokið. Nú þarf að ganga úr skugga um að það kunni t.d. að taka beygjur, hemla og hjóla í halla. Þau þurfa síðan að læra að taka tillit til gangandi vegfarenda. Brýnið fyrir barninu að leiða hjólið alltaf yfir gangbrautir. Lífshættuleg slys hafa orðið þegar börn hafa hjólað yfir gangbraut og einbeitt sér að því og því ekki tekið eftir bílum sem nálgast.

Hversu stórt á hjólið að vera?

Við kaup á hjóli er mikilvægt að hafa barnið með til að velja rétta stærð fyrir það. Yngri börn þurfa að ná að stíga með báðum fótum niður þegar setið er á sætinu í neðstu stillingunni en börn á skólaaldri þurfa hinsvegar einungis að geta tyllt öðrum fætinum niður.

Hvernig hemlar eiga að vera á hjóli barnsins?

Barn sem er nýbúið að læra að hjóla á tvíhjóli á fullt í fangi með að halda jafnvæginu og stjórna hjólinu. Þegar það þarf líka að hemla er auðveldara fyrir það að nota fótbremsur en handbremsur. Þess vegna ætti fyrsta tvíhjól barnsins að vera með fótbremsum. Barn á erfitt með að grípa utan um handbremsur á ferð þar sem það þarf að losa takið á stýrinu á meðan. Við það getur það misst jafnvægið og dottið. Hendur barna eru líka oft smáar og þess vegna er erfitt fyrir barnið að ná í handbremsurnar. Barnið þarf að hafa náð góðri þjálfun á tvíhjóli áður en það fer á hjól með handbremsum. Reiðhjól með gírum eru alls ekki ætluð ungum börnum.

Hvaða búnaður þarf að vera á reiðhjólinu?

Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla þurfa reiðhjól í umferð að uppfylla ákveðnar kröfur um skyldubúnað. Allir yngri en 15 ára eiga að nota hjólreiðahjálm.

Hvar er öruggast fyrir barnið að hjóla?

Áður en barnið fer út að hjóla á nýja hjólinu þarf að fara út með því og skoða umhverfi heimilisins m.t.t. öryggis. Velja þarf svæði sem eru örugg fyrir barnið að hjóla á og fara yfir þau með því. Gatan fyrir framan heimilið er alls ekki rétti staðurinn, þó að íbúðahverfið teljist vera rólegt hverfi. Brýnið fyrir barninu að hjóla aldrei á götunni. Ekki er nóg að fara yfir þetta einu sinni með barninu heldur verða foreldrar sífellt að hafa eftirlit með því. Tilvalið er að nota tímann til að vera úti með barninu og fylgjast þannig með því og leiðbeina á jákvæðan og góðan hátt.

Hvenær getur barnið hjólað úti í umferðinni?

Miðað við almennan þroska og getu barna er barnið fyrst tilbúið til að hjóla úti í umferðinni við 10 til 12 ára aldur. Fram að þeim aldri er fjarlægðarskynið ekki fullþroskað þannig að barninu finnst hlutirnir vera lengra í burtu en þeir í rauninni eru. Börn á þessum aldri hafa heldur ekki eins góða hliðarsýn og þeir sem eldri eru. Heyrn barna yngri en 8 ára er ekki fullþroskuð og geta þau því ekki greint úr hvaða átt hljóð kemur. Við 10 ára aldur hafa þau náð fullum jafnvægisþroska. Það er því fyrst við 10 til 12 ára aldur sem barnið getur meira en bara að stýra, halda jafnvæginu og hemla. Þá fyrst hafa þau þroska til að meðtaka allt það sem fram fer í kringum þau þar sem þau hjóla. Áður en barninu er leyft að hjóla í umferðinni er mikilvægt að fara vel yfir umferðareglur hjólreiðamanna (39. og 40. grein).

Hverjar eru helstu orsakir reiðhjólaslysa hjá börnum yngri en 10 ára?

