Heilkornabrauð – holla valið

Sjá stærri mynd

Æskilegt er að landsmenn borði meira af grófum heilkorna­brauðum og öðrum heilkornavörum til að stuðla að bættri heilsu. Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði frá 2010–2011 var neysla á grófu heilkorna­brauði einungis um hálf brauðsneið á dag að meðaltali. Samnorræn vöktun á mataræði, hreyfingu og holdafari sem fram fór seinni hluta árs 2011 leiddi í ljós að Íslendingar borða minnst Norðurlandaþjóða af brauði. Hvað rúgbrauð varðar þá borða Danir og Finnar mest eða að meðaltali um 2–3 brauðsneiðar á dag.

Hvað eru heilkornavörur?
Talað er um heilkornavörur þegar allt sem var upphaflega í korninu er enn til staðar og ekkert hefur verið sigtað frá eftir mölun. Heilkornavörur geta því ýmist innihaldið heil og ómöluð korn eða fínmalað mjöl og eru þá ennþá öll næringarefni kornsins til staðar, þ.e. vítamín, steinefni, trefjar, andoxunarefni og plöntusterólar.

Mest af þessum næringarefnum er í hýði og kími sem er búið að sigta frá í hvítu hveiti og öðrum fínunnum kornvörum. Ekki er um heilkornavöru að ræða þegar hveitiklíði eða trefjum hefur verið blandað saman við hvítt hveiti.

Af hverju heilkornavörur?
Rannsóknir benda til að neysla á grófu kornmeti dragi úr líkunum á hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki af tegund 2. Grófa kornmetið veitir auk þess meiri mettunartilfinningu og fyllingu og hjálpar þannig til við að halda þyngdinni innan eðlilegra marka. Að auki hefur lengi verið vitað að trefjaríkar vörur hafa góð áhrif á meltinguna og benda rannsóknir til þess að neysla trefjaríkra vara úr jurtaríkinu dragi úr líkum á krabbameini í ristli.

Einfalt að velja hollara
Úrval af heilkornavörum, þ.m.t. heilkornabrauðum, hefur aukist mikið á undanförnum árum, sem ætti að stuðla að aukinni neyslu þeirra. Bakarar hafa þar lagt sitt af mörkum en fjöldi heilkornabrauða hefur komið á markaðinn. Brauðin eru yfirleitt merkt sem heilkornabrauð sem gerir það auðvelt að velja hollt.

Nú síðast kom á markað verðlaunabrauð Landssambands bakarameistara sem uppfyllir allar kröfur til heilkornabrauðs, en í því er heilt hveiti, bygg og rúgur og er það nú fáanlegt í mörgum bakaríum landsins. Til að mega kallast heilkornabrauð þarf að minnsta kosti helmingur þurrefnis í brauðinu að vera heilkornamjöl.

Einnig eru nú í boði brauð merkt með norræna Skráargatinu, en það merki gefur til kynna að um trefjaríka vöru sé að ræða sem í eru að minnsta kosti 25% heilkorn og að saltmagni sé stillt í hóf. Skráargatið einfaldar því holla valið.

Að ofansögðu er því ljóst að það er heilsufarslegur ávinningur af því að auka neyslu á heilkornabrauði og öðrum heilkornavörum.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir og
Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar

Ítarefni:
Grundvöllur ráðlegginga um mataræði og ráðlagðir dagskammtar næringarefna

Grein um landskönnun 2010–2011

Grein um norræna vöktun á mataræði, hreyfingu og holdafari 2011

 


Fyrst birt 26.08.2013
Síðast uppfært 06.11.2017

<< Til baka