Næring í heilsueflandi skólaverkefnum

Verkefnið um heilsueflandi skóla hófst árið 1992 sem samstarf Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunarinnar, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Markmið þess er að efla vitund og áhuga kennara og nemenda á heilsueflingu þar sem rík áhersla er lögð á samstarf við foreldra og nærsamfélagið. Ísland varð formlegur þátttakandi árið 1999. Embætti landlæknis heldur utan um Heilsueflandi grunn- og framhaldsskóla verkefnin sem er afrakstur þessa samstarfs.

Haustið 2013 eru 52 grunnskólar (30%) og 31 framhaldsskóli (100%) þátttakendur. Í þróun er verkefnið Heilsueflandi leikskóli sem unnið er í samstarfi við nokkra tilraunaleikskóla. Auk þess vinnur Embætti landlæknis að þróun ráðlegginga fyrir Heilsueflandi samfélag og hafa nokkur sveitarfélög undirritað samkomulag um að taka upp markvisst samstarf til heilsueflingar, t.d. með fjölgun heilsueflandi skóla.

Mikilvægi heilsueflingar í skólum

Í aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á sviði næringar frá 2007 og í norrænni aðgerðaáætlun um að bæta heilsu með bættu mataræði og aukinni hreyfingu er lögð áhersla á að skólinn sé kjörinn vettvangur fyrir heilsueflingu á sviði næringar og hreyfingar. Næringin gegnir veigamiklu hlutverki í öllu skólastarfi því vel nærð börn eiga betra með að einbeita sér og mataræðið getur haft áhrif á hegðun, lærdómsgetu og námsárangur. Auðveldara er að móta hegðun en breyta og því mikilvægt að byrja snemma að kenna börnum góðar neysluvenjur og gegna foreldrar og skólasamfélagið í heild sinni þar lykilhlutverki. Leik-, grunn- og framhaldsskólar landsins eru samkomustaðir mikils fjölda barna og fullorðinna á degi hverjum. Í skólunum er því kjörið tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á heilsu og líðan nemenda og starfsfólks og auka jöfnuð til heilsu með því m.a. að skapa aðstæður  sem hvetja til heilbrigðra lifnaðarhátta.

Nemendur verja stórum hluta dagsins í skólanum eða á frístundaheimili eftir skóla og því er mikilvægt að þau eigi þar kost á hollum og góðum mat. Í lögum um grunnskóla frá árinu 2008 segir að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við manneldismarkmið. Enn fremur segir í lögum um framhaldsskóla að þar skuli tryggt að í boði sé innan veggja hvers skóla heilnæmt fæði í samræmi við opinber manneldismarkmið. Í almennum hluta nýrrar aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2011 eru komnir inn sex grunnþættir í íslenskri menntun og er heilbrigði og velferð einn þeirra. Þar er m.a. komið inn á mikilvægi heilsusamlegs fæðuvals með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum  mat og að leggja þurfi áherslu á  uppeldis- og félagslegt gildi máltíða meðal annars með því að gefa nægan tíma til að nærast.

Uppbygging heilsueflandi skólaverkefna

Heilsueflandi skólaverkefnin eru byggð upp með stýrihópum innan Embættis landlæknis en jafnframt eru starfandi faghópar/vinnuhópar skipaðir utanaðkomandi aðilum. Gefnar hafa verið út handbækur fyrir mötuneyti mismunandi skólastiga, þ.e. Handbók fyrir leikskólaeldhús, Handbók fyrir skólamötuneyti og Handbók um mataræði í framhaldsskólum. Auk þess hefur verið gefin út Handbók um heilsueflandi grunnskóla og unnin drög að Handbók um heilsueflandi leikskóla þar sem sett eru fram viðmið og gátlistar um m.a. mataræði/næringu sem heilsueflandi skólum ber að fara eftir. Skólar eru jafnframt hvattir til að mynda sér heildræna stefnu á sviði næringar en þannig er hægt að stuðla að góðum neysluvenjum nemenda og starfsfólks, öllu skólasamfélaginu til góðs. Heilsueflandi verkefni Embættis landlæknis eru því góður vettvangur til að innleiða og fylgja eftir opinberum ráðleggingum um mataræði og næringarefni.

 

Elva Gísladóttir

næringarfræðingur og verkefnisstjóri

 
 
Greinin birtist í blaðinu Matur er mannsins megin, október 2013 - 1. tbl. 25. árg.

Fyrst birt 01.10.2013
Síðast uppfært 24.10.2013

<< Til baka