  • Börnin beygja skyndilega fyrir bíla
  • Börnin víkja ekki fyrir bílum
  • Börnin eru annars hugar
  • Börnin eru að stytta sér leið
  • Börnin hjóla á rangri akrein
  • Börnin fara ekki eftir umferðarskiltum
  • Börnin hafa lélegt jafnvægi

Hvenær má byrja að hjóla með smábörn?

Ekki er ráðlegt að hjóla með smábörn fyrr en þau hafa náð a.m.k. 9 mánaða aldri.

Þegar barnastóll er valinn á hjólið er mikilvægt að hann uppfylli ströngustu kröfur markaðsins. Lesa þarf leiðbeiningarnar sem fylgja stólnum ítarlega og gæta vel að því að hann sé rétt festur á hjólið. Allar festingar þurfa að vera vel hertar. Spenna þarf beltin í stólnum þannig að þau liggi þétt að líkamanum. Fætur barnsins þurfa að vera á réttum stað og ólarnar að vera vel festar. Algengasta hámarksþyngd sem gefinn er upp fyrir barnastóla á reiðhjól er 18 kg, enda erfitt að hjóla með börn þyngri en það.

Þegar hjólað er með smábarn er það algert skilyrði að það sé með hjólreiðahjálm við sitt hæfi. Hægt er að fá hjólreiðahjálma fyrir börn frá 9 mánaða aldri.

Hafa verður veðrið í huga þegar farið er út að hjóla með smábarn, því í miklu roki og kulda getur barninu orðið fljótt kalt þar sem það situr kyrrt í stólnum. Sá sem hjólar finnur e.t.v. ekki eins mikið til kulda og barnið. Börnum yngri en 15 ára er óheimilt að hjóla með önnur börn, en við 15 ára aldur er þeim heimilt að hjóla með börn yngri en 7 ára, svo framalega sem barninu er ætlað sérstakt sæti. Mikilvægt er að hjólreiðamaðurinn sé ekki með bakpoka á bakinu þegar hann hjólar með smábarn. Bakpokinn er í sömu hæð og höfuð barnsins og getur því valdið óþægindum.

Aldrei má skilja smábarn eftir í barnastól þegar ekki er verið að hjóla. Mikil hætta er á að hjólið detti á hliðina og barnið með. Þetta er ein helsta orsök slysa á smábörnum sem sitja í svona stólum.

Fyrir nokkrum árum komu á markað hér á landi tengivagnar sem ætlaðar eru til að hjóla með börn og farangur. Kynnið ykkur hámarksþyngd sem gefinn er upp fyrir vagninn áður en hann er notaður. Í honum mega vera tvö börn í einu og eiga þau að hafa sitt sætið hvort og vera spennt í þeim. Gott er að hafa með sér teppi og kodda fyrir börnin því þau geta fundið fyrir meiri kulda en sá sem hjólar. Á hjólunum á vagninum þurfa að vera hlífar sem koma í veg fyrir að börnin geti stungið fingrunum á milli teinanna.

Talið er öruggara að tengja vagninn við fjallahjól, frekar en við götuhjól, þar sem snertiflötur fallahjóladekkjanna er meiri. Ekki er rétt að hjóla með tengivagna á götum heldur er æskilegra að nota hjólastíga. Best er að hjóla hægt, því ef hemla þarf skyndilega getur vagninn þrýst hjólinu áfram. Á vögnunum eiga að vera áberandi flögg eða endurskin á hjólum.

Gallar tengivagnsins eru þeir að fjarlægð frá hjólamanni til barnsins er nokkur og þess vegna getur verið erfitt að fylgjast með börnunum, vagninn getur verið þungur að hjóla með og hann er lægri en hjólið sjálft og því getur verið erfitt fyrir ökumenn og aðra að sjá hann. Einnig hefur verið nefnt að hann geti tekið á sig mikinn vind.


Fyrst birt 01.04.2004
Síðast uppfært 24.10.2017

<< Til baka