Upplýsingar um D-vítamín

Íslenskir ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín voru árið 2013 hækkaðir í 15 míkrógrömm (µg) fyrir 10 ára og til 70 ára aldurs. Fyrir 71 árs og eldri hefur RDS fyrir D-vítamín verið hækkaður í 20 µg. Fyrir ungbörn og börn 1–9 ára er RDS 10 µg, sjá nánar í töflu 1.

Tafla 1. Ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín

Ungbörn og börn 1-9 ára 10 míkrógrömm eða 400 AE, 10-70 ára 15 míkrógrömm eða 600 AE, 71 árs og eldri 20 míkrógrömm eða 800 AE.

*Frá 1–2 vikna aldri er ráðlagt er að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 μg/dag).

Ráðlögðu dagskammtarnir byggja á starfi norrænnar sérfræðinefndar um D-vítamín sem sett var á laggirnar vegna endurskoðunar á norrænum ráðleggingum um næringarefni. Niðurstöður norrænu nefndarinnar voru í megin atriðum í samræmi við niðurstöður sérfræðinefnda Institute of Medicine og European Food Safety Authority sem hafa birt nýjar ráðleggingar um D-vítamín á undanförnum árum.

Við ákvörðun íslensku ráðlegginganna var, rétt eins og í fyrri útgáfum, einnig tekið mið af innlendum aðstæðum og þá fyrst og fremst færri sólardögum heldur en í nágrannalöndunum. Íslenskar ráðleggingar fyrir D-vítamín hafa fram til þessa verið heldur hærri en þær samnorrænu, og svo er einnig í þessari útgáfu.

Ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni er það magn vítamíns sem tengist æskilegum vítamínhag fyrir allan þorra heilbrigðs fólks, samkvæmt mælingu á styrk D-vítamíns í blóði (miðast við 25-hydroxy D-vítamín a.m.k. 50 nmol/l). Við ákvörðun skammtanna er gert ráð fyrir lítilli útiveru í sól, en útivera hefur mikil áhrif á D-vítamínbúskapinn.

Hvað eru ráðlagðir dagskammtar?

Ráðlagðir dagskammtar fyrir vítamín og steinefni eru gefnir sem meðaltal fyrir daglega neyslu yfir lengri tíma. Þeir eru það magn sem talið er fullnægja þörfum alls þorra heilbrigðs fólks, eða 97% einstaklinga. Við ákvörðun skammtanna er tekið tillit til þess að þarfir fólks eru breytilegar. Þörf flestra fyrir næringarefni er lægri en þetta, en í sumum tilfellum geta einstaklingar þó þurft meira af næringarefnum en gildin segja til um, t.d. séu þeir með ákveðna sjúkdóma. RDS-gildin eru fyrst og fremst hugsuð til að skipuleggja matseðla og meta næringargildi fæðis fyrir hópa fólks.

Hver eru efri mörk fyrir neyslu D-vítamíns?

Viðmiðunargildi fyrir efri mörk daglegrar meðalneyslu fyrir D-vítamín, þ.e. daglegrar neyslu í langan tíma, eru 100 µg á dag (4000 AE) fyrir fullorðna og börn yfir 11 ára aldri, 50 µg (2000 AE) fyrir börn eldri en eins árs að tíu ára aldri og 25  µg (1000 AE) fyrir ungbörn að eins árs aldri. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni.

Hvernig er mælt með að fólk nái ráðleggingum fyrir D-vítamín?

Erfitt getur reynst að fá 10 µg, hvað þá 15 µg eða 20 µg, af D-vítamíni úr fæðunni einni saman. Að jafnaði gefur íslenskt mataræði 4–5 µg á dag af D-vítamíni, en getur gefið allt að 6–10 µg á dag hjá þeim sem borða feitan fisk a.m.k. einu sinni í viku og nota D-vítamínbætta mjólk daglega. Enn sem fyrr er fólk því hvatt til að taka D-vítamín sérstaklega á formi bætiefna, annað hvort lýsi eða D-vítamínpillur.

