Moringa oleifera

Sjá stærri mynd

Um jurtina

Nafnið Moringa er notað yfir jurtina Moringa oleifera sem einnig gengur undir nafninu Horseradish tree, Drumstick tree, Benzolive tree, Ben oil tree og La mu. Nafnið er upprunnið úr tamílska orðinu Murungai og því tilheyra alls þrettán tegundir af plöntum allt frá smáplöntum upp í stór tré.

Uppruni

Moringa-plantan er upprunnin í Asíu og Afríku en Moringa oleifera á uppruna sinn að rekja til landsvæða Himalayafjallanna norðvestur af Indlandi en einnig frá Pakistan, Bangladesh og Afganistan.

Ræktun og notagildi

Plantan er auðræktuð, bæði fræ og lauf má uppskera af trénu án þess að skemma það.  Ræktun hennar ógnar ekki skógum, þvert á móti og því er Moringa vinsæl til ræktunar víðsvegar um heiminn. Hún er einnig oft nefnd á nafn þegar barátta gegn vannæringu í heiminum er í umræðunni, til dæmis í Nígeríu.

Fyrir utan næringarlega þáttinn má nota fitulausan massa sem unninn er úr fræjum hennar við að fjarlægja skaðleg eiturefni og þörunga úr drykkjarvatni, hreinsa sjó og gera vatnið þannig drykkjarhæft. Einnig má nota Moringa-fræmassann sem áburð fyrir plöntur svo og til að næra búpening, en sýnt hefur verið fram á að með því að gefa það kálfum má auka líkamsþyngd þeirra um 32% og sömuleiðis má auka mjólkurframleiðslu kúa um 43–65%.

Olíuna sem unnin er úr fræjunum má nota sem fæðu, í hárvörur, sápur og ilmvötn. Einnig í listiðnaði, í armbandsúr og vélbúnað. Viðurinn sjálfur og börkurinn nýtist að sjálfsögðu einnig, til að mynda sem byggingarefni og blátt litarefni. Moringa er því til margra hluta nytsamleg og skapar gjaldeyri, ekki aðeins sem matvæli.

Allir þessi eiginleikar eru gríðarlega mikilvægir fyrir íbúa þróunarlanda. Þeir nýta alla plöntuna allt frá næringarefnum hennar úr blöðum, fræjum, ávöxtum, rótum og berki og yfir í að næra aðrar plöntur og búpening eða skrúbba með mataráhöld. Þannig eru þau til fyrirmyndar fyrir aðra íbúa jarðarinnar.

Moringa sem fæða

Moringa er eins og áður segir mjög mikilvæg fæðuuppspretta í sumum heimshlutum. Ekki síst vegna þess að jurtina er hægt að rækta á ódýran máta og þurrkuð laufin innihalda mikið af vítamínum og steinefnum sem eru nýtt til að berjast gegn vannæringu í Afríku og á Indlandi.

Grænu stilkarnir eru teknir, ekki alveg fullþroska, og matreiddir svipað og grænar baunir eða notaðir í salat, settir í saltlög eða notaðir sem krydd. Laufblöðin eru elduð líkt og spínat eða þurrkuð og mulin og notuð þannig. Fræin eru tekin úr fræbelgjunum þegar þau eru fullþroska og elduð eins og grænar baunir eða ristuð eins og hnetur. Þau gefa um 30–40 % af olíu sem kölluð er Ben-olía. Hún er tær, lyktarlaus og sæt á bragðið, þránar ekki og er notuð til neyslu.

Aðeins er misvísandi hvort neyta eigi rótarinnar eða ekki, en sagt er að nota megi hana eins og piparrót. Aðrir telja að það sé mikilvægt að borða ekki rótina eða efnasambönd unnin úr henni vegna þess að hún getur innihaldið eiturefni sem geta valdið lömun og dauða. Efnasambandið Moringinin er að finna í rótarberki plöntunnar. Það getur virkað örvandi fyrir hjartað og hækkað blóðþrýsting svo nokkur dæmi séu tekin.

Næringargildi

Moringa-laufin innihalda prótein (6-7 g/100g) en af þeim eru níu svo kallaðar lífsnauðsynlegar amínósýrur. Það er þó ljóst að magn próteina úr Moringa-hylkjunum mun ekki hafa áhrif á heildarpróteininntöku manneskju sem þarf um 0,8 g af próteinum á dag á hvert kíló líkamsþyngdar hið minnsta. Trefjainnihaldið er mismunandi eða upp í tæp 5 g í 100 g af sumum hlutum plöntunnar.

Um 30–40% af Moringa-fræjunum er olía, aðallega oleiksýra eða yfir 65%. Þegar búið er að vinna olíuna úr fræjunum stendur eftir hálfgert mjöl sem er um 60% prótein.

