Matarskammtar fara sífellt stækkandi

Rétt og hollt mataræði byggir á eðlilegum matarskömmtum. Of stórir skammtar eða of litlir skammtar geta haft til lengri tíma áhrif á heilsu. Neytendur, sem um lengri tíma hafa verið lokkaðir til magnkaupa með fjárhagslegum gylliboðum, þurfa heilsunnar vegna að læra upp á nýtt hvað er eðlileg skammtastærð. Þessi grein er hluti af greinaflokki sem er samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og Morgunblaðsins. Í þessum greinum eru skoðuð nokkur íslensk matvæli á markaðnum og hvernig skammtastærðir hafa hafa breyst á síðustu 15-20 árum.

Á síðustu árum hefur meðvitund fólks um tengsl heilsu og mataræðis aukist mjög. Opinberir aðilar eins og Lýðheilsustöð og Manneldisráð hafa lagt áherslu á að fólk borði fjölbreytt fæði og velji sitt lítið að hverju. Fjölmargir velta fyrir sér og reyna að vera upplýstir um hvaða mat sé hollast að borða og hvernig haga skuli innkaupum og matmálstímum í samræmi við það. Sumir eru líka að gæta að aukakílóunum, aðrir ekki. En þrátt fyrir aukna fjölbreytni matvæla þá hefur meira framboð líka hliðarverkanir. Svo virðist sem samfara því hafi skammtastærðir stækkað gífurlega en því geri neytendur sér ekki alltaf góða grein fyrir. Rétt og hollt mataræði felur nefnilega líka í sér eðlilegar skammtastærðir.

Í þessari fyrstu grein af þremur um breyttar skammtastærðir matvæla fjalla Anna Sigríður Ólafsdóttir,lektor í næringarfræði við Kennaraháskóla Íslands, og Unnur H. Jóhannsdóttir blaðamaður um það hvernig og hversvegna mikilvægt er að vera meðvitaður um áhrif sístækkandi matarskammta á líf og heilsu.

Stærri Stærri

Stórir skammtar á Íslandi eru langtum minni en þeir stærstu í Bandaríkjunum en engu að síður er mikilvægt að hafa augun opin fyrir þeim mikla mun sem getur verið á hitaeiningamagni í einni máltíð eftir því hversu stórir skammtar eru valdir. Jafnvel þótt hamborgarinn sé sá sami getur orkuinnihald máltíðarinnar verið mjög mismunandi, allt eftir því hversu mikið er af frönskum og gosi. Frá minnsta skammti í þann stærsta fer hitaeiningamagnið úr 865 í 1200 kcal, en minnsti skammtur af frönskum sem við fundum var 80 g og sá stærsti 150 g og gosglasið frá 3 dl upp í 6 dl.

Meira 

Kaffibollarnir á Íslandi eru einnig hóflegri en stærstu bollarnir erlendis en stóru frauðmálin hér geta þó verið í kringum 3 dl. Til samanburðar rúmar hefðbundinn kaffibolli um 1,5 dl. Það, hversu orkuríkur sopinn verður veltur mest á því hvernig mjólk og hversu mikið magn fer í stóru bollana. Það er því vert að benda á möguleikann á að fá sér Latte með magurri mjólk til að fækka hitaeiningunum.

Þyngri Þyngri

Kleinur eru mjög breytilegar að stærð. Sú litla á myndinni er tæp 30 g (115 ha) og sú stóra um 100 g (375 ha). Kleinurnar sem við skoðuðum voru á bilinu 15-120 g. Flestir myndu samt segja "Ég fékk mér eina kleinu" – en ekki eina þrefalda!

