Spurningar og svör um rafræna sjúkraskrá

Sjá stærri mynd

Rafræn sjúkraskrá gegnir lykilhlutverki í daglegu starfi heilbrigðisstarfsmanna. Lögum samkvæmt (nr. 55/2009) ber heilbrigðisstarfsmanni sem fær sjúkling til meðferðar skylda til að færa sjúkraskrá.

Sjúkraskrár skulu vera á rafrænu formi að því marki sem unnt er hverju sinni. Sjúkraskrárupplýsingar þurfa að vera tiltækar á réttum stað, á réttum tíma og til réttra aðila. Áreiðanleg skráning og aðgengilegar upplýsingar stuðla að öruggari meðferð og betri gæðum heilbrigðisþjónustu.

Rafræn sjúkraskrá samanstendur af mörgum sértækum heilbrigðisupplýsingakerfum eins og almennu sjúkraskrárkerfi, lyfjafyrirmælakerfi, rannsóknastofukerfum, myndgreiningarkerfi, skurðstofukerfi, bókunarkerfi o.fl.

  • Hvað er rafræn sjúkraskrá?
   Rafræn sjúkraskrá er safn sjúkraskrárupplýsinga (þ.m.t. lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, línurit og hljóðupptökur) um sjúkling, sem unnar eru í tengslum við meðferð hans á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns og skráðar í rafræn heilbrigðisupplýsingakerfi. Upplýsingarnar eru aðgengilegar öllum þeim meðferðaraðilum sem hafa til þess fyrirfram skilgreindan aðgang þegar þeirra er þörf innan viðkomandi stofnunar/starfstofu.
   Heilbrigðisupplýsingakerfin þurfa að standast kröfur stjórnvalda. Rafræn sjúkraskrá getur annars vegar verið staðbundin og hins vegar verið samtengd. Sjúkraskráin er staðbundin þegar sjúkraskrárupplýsingar eru eingöngu aðgengilegar á einni heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns, en samtengd þegar mikilvægar sjúkraskrárupplýsingar eru aðgengilegar rafrænt, óháð því á hvaða stofnun upplýsingarnar voru skráðar. Þannig eru mikilvægar upplýsingar um sjúkling samnýttar á milli stofnana og landshluta.

   Með samtengdri rafrænni sjúkraskrá er stuðlað að aukinni samfellu í meðferð og eftirfylgni sjúklings á hinum ýmsu þjónustustigum innan heilbrigðiskerfisins. Strangar kröfur eru gerðar varðandi upplýsingaöryggi og aðgangsstýringar að rafrænni sjúkraskrá.

   Rafræn sjúkraskrá samanstendur af mörgum sértækum heilbrigðisupplýsingakerfum eins og almennu kerfi (Journal kerfi), lyfjafyrirmælakerfi, rannsóknastofukerfum, myndgreiningarkerfi, skurðstofukerfi, bókunarkerfi o.fl.i.
  • Hvað er Hekla og heilbrigðisnet?
   Hekla er lokað og öruggt rafrænt samskiptanet (heilbrigðisnet) í eigu Embættis landlæknis. Heilbrigðisnetið er farvegur rafrænna sendinga á sjúkraskrárupplýsingum innan heilbrigðiskerfisins.

   Aðilar innan heilbrigðisþjónustu geta með Heklu haft ákveðin samskipti og miðlað upplýsingum sín á milli á öruggan og áreiðanlegan hátt. Aðgangur að Heklu er háður tilskildum leyfum og gilda um hann strangar öryggis- og verklagsