Skráargatið – Nú er einfalt að velja hollara

Samnorræna opinbera merkið Skráargatið var tekið upp hér á landi 12. nóvember síðastliðinn sem einn liður í því að stuðla að bættu mataræði og þar með bættri heilsu. Markmiðið með Skráargatinu er að auðvelda neytendum að velja hollari matvöru á einfaldan og fljótlegan hátt. Með því er neytendum leiðbeint, óháð tungumálakunnáttu, menntun eða þekkingu á næringarfræði. Til lengri tíma litið gæti merkið því stuðlað að meiri jöfnuði til heilsu.

Hvað er Skráargatið?
Skráargatið er merki sem setja má á umbúðir matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna. Þessi skilyrði eru:

  • Minni og hollari fita
  • Minna salt
  • Minni sykur
  • Meira af trefjum og heilkorni

Merkið má einnig nota á ópakkaðan fisk, ávexti, og grænmeti. Þá er hægt að hafa t.d. skilti, veggspjald eða hillumerkingu við vörurnar. Það eru alls 25 flokkar matvæla sem merkja má með Skráargatinu og eru mismunandi skilyrði fyrir mismunandi flokka. Með merkinu er ekki verið að hvetja fólk til að velja einn matvælaflokk umfram annan heldur til að velja hollari valkost innan hvers matvælaflokks. Neytendur geta treyst því að vörur merktar Skráargatinu séu hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið. Skráargatsmerktar vörur henta bæði fyrir börn og fullorðna en mikilvægt er að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi og velja úr öllum fæðuflokkum daglega.

Markmið með Skráargatinu
Auk þess að auðvelda neytendum að velja hollari matvörur við innkaup á skjótan og einfaldan hátt er markmiðið einnig að hvetja matvælaframleiðendur til að þróa hollari vörur og stuðla þannig að auknu framboði af hollum matvælum á markaði. Þegar Skráargatið var tekið upp hér á landi voru þegar á milli 40 og 50 íslenskar vörutegundir með merkið hér á markaði auk ýmissar innfluttrar vöru frá hinum Norðurlöndunum. Framboð á Skráargatsmerktum vörum jókst hratt á hinum Norðurlöndunum eftir upptöku merkisins þar og eru nú á bilinu 1500–1700 vörutegundir merktar Skráargatinu þar á markaði. Það er vonandi að svipuð þróun verði hér á landi þannig að skráargatsmerktum vörum fjölgi. Til að svo megi verða er mikilvægt að neytendur kaupi Skráargatsmerktar vörur. Einnig er mikilvægt að forsvarsmenn verslana sjái sér hag í að hafa Skráargatsmerktar vörur á boðstólum og hafi þær vel sýnilegar fyrir viðskiptavini sína.

Skráargatið var tekið upp á Íslandi sem einn liður í því að stuðla að bættu mataræði. Fólk er því hvatt til að leita eftir Skráargatinu þegar það kaupir í matinn því að Skráargatið gerir það einfalt að velja hollara.

Matvælastofnun og Embætti landlæknis standa sameiginlega að merkinu hér á landi. Allar nánari upplýsingar má fá á www.skraargat.is.

 

Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir

verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14.02.2014

 


Fyrst birt 14.02.2014
Síðast uppfært 14.02.2014

<< Til baka