Ljósmyndir:  Morgunblaðið/Golli

Magnið skiptir miklu máli

,,Magn fæðunnar sem við innbyrðum skiptir ekki síður máli en samsetningin, líka þegar hugað er að hollustunni," segir Anna Sigríður. Það er sama hversu hollan mat við veljum, það er hægt að fitna af öllu ef maður borðar of mikið. Það vilja flestir lifa heilsusamlegu lífi og hafa mataræði og hreyfingu í jafnvægi en það er margt í nútímanum sem gerir fólki erfitt fyrir. Líkamlegum störfum hefur fækkað og um leið þeirri hreyfingu sem þeim fylgdi í dagsins önn. Samtímis hefur fjöldi kyrrsetustarfa margfaldast. Það sem einnig hefur breyst, og blekkir auðveldlega neytandann, er að skammtastærðir ýmissa matvæla hafa stækkað og það hvetur fólk ósjálfrátt til að borða meira. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa leitt í ljós að sölueiningar af algengum neysluvörum eru í sumum tilfellum 2-5 sinnum stærri en upprunalega útgáfan.

Margar þessara vara mætti í raun og veru kalla munaðarvörur þar sem þær eru í fæstum tilvikum ríkar af næringarefnum öðrum en orku (hitaeiningum). Þar á meðal eru matvörur og drykkir sem við ættum því eingöngu að neyta í hófi, eins og t.d. súkkulaði, hamborgarar, franskar, gos og bjór."

Neytendur lokkaðir til magnkaupa

Þessa staðreynd segir Anna Sigríður ef til vill sýna best hversu sjálfsagt þykir að lokka neytendur til kaups á stórum skömmtum af neysluvörum með gylliboðum um fjárhagslegan sparnað jafnvel þótt það geti auðveldlega ýtt undir heilbrigðisvanda og augljóst megi telja að maturinn sé meiri en hæfir venjulegum maga.

"Flestir kannast við kvikmyndina "Supersize me" sem á öfgafullan hátt fjallaði um áhrif skyndibitastaðanna í Bandaríkjunum, en það eru ekki bara skyndibitastaðir sem markaðssetja sífellt stærri skammta heldur er þessi tegund markaðssetningar að ryðja sér til rúms þar sem verið er að selja hollustufæði og einnig létta rétti til megrunar. Það segir sig hins vegar sjálft að skammtastærðin hlýtur að ráða úrslitum um það hitaeiningamagn sem máltíðin eða matvaran veitir. Því stærri sem skammturinn er, því fleiri hitaeiningar inniheldur hann."

Sem dæmi tekur næringafræðingurinn mið af kaffi og kleinu. "Um 1990 var algengt að fólk fengi sér kaffi í hefðbundna heimilisbolla, ýmist svart eða með dreitli af mjólk, og litla kleinu með kaffinu og var hitaeiningafjöldinn þá um 150 kaloríur, miðað við ½ dl af nýmjólk í kaffið. Í dag grípur fólk oft Kaffi Latte og kleinu á kaffihúsi en saman innheldur það hvorki meira né minna en 575 hitaeiningar. Það er næstum því fjórfalt meiri orka í einum millibita. Það sem verra er þó er að það er allsendis óvíst að neytandinn geri sér grein fyrir þessum gríðarlega mun, sem fyrst og fremst mismunandi skammtastærð veldur." Og þar liggur án efa hluti vandans. Meiri og markvissari fræðsla myndi skila sér í því að fólk væri meðvitaðra um skammtastærðirnar og næði tökum á þeim, með hollustuna í fyrirrúmi.

Hver er orkuþörfin?

Orkuþörf einstaklinga er mismikil og fer meðal annars eftir aldri og kyni, líkamsþyngd og hreyfingu hvers og eins. Algeng orkuþörf fyrir konur sem hreyfa sig lítið er um 2000 kkal en karlar í kyrrsetustörfum brenna um 2500 kkal á dag.

Hvað er hitaeining?

Hitaeining er notuð til að skilgreina þá orku sem fæst úr fæðunni. Annað heiti fyrir hitaeiningar er kílókaloríur skammstafað kkal. Til að halda líkamsþyngdinni í jafnvægi þarf líkaminn að nota sambærilegt magn hitaeininga í vöxt, viðhald og hreyfingu og innbyrt er með matnum.

Höfundar: Anna Sigríður Ólafsdóttir lektor í næringarfræði og Unnur H. Jóhannsdóttir blaðamaður

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. febrúar 2007


Fyrst birt 01.02.2007
Síðast uppfært 24.10.2017

<< Til baka