Nýjar Norrænar næringarráðleggingar byggja á gagnreyndum rannsóknum

Vinnsla Norrænu næringarráðlegginganna

Nýjar norrænar næringarráðleggingar, sem kynntar voru í byrjun október 2013, voru unnar af vinnuhópi á vegum Norrænu embættismannanefndarinnar um matvæli. Yfir hundrað sérfræðingar hafa tekið þátt í endurskoðuninni sem byggir á gagnreyndum aðferðum við að meta sambandið milli neysluvenja og áhrifa á heilsu.

Sérfræðingarnir yfirfóru greinar á kerfisbundinn hátt (systematic review) fyrir þau næringarefni eða svið næringarfræðinnar þar sem staða þekkingar var talin hafa aukist verulega á þeim tíma sem liðinn var frá síðustu útgáfu. Þúsundir útdrátta af vísindagreinum sem tengdust viðkomandi efni voru yfirfarin og þær greinar sem uppfylltu ákveðnar gæðakröfur valdar úr.

Þegar opinberar ráðleggingar varðandi heilsusamlegt mataræði eru settar fram skiptir miklu máli að hafa sterk vísindaleg rök á bak við ráðleggingarnar. Það er því mikilvægt að fara varlega og skoða vel þær rannsóknir og vísindi sem liggja að baki ráðlegginga áður en þeim er breytt. Ráðleggingarnar eru forvarnaráðleggingar sem ætlaðar eru heilbrigðu fólki en ekki hugsaðar til að meðhöndla sjúkdóma né til að stuðla að þyngdartapi.

Gæði fitu og kolvetna skipta meira máli en heildarmagn

Ráðleggingar varðandi neyslu á mettaðri fitu hafa ekki breyst samkvæmt nýju norrænu næringarráðleggingunum. Áfram er ráðlagt að mettuð fita (t.d. í kexi, kökum, sælgæti, feitum mjólkurvörum, feitu kjöti og kjötvörum, smjöri og smjörlíki) veiti minna en 10% orkunnar. Það er hins vegar ráðlagt að auka hlut einómettaðra fitusýra (t.d. í repjuolía, ólívuolíu, hnetum og lárperum) úr 10-15% orkunnar í 10-20%. Fjölómettaðar fitusýrur (t.d. í feitum fiski, lýsi og ýmsum matarolíum) eru óbreyttar, á bilinu 5-10% orkunnar og þar af omega-3 fitusýrur a.m.k 1% orkunnar. Þar sem ráðlagt er að auka hlut einómettaðra fitusýra, en ráðlögð neysla annarra fitusýruflokka er óbreytt, breytast ráðleggingar um heildarfituneyslu úr 25-35% í 25-40% orkunnar. Ekki er mælt með lágfitu mataræði þar sem fitan fer undir 25% orkunnar því það getur stuðlað að óæskilegri samsetningu blóðfita og skertu glúkósaþoli. Ef farið er enn neðar getur einnig verið erfitt að uppfylla þörfina fyrir fituleysin vítamín (A, D, E og K vítamín) og lífsnauðsynlegar fitusýrur (línólsýra (ómega-6) og alfa-línólensýra (ómega-3)).

Ráðleggingum fyrir neyslu á kolvetnum hefur verið breytt úr 50-60% í 45-60%. Mælt er með að kolvetnin komi sem mest úr trefjaríkri fæðu frá náttúrunnar hendi eins og t.d. heilkornavörum, grænmeti og ávöxtum. Áfram er mælt með að fæðið veiti a.m.k. 25-35 g af trefjum á dag.

Íslenskar ráðleggingar um mataræði og næringarefni

Íslenskar ráðleggingar um mataræði og næringarefni eru í endurskoðun og einnig framsetning þeirra og verða þær gefnar út á næsta ári. Þær byggja að stórum hluta á þeim norrænu en einnig er tekið tillit til aðstæðna hér á landi og þá litið til kannana á mataræði Íslendinga, bæði barna og fullorðinna. Á meðan á þessu stendur er áfram hægt að styðjast við Ráðleggingar um mataræði og næringarefni frá 2006. Í nýju Norrænu næringarráðleggingunum er lögð áhersla á mataræðið í heild og fæðuval frekar en magn og hlutfall einstakra næringarefna. Hollustan virðist fólgin í mataræði sem einkennist af mikilli neyslu grænmetis, ávaxta, berja og belgávaxta, reglubundinni neyslu fisks, jurtaolía, heilkornavara, fituskertra mjólkur- og kjötafurða en takmarkaðri neyslu á unnum kjötvörum, sykri og salti.

Birtir hafa verið nýir ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir vítamín og steinefni hér á landi. Helstu breytingar frá síðustu ráðleggingum eru þær að RDS fyrir D-vítamín hafa verið hækkaðir. Ráðlagður dagskammtur fyrir D-vítamín er nú 15 míkrógrömm (600 AE) fyrir aldurshópinn 10 til 70 ára en 20 míkrógrömm (800 AE) fyrir fólk yfir sjötugt. Ráðlagður dagskammtur fyrir börn yngri en 10 ára og ungbörn er 10 míkrógrömm (400 AE) á dag. Nú er einnig ráðlagt að byrja að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 míkrógrömm) frá 1-2 vikna aldri í stað fjögurra vikna aldurs áður til samræmis við Norrænar ráðleggingar.  Ráðlagður dagskammtur fyrir selen hjá fullorðnum hefur sömuleiðis verið hækkaður.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis

Ítarefni

Nýjar Norrænar næringarráðleggingar
Frétt um nýja íslenska ráðlagða dagskammta (RDS) fyrir vítamín og steinefni
Ráðleggingar um mataræði og næringarefni (án RDS)

Christel Lamberg-Allardt, Magritt Brustad, Haakon E. Meyer, Laufey Steingrimsdottir. Vitamin D – a systematic literature review for the 5th edition of the Nordic Nutrition Recommendations. Food & Nutrition Research 2013. 57: 22671

Emily Sonestedt, Nina Cecilie Øverby, David E. Laaksonen, Bryndis Eva Birgisdottir. Does high sugar consumption exacerbate cardiometabolic risk factors and increase the risk of type 2 diabetes and cardiovascular disease?  Food & Nutrition Research 2012. 56: 19104

Mikael Fogelholm, Sigmund Anderssen, Ingibjörg Gunnarsdottir, Marjaana Lahti-Koski. Dietary macronutrients and food consumption as determinants of long-term weight change in adult populations: a systematic literature review. Food & Nutrition Research 2012. 56: 19103

Nina Cecilie Øverby , Emily Sonestedt, David E. Laaksonen, Bryndis Eva Birgisdottir. Dietary fiber and the glycemic index: a background paper for the Nordic Nutrition Recommendations 2012.  Food & Nutrition Research 2013. 57: 20709

Nordic Council of Ministers. Nordic Nutrition Recommendations 2012, part 1. Summary, principles and use. Copenhagen 2013.

Schwab U, Lauritzen L, Tholstrup T, Haldorsson T, Riserus U, Uusitupa M, Becker W. Effect of the amount and type of dietary fat on cardiometabolic risk factors and risk of cardiovascular diseases, type 2 diabetes and cancer: a systematic review. Food & Nutrition Research 2014. 58: 25145

 

 

 


Fyrst birt 08.11.2013
Síðast uppfært 16.12.2014

<< Til baka