Laufin innihalda einnig vítamín, nánar tiltekið A- (740 μg/100 g), B- og C-vítamín (160 mg/100 g) og steinefnin kalk (um 400 mg / 100 g) og kalíum (400 mg / 100 g), einnig járn og kopar. Kalkmagnið er tiltölulega hátt en gallinn er sá að kalkið er á formi kalsíum-oxalsýru en oxalbindingin dregur úr nýtingu kalksins. Því er ekki hægt að segja að Moringa sé góð uppspretta kalks.

Læknisfræði

Öruggar upplýsingar um það hvort að nota megi Moringa í læknisfræðilegum tilgangi liggja ekki fyrir í dag. Hins vegar er vitað að efni í berkinum eru alls ekki örugg fyrir ófrískar konur þar sem efnasambönd í berkinum geta valdið samdrætti í leginu og þannig valið fósturláti. Konur sem gefa barni sínu brjóst ættu einnig að forðast Moringa vegna þess að efnasambönd úr næringu móðurinnar berast auðveldlega yfir í brjóstamjólkina og það er ekki vitað hvort það geti skaðað ungbörn. Sama á í raun við um öll fæðubótarefni.

Rannsóknir á tilraunastofum og dýrarannsóknir benda til þess að þykkni úr laufum, fræjum og rótum jurtarinnar gæti haft áhrif gegn sjúkdómum eins og krabbameini fyrir  andoxunaráhrif aukins magns af glútaþíoni og virkni þess. Samskonar rannsóknir hafa sýnt hugsanlega virkni í tengslum við sykursýki og magasár. Einnig að jurtin vinni gegn bakteríum og bólgum og hafi þannig áhrif á astma og gigt, hjálpi til við að lækka kólesteról, hafi verndandi áhrif fyrir lifrina og gegn Alzheimer, svo nokkur séu dæmi nefnd. Trefjainnihalda Moringa er talið geta haft áhrif á blóðsykurstjórnun eins og vitað er að aðrar tegundir af trefjum gera einnig.

Fáar rannsóknir, sem annað hvort hafa ekki staðist kröfur um framkvæmd né fjölda þátttakenda, hafa verið framkvæmdar á mönnum. Í einni þessara rannsókna sýndi notkun á Moringa fram á smávægileg áhrif á blóðfitur en almennt eru andoxandi áhrif Moringa talin vera ástæðan fyrir mögulega verndandi áhrifum þess fyrir hjartað.

Ekki er rétt að fullyrða um lækningarmátt Moringa en þó er ljóst að margt er órannsakað þar eins og oftast þegar jurtir og nútíma læknisfræði er annars vegar. Það er vitað og ekki óalgengt að jurtir geta haft áhrif á upptöku og virkni lyfja. Til dæmis getur Moringa aukið upptöku á lyfinu Rifampin svo eitt dæmi sé tekið. Moringa oleifera dregur úr virkni ensíma í lifrinni sem hafa áhrif á niðurbrot og það hvernig líkaminn vinnur úr um það bil helmingi þeirra lyfja sem notuð eru í dag.

Samantekt

Moringa-jurtin er næringarrík fyrir sitt leyti, aðallega þegar laufin eru borðuð fersk eins og grænmeti samhliða öðrum hollum matvælum. Prótein innihaldið er aðeins örlítið brot af því magni próteina sem til þarf fyrir mannslíkamann. Olíurnar úr fræjunum eru kærkomin viðbót við aðrar hollar fitusýrur úr fjölbreyttu mataræði.

Um jurtir sem fæðubótarefni

Flestar jurtir innihalda fjöldann allan af næringarefnum eins og þær koma fyrir beint af akrinum og þau næringarefni geta verið mikilvægur hluti af næringu þeirra sem hana rækta sér til lífsviðurværis. Einnig getur plantan verið mikilvæg næringaruppspretta fyrir aðra en bændurna sem hana rækta, en helst þá ef hennar er neytt sem mest eins og hún kemur frá náttúrunnar hendi, sem minnst unnin. Aðrar leiðir til að njóta næringarefnanna er þegar laufin, fræin, fræbelgirnir, börkurinn eða ræturnar er þurrkuð og svokallað þykkni eða extrakt er unnið úr þurrvörunni, stundum með hjálp ýmissa efnasambanda. Lokaafurðin er duft sem síðan er neytt sem fæðubótarefnis eða drukkið sem te.

Nauðsynlegt er að öll vinnsluferli séu viðurkennd til notkunar við matvælaframleiðslu. Einnig er mjög mikilvægt að þeir sem rækta eða safna jurtinni þekki vel til hennar og hvar hún vex. Það getur nefnilega verið hættulegt ef sá sem tínir er óreyndur og tínir mögulega aðra jurt með ólíka verkun eða jafnvel eitraða. Þetta er viðurkennt vandamál í heimi fæðubótarefna sem unnin eru úr jurtum. Eins og á við um mörg fæðubótarefni er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þau geta unnið gegn verkun eða breytt verkun lyfja og því þarf að hafa samráð við lækni séu lyf notuð.

Janúar 2014


Fríða Rún Þórðardóttir

næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur


Fyrst birt 01.01.2014
Síðast uppfært 17.01.2014

<< Til baka