Flestir foreldrar sem reykja taka tillit til barna sinna

Lýðheilsustöð lét vorið 2006 kanna hvernig reykingum er háttað á heimilum 3ja ára barna og bar niðurstöðurnar saman við sams konar rannsókn sem gerð var hér á landi árið 1995. Niðurstöðurnar sýna að núna leggja flestir foreldrar sem reykja áherslu á að vernda börn sín fyrir óbeinum reykingum.

Niðurstöðurnar úr rannsóknum um börn og óbeinar reykingar voru í fyrsta sinn kynntar opinberlega föstudaginn 15. september, á ráðstefnunni LOFT 2006. Þar er verið að bera saman þekkingu, viðhorf og hegðun foreldra árin 1995 og 2006.

Samantekt á helstu niðurstöðum:

  1995 2006
Hlutfall 3 ára barna sem urðu fyrir óbeinum reykingum a.m.k. einu sinni í viku 45% 10%
Hlutfall 3 ára barna sem urðu fyrir óbeinum reykingum a.m.k. einu sinni í viku ef reykt er daglega á heimili 91,8% 29,9%
Báðir foreldrar reykja 9,3% 7,1%
Annað foreldri reykir 23,8% 12,9%
  • Lágt hlutfall foreldra (29,3%) gerir sér grein fyrir tengslum eyrnabólgu og óbeinna reykinga.
  • Um 35% foreldra telja enga tengingu vera milli reykinga foreldra og þess að börn þeirra séu líklegri til að byrja að reykja. En sýnt hefur verið að þetta er einn stærsti áhrifaþáttur þess að börn byrja að reykja.
  • Fólk virðist nánast vera hætt að reykja þegar börn eru með í bíl, við sjónvarpið og við matarborðið.
  • Um 30% foreldra sem reykja fannst þeir ekki hafa fengið nægar upplýsingar um áhrif óbeinna reykinga á börn.
  • Aðeins um 20% foreldra sem reykja hefur verið ráðlagt að breyta reykingavenjum sínum í ungbarnaeftirliti eða í læknisskoðun með barnið.

Aðdragandi rannsóknarinnar

Árið 1995 létu krabbameinsfélögin á Norðurlöndunum fara fram rannsókn á afstöðu og hegðun foreldra 3 ára barna á öllum Norðurlöndunum varðandi óbeinar reykingar. Árið 2001 var þessi rannsókn endurtekin í Noregi en árið 2006 á Íslandi og var það Háskólinn á Akureyri sem gerði rannsóknina fyrir Lýðheilsustöð.

Um rannsóknirnar

Rannsóknirnar voru fóru fram á sama hátt bæði árin. Valið var handahófsúrtak 1000/1200 heimila þriggja ára barna og var það foreldri beðið að svara sem átti afmæli nær þeim degi sem spurningalistinn barst á heimilið. Um póstrannsókn var að ræða og var svarhlutfallið um 70% 1995 en 63,3% 2006. Meðalaldur var mjög svipaður bæði árin og í bæði skiptin voru mun fleiri konur sem svöruðu. Menntun var einnig svipuð. Foreldrar voru m.a. spurðir um reykingar sínar og sýndu svörin að töluvert hafði dregið úr þeim. Árið 1995 voru 23,8% heimila þar sem annað foreldri reykti en um 9,3% þar sem báðir foreldrar reyktu. Árið 2006 reykti hins vegar annað foreldri á 12,9% heimila og 7,1% báðir foreldrar.

Viðhorf

Viðhorf fólks til reykinga í návist barna höfðu breyst töluvert. Fólk var almennt mun neikvæðara til reykinga í návist barna og þátta sem því tengjast árið 2006 en 1995. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um afstöðu fólks til nokkurra fullyrðinga sem mæla viðhorf.

Þekking

Þegar þekking foreldra til óbeinna reykinga og afleiðinga þeirra var skoðuð kom í ljós að foreldrar virðast vera nokkuð vel upplýstir. Um 75% foreldra gerðu sér t.d. grein fyrir að óbeinar reykingar eiga sér stað þó reykur sé ekki sjáanlegur og um 80% vissu að óbeinar reykingar geta skaðað börn þó að þau séu ekki með astma eða öndunarfæravandamál.

