Tannheilsa barna. Ráðleggingar til foreldra

Sjá stærri mynd

Foreldrar gegna lykilhlutverki

Tannvernd þarf að hefjast sem fyrst á lífsleiðinni og foreldrar verða að kunna réttu handtökin við tannburstun barna. Gott er að hafa í huga þegar tannheilsa er annars vegar að munnhirða og mataræði leggja grunninn að góðri tannheilsu auk þess sem aðgengi að tannlæknisþjónustu þarf að vera tryggt. Heilbrigður munnur speglar almennt heilbrigði.

Munnhirða – að lágmarki tvisvar á dag

Nauðsynlegt er að byrja að bursta tennur barna, með hæfilegu magni flúortannkrems, um leið og fyrsta tönnin er sýnileg. Bursta þarf tennurnar að lágmarki tvisvar á dag í tvær mínútur í senn og nota tannkrem með mildu bragði og ráðlögðum flúorstyrk. Áhrif flúors vara lengur ef munnurinn er ekki skolaður eftir tannburstun, það nægir að skyrpa. Barnatennkrem með minni flúorstyrk en 1000 ppm F (0,1%=1mgF/ml) ætti aldrei að nota.

Ráðlagt magn flúortannkrems og styrkur flúors í tannkremi (ppmF) fer eftir aldri barns  og samsvarar: 

  • ¼ af nögl litlafingurs á barni, yngra en 3 ára (1000-1350 ppm F)
  • nöglinni á litlafingri barns 3–5 ára (1000 -1350 ppm F)
  • 1 cm fyrir 6 ára  og eldri (1350 – 1500 ppm F)

Best er að velja tannbursta sem eru með þéttum, fínum og mjúkum hárum. Tannburstar fyrir börn eru með litlum haus en með skafti sem fer vel í hendi foreldris. Börn yngri en 10 ára þurfa aðstoð við munnhirðu og sum þurfa aðstoð með tannþráðinn eitthvað lengur. Þar sem hliðarfletir tanna snertast er nauðsynlegt að hreinsa á milli með tannþræði og það á jafnt við um barna- og fullorðinstennur.

Flúor – best þekkta vörnin gegn tannskemmdum

Regluleg notkun flúors er best þekkta vörnin gegn tannskemmdum. Flúor herðir glerunginn og „gerir við“ byrjandi tannskemmdir á snertiflötum tanna og virkar þannig staðbundið. Tannburstun með flúortannkremi að styrkleika 1000–1500 ppm F, tvisvar sinnum á dag, viðheldur lágmarksflúorstyrk í munnholi og er því afar áhrifamikill þáttur í daglegri vörn gegn tannskemmdum.

Þar sem tannskemmdir hjá íslenskum börnum og unglingum eru algengar er einnig mælt með reglulegri flúorskolun tanna með 0,2% NaFmunnskoli, frá 6 ára aldri. Hjá yngri börnum er mælt með aukatannburstun eftir hádegismat.

Leiðbeiningar um flúorskolun

  • 6–9 ára: 5ml af 0,2% NaFmunnskoli, einu sinni í viku.
  • 10–16 ára: 10 ml af 0,2% NaFmunnskoli, einu sinni í viku.

Munnskolinu er velt um munninn í eina mínútu og síðan spýtt. Bestur árangur næst ef hvorki er borðað né drukkið í 1–2 klst eftir skolun og því ráðlagt að skola með flúor áður en farið er að sofa. Börn yngri en 10 ára þurfa aðstoð foreldra við flúorskolun.

Leiðbeiningar um flúorskolun taka mið af klínískum leiðbeiningum Embættis landlæknis um varnir gegn tannátu á Íslandi (2005)

Mataræði minnkum sykurneyslu

Neysla á sykurríkum vörum eykur hættu á tannskemmdum. Það er betra fyrir líkama og tennur að drekkja sjaldan gos-, íþrótta-, orku- eða ávaxtadrykki og í litlu magni. Það er betra fyrir líkama og tennur að fá einstöku sinnum sælgæti í lok máltíðar en að borða mikið magn í einu. 

Tíð og mikil neysla á drykkjum með lágt sýrustig, aðallega gos-, íþrótta-, orku- og ávaxtadrykkjum, er talin helsta orsök glerungseyðingar. Það sem veldur glerungseyðingu eru fosfórsýra, sem er t.d. að finna í kóladrykkjum, og sítrónusýra, sem er t.d. í ávaxtasafa,   appelsíni og sumum vatnsdrykkjum. Um er að ræða mjög kröftugar sýrur sem fletta glerungnum af tönnunum þannig að ysta lag glerungsins þynnist og eyðist.

Aldrei ætti að gefa barni hreina ávaxtasafa eða aðra sæta drykki í pela, hvorki á nóttu né degi, því að sykur skemmir tennurnar og sítrónusýra eyðir tannglerungi. Í kjölfar tanntöku er æskilegt að draga úr næturgjöfum, sérstaklega hjá börnum sem nærast á þurrmjólk með pela og gefa þeim í staðinn vatn að drekka á nóttunni.

Reglulegt tanneftirlit – gjaldfrjálsar tannlækningar barna

Þekking okkar á orsakaþáttum tannsjúkdóma er alltaf að aukast og vel upplýst getum við haldið tönnum okkar hreinum og heilum ævina á enda. Hér áður fyrr var farið til tannlæknis þegar bora þurfti skemmd úr tönn. Í dag viljum við að gripið sé inn í áður en tönnin skemmist, eða meðan sá möguleiki er raunhæfur að stöðva vöxt byrjandi tannskemmdar.

Það er nauðsynlegt að mæta reglulega í tanneftirlit og fyrsta heimsókn barns til tannlæknis á að vera ánægjuleg upplifun. Mælt er með skráningu barns hjá heimilistannlækni í Réttindagátt sjúkratrygginga þegar það nær eins árs aldri.

Tannlækningum er einungis sinnt á einkastofum tannlækna. Samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands tryggir börnum yngri en 18 ára gjaldfrjálsar tannlækningar, fyrir utan 2500 kr. árlegt komugjald.

Forsenda greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er að barnið hafi heimilistannlækni og foreldrar bera ábyrgð á skráningunni í Réttindagátt á www.sjukra.is. Tannlæknar geta einnig séð um skráninguna þegar mætt er í eftirlit. 

Nánari upplýsingar er að finna á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Í janúar 2016

Hólmfríður Guðmundsdóttir tannlæknir

 

 

 

 


Fyrst birt 18.02.2014
Síðast uppfært 27.01.2016

<< Til baka