Margar gerðir af D-vítamín bætiefnum eru á markaði og eru neytendur hvattir til þess að skoða vel magn D-vítamíns í þeim.

Í hvaða matvælum er D-vítamín helst að finna?

D-vítamín er í fáum fæðutegundum en mest er í lýsi, feitum fiski, s.s. síld, laxi, silungi, sardínum og lúðu, og í eggjarauðu. D-vítamíni er bætt m.a. í Fjörmjólk, Stoðmjólk, D-vítamínbætta léttmjólk, sumar tegundir af jurtaolíum og smjörlíki.

Hver er staða neyslu D-vítamíns hér á landi?

Meðalneysla D-vítamíns meðal fullorðinna er 8,1 µg/dag. Um 17% kvenna og þriðjungur karla fá sem svarar ráðlögðum dagskammti eða meira af D-vítamíni. Konur fá minna D-vítamín en karlar enda taka þær síður lýsi og borða minna af fiski. Fjórðungur kvenna og 8% karla nær ekki lágmarksþörf fyrir vítamínið, sem er 2,5 µg/dag. Þeir hópar sem segast aldrei taka lýsi fá að jafnaði um 4–5 µg/dag af D-vítamíni.

Í landskönnun á mataræði 6 ára barna frá 2011–2012 kom fram að einungis fjórðungur barnanna fékk ráðlagðan dagskammt eða meira af D-vítamíni (sá fjórðungur barna sem tók lýsi) og var D-vítamín neysla fjórðungs barna undir lágmarksþörf (2,5 µg/dag).

Hvaða hlutverki gegnir D-vítamín (kólikalsiferól, D3)?

D-vítamín, öðru nafni kólíkalsiferól, er fituleysið vítamín. Það myndast í húðinni fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólar en það fæst einnig úr fæðu. D-vítamín hefur mörg mikilvæg hlutverk í líkamanum. Það er til dæmis nauðsynlegt til að stýra kalkbúskap líkamans og er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina þar sem það örvar frásog kalks í meltingarvegi og stuðlar að eðlilegum kalkstyrk í blóði.

Einnig eru vísbendingar um að D-vítamín geti haft almenn og jákvæð áhrif á heilsu fólks, en  D-vítamín viðtaka er að finna í mörgum vefjum líkamans. Þetta tengist t.d. krabbameinum, sjálfsónæmissjúkdómum, vöðvastyrk og sýkingum.

Einkenni D-vítamínskorts eru beinkröm hjá börnum, þar sem bein í fótleggjum bogna og rifbein svigna, en meðal fullorðinna og aldraðra lýsir skorturinn sér sem mjúk kalklítil bein, og kallast það beinmeyra (osteomalasia).

Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis.


Heimildir:

Christel Lamberg-Allardt, Magritt Brustad, Haakon E. Meyer, Laufey Steingrimsdottir. Vitamin D – a systematic literature review for the 5th edition of the Nordic Nutrition Recommendations. Food & Nutrition Research 2013. 57: 22671

European Food Safety Authority. Scientific opinion on the tolerable upper intake level of vitamin D. EFSA Journal 2012;10(7): 2813: 1–45.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Hrund Valgeirsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Elva Gísladóttir, Bryndís Elfa Gunnarsdóttir, Inga Þórsdóttir, Jónína Stefánsdóttir, Laufey Steingrímsdóttir. Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010–2011 – helstu niðurstöður. Útgefið á vegum Embættis landlæknis, Matvælastofnunar og Rannsóknastofu í næringarfræði. Reykjavík 2011.

Ingibjörg Gunnarsdóttir, Hafdís Helgadóttir, Birna Þórisdóttir og Inga Þórsdóttir. Landskönnun á mataræði sex ára barna 2011–2012. Læknablaðið 2013/99

Institute of Medicine. Dietary reference intakes for calcium and vitamin D. Washington, DC: The National Academies Press; 2011.

Nordic Council of Ministers. Nordic Nutrition Recommendations 2012, part 1. Summary, principles and use. Copenhagen 2013.


Fyrst birt 25.10.2013
Síðast uppfært 30.11.2016

<< Til baka