Þegar foreldrar voru beðnir að tengja reykingar foreldra við ákveðin heilsufarsvandamál komu áhugaverðar niðurstöður í ljós: Fólk tengdi öndunarfæravandamál barna mun frekar við reykingar heldur en eyrnabólgu. Þar sem að sýnt hefur verið fram á tengsl óbeinna reykinga og beggja þessara vandamála hjá börnum bendir þetta til þess að fræða þurfi foreldra meira um tengsl óbeinna reykinga og eyrnabólgu. Í ljósi fjölda eyrnabólgutilfella hjá börnum ættu að gefast næg tækifæri í heilsugæslunni að ræða þessi mál.

Einnig vakti athygli að nærri 35% foreldra telja enga tengingu vera milli reykinga foreldra og þess að börn þeirra séu líklegri til að byrja að reykja. Í ljósi þess að þetta er einn stærsti áhrifaþáttur þess að börn byrja að reykja má segja að þarna skapist gott svigrúm til að fræða foreldra.

Reykingar í návist barna

Þegar reykingar í návist barna eru skoðaðar kemur í ljós að ýmislegt hefur breyst á þessum 11 árum. Árið 1995 urðu um 45% þriggja ára barna fyrir óbeinum reykingum a.m.k. einu sinni í viku. Árið 2006 er þessi tala komin niður í 10%. Þetta er mikil breyting og töluvert umfram þá minnkun sem orðið hefur á reykingum í þjóðfélaginu. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða heimili þar sem reykt er sérstaklega. Árið 1995 urðu yfir 90% barna af heimilum þar sem reykt er daglega fyrir óbeinum reykingum en árið 2006 er þetta komið niður í um 30% (sjá mynd 2). Þessar niðurstöður benda til þess að reykjandi foreldrar hafa breytt hegðunarmynstri sínu verulega og tillitsemi hefur aukist.

Hlutfall reykinga í návist 3 ára barna - einu sinni í viku eða oftar. Sjá mynd 2

Þegar skoðað er hvar börn verða fyrir óbeinum reykingum kemur enn og aftur í ljós mikil breyting frá 1995 til 2006. Fólk virðist nánast vera hætt að reykja þegar börn eru með í bíl, við sjónvarpið og við matborðið. Helst virðast börn verða fyrir óbeinum reykingum utan heimilis og á óskilgreindum stað innan heimilis (Hvar er reykt í návist barna - samanburður milli ára sjá mynd 3).

Þegar skoðað er hvað spáir best fyrir um reykingar í návist þriggja ára barna kemur í ljós að jákvæð viðhorf til reykinga í návist barna, reykingar foreldra og menntun minni en stúdentspróf spá hvað best fyrir um þetta.

Upplýsingagjöf og ráðleggingar

Þegar foreldrar voru spurðir um þær upplýsingar sem þeir höfðu fengið um óbeinar reykingar og áhrif þeirra á börn voru flestir á því máli að þeir hafi fengið nægar upplýsingar eða um 72%. Ekki má þó horfa fram hjá því að um 30% foreldra sem reykja fannst þeir ekki hafa fengið nægar upplýsingar, sem bendir til þess að enn er svigrúm til að fræða þann hóp sem á börn sem verða einna helst fyrir óbeinum reykingum.

Þegar foreldrar sem reykja voru spurðir hvort þeim hafi verið ráðlagt, í ungbarnavernd eða hjá læknum, að breyta reykingavenjum sínum vegna barna sinna voru aðeins um 20% sem sögðu svo vera. Athygli vakti að þetta hlutfall hafði ekkert breyst frá 1995 til 2006 hjá konum en hafði hækkað örlítið hjá körlum.

Samantekt

Upplýsingarnar úr þessari rannsókn geta verið hjálplegar fyrir fólk sem vinnur að tóbaksvörnum, s.s. heilbrigðisstarfsfólk í ungbarnavernd og heilsugæslu. Niðurstöðurnar benda til þess að skerpa megi á fræðslu um áhrif óbeinna reykinga á eyrnabólgu og tengingu reykinga foreldra og þess að börn byrja að reykja. Það getur verið mikilvægt í daglegu starfi í heilsugæslu að hafa þann hóp barna í huga sem helst verður fyrir óbeinum reykingum og veita þeim foreldrum upplýsingar, reyna að hafa áhrif á viðhorf þeirra og hegðun. Mikilvægt er að tala um óbeinar reykingar við alla foreldra, bjóða þeim upplýsingar, eins og bæklinginn Til foreldra – um börn og óbeinar reykingar, og bjóða foreldrum sem reykja aðstoð við að hætta.

 

Jakobína H. Árnadóttir
verkefnisstjóri tóbaksvarna

 


Fyrst birt 18.09.2006
Síðast uppfært 24.10.2017

<< Til baka