Yfirlit yfir afgreiðslu erinda og kvartana sem berast landlækni

A. Athugasemdir við þjónustu

Hafi sjúklingar athugasemdir vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun þá skal þeim beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Þegar slík erindi berast beint til Embættis landlæknis framsendir embættið erindið til viðkomandi heilbrigðisstofnunar.

Landlæknir vekur athygli á að lögð er áhersla á að notendur beini fyrst athugasemdum sínum til viðkomandi heilbrigðisstofnana og að heppilegast sé fyrir alla að málin séu leyst þar.

Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun til landlæknis, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga. Starfsmönnum heilbrigðisstofnunar er skylt að leiðbeina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun.

B. Erindi er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu

Í lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 er fjallað um kvartanir í 12. gr. Gerður er greinarmunur á erindum, sbr. 1. mgr. 12. gr., og formlegum kvörtunum. Landlækni er skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Slík erindi geta verið af ýmsum toga.

C. Kvartanir

Í 2.– 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er fjallað um formlegar kvartanir til landlæknis (http://www.landlaeknir.is/kvartanir). Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.

Þegar kvörtun berst Embætti landlæknis fer hún fyrir fund þverfaglegs teymis heilbrigðisstarfsmanna og lögfræðinga sem greinir efni kvörtunarinnar og að hverjum hún beinist, það er heilbrigðisstarfsmanni, einum eða fleiri, eða stofnun.

Allar formlegar kvartanir sem berast embættinu eru því kannaðar og teknar ákvarðanir um málsmeðferð í hverju máli fyrir sig. Kvartandi er í kjölfarið upplýstur um að úrvinnsla kvörtunarinnar fari í skilgreint ferli. Kvörtunin er síðan send þeim sem hún beinist að og hann beðinn um að gera grein fyrir málsatvikum og sjónarmiðum sínum með greinargerð og jafnframt er beðið um afrit af gögnum og sjúkraskrám er kunna að hafa þýðingu við meðferð málsins.

Embætti landlæknis gætir því vandlega að rannsóknarskyldu sinni með því að afla allra nauðsynlegra gagna er varða málið og kynna málsaðilum gögn.

Að jafnaði er aflað umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð, þegar þekking er varðar álitaefni í hinu tiltekna máli er ekki innan embættisins.

Um val á óháðum sérfæðingum gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993. Aðilum er kynnt umsögn utanaðkomandi sérfræðings og gefinn kostur á að koma með athugasemdir. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit.

Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis til heilbrigðisráðherra en þó ekki efnislega niðurstöðu álitsins eða læknisfræðilegt mat.


D. Eftirlitsmál

Mikilvægt er að gera greinarmun á formlegum kvörtunum og svokölluðum eftirlitsmálum en önnur ákvæði laga um landlækni eiga við um slík mál.

Sjúklingur látinn

Ef sjúklingur er látinn og aðstandandi leitar til landlæknis þar sem hann telur að eitthvað kunni að hafa misfarist í heilbrigðisþjónustu er málið ekki tekið fyrir sem kvörtun. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er það einungis sjúklingur sjálfur sem getur beint formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintra mistaka eða vanrækslu við veitingu heilbrigðissþjónustu.

Hins vegar hefur landlæknir eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, sbr. 7. og 13. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Landlæknir getur því ákveðið á grundvelli lögbundinnar eftirlitsskyldu sinnar að fylgja erindi sem berst frá aðstandendum látins sjúklings eftir með því að kanna slík tilvik frekar.

Aðstandendur látins sjúklings verða þó ekki málsaðilar skv. stjórnsýslulögum í slíkum eftirlitsmálum. Við úrvinnslu þessara eftirlitsmála kallar landlæknir eftir gögnum frá heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstarfsmönnum. Ef þörf þykir er óskað eftir umsögn utanaðkomandi sérfræðings.

Þegar eftirlitsmáli af þessum toga lýkur er niðurstaða landlæknis í málinu send til viðkomandi heilbrigðisstofnunar eða heilbrigðisstarfsmanns. Beinir landlæknir oft ábendingum um að viðkomandi heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstarfsmaður hafi samband við aðstandendur og upplýsi þá um niðurstöðu málsins, þ.e. hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í veitingu heilbrigðisþjónustu eða ekki.

Þegar niðurstaða liggur fyrir tekur landlæknir síðan ákvörðun um hvort frekari aðgerða sé þörf.

E. Óvænt atvik

Að lokum má nefna svokölluð óvænt atvik sem tilkynnt eru til landlæknis að frumkvæði heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisstarfsmanna og getið er um í 9. og 10. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Með óvæntu atviki er átt við óhappatilvik, vanrækslu, mistök eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni.

Heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna landlækni um óvænt atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum. Landlæknir rannsakar slík mál í þeim tilgangi að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað.


F. Aðgangur að sjúkraskrá

Auk ofgreinds berast landlækni ýmis mál sem varða aðgang að sjúkraskrá einstaklinga. Um slík mál er fjallað í lögum um sjúkraskrá nr. 55/2009. Þessi mál eru annars eðlis heldur en fjallað er um hér að ofan. Í lögum um sjúkraskrá kemur fram að beiðni um aðgang að sjúkraskrá skuli beina til umsjónaraðila sjúkraskráa, þ.e. viðkomandi heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisstarfsmanna.

Hér skal sérstaklega bent á tvær tegundir mála sem berast embættinu frá umsjónaraðilum sjúkraskráa.

Annars vegar má nefna mál sem berast embættinu er varða aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá, sbr. 14. gr. laganna. Telji umsjónaraðili sjúkraskráa að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að afhenda honum afrit sjúkraskrár þá skal hann framsenda landlækni afrit sjúkraskrárinnar til ákvörðunar um það hvort aðgangur að sjúkraskránni skuli veittur.

Hins vegar má nefna mál er varða aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings, sbr. 15. gr. laganna. Telji umsjónaraðili sjúkraskrár vafa leika á réttmæti þess að veita slíkan aðgang þá skal hann framsenda landlækni afrit sjúkraskrárinnar til ákvörðunar hvort aðgangur að sjúkraskránni skuli veittur.

Sjá nánar umfjöllun um sjúkraskrá og reglur um meðferð upplýsinga úr sjúkraskrá

 


Fyrst birt 09.10.2013

<< Til baka