Stöðunefndir

Tvær stöðunefndir hafa aðsetur hjá embætti landlæknis og halda fundi sína þar þótt starfsemi þeirra heyri ekki formlega undir embættið.

Stöðunefnd framkvæmdastjóra/stjórnenda lækninga

Með lögum um heilbrigðisþjónustu nr 40/2007, sem gengu í gildi 1. september 2007, varð sú breyting (skv. 35. grein) að stöðunefnd skal aðeins fjalla um faglega hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra lækninga og annarra stjórnenda lækninga á heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur.

Samkvæmt núgildandi lögum tilnefnir landlæknir einn nefndarmann, sem er formaður nefndarinnar, og varamann hans, en í eldri lögum átti landlæknir sjálfkrafa sæti í nefndinni sem formaður hennar. Eftir sem áður tilnefna læknadeild Háskóla Íslands og Læknafélag Íslands einn nefndarmann og varamann hvort.

Mikilvægt er að umsækjendur um stöðu noti sérstakt eyðublað.

Umsækjandi skal senda með umsókn sinni staðfestingar á læknaprófum, lækningaleyfi, námsstöðum og læknisstöðum sem hann hefur gegnt. Mikilvægt er að umsókninni fylgi sérprent eða ljósrit af greinum sem hann hefur skrifað og birt. Þá er umsækjanda heimilt að senda inn meðmæli eða önnur gögn sem votta hvernig hann hefur staðið sig í starfi. Umsögn stöðunefndar byggist á innsendum gögnum.

Starfsreglur stöðunefndar framkvæmdastjóra/stjórnenda lækninga voru endurskoðaðar og gefnar út 31. maí 2013 með Auglýsingu nr. 574/2013 í B-deild Stjórnartíðinda. Sjá: Starfsreglur stöðunefndar

Í samræmi við ákvæði 8. gr. starfsreglnanna setti nefndin sér verklagsreglur á fundi sínum þann 31. júlí 2014. Voru þær endurskoðaðar og samþykktar á fundi nefndarinnar þann 5. febrúar 2018.

Núverandi stöðunefnd er skipuð af heilbrigðisráðherra frá 7. desember 2022 til 6. desember 2025.

Sjá nánar á vef heilbrigðisráðuneytisins.


Stöðunefnd framkvæmdastjóra hjúkrunar

Samkvæmt 36. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr 40/2007 skipar velferðarráðherra þrjá hjúkrunarfræðinga í nefnd sem metur faglega hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra hjúkrunar á heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur. Nefndin er skipuð til þriggja ára í senn.

Landlæknir tilnefnir skv. lögunum einn nefndarmann og skal hann vera formaður nefndarinnar. Hinir nefndarmennirnir eru skipaðir skv. tilnefningu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) og Háskóla Íslands (HÍ). Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Ráðherra setur stöðunefndinni starfsreglur að fengnum tillögum hennar. Starfsreglur stöðunefndar framkvæmdastjóra voru endurskoðaðar og gefnar út 12. febrúar 2014 með Auglýsingu nr. 220/2014 í B-deild Stjórnartíðinda. Sjá: Starfsreglur um stöðunefnd framkvæmdastjóra hjúkrunar.

Umsækjendur um stöðu skulu nota til þess sérstakt eyðublað.

Umsóknum skulu fylgja staðfestar upplýsingar um menntun, starfsleyfi, sérfræðileyfi og hjúkrunarstörf sem umsækjandi hefur gegnt auk upplýsinga um vísinda- og ritstörf og önnur störf, eftir því sem við á.

Nefndin skal skila rökstuddu áliti til þess sem ræður í stöðuna innan sex vikna frá því að umsóknarfresti lýkur. Ráða má hvern þann hjúkrunarfræðing til starfa sem talinn hefur verið hæfur.

Nefndin er skipuð frá 23. október 2022 til 22. október 2025

Sjá nánar á vef heilbrigðisráðuneytisins.


Fyrst birt 18.02.2014
Síðast uppfært 13.12.2022

<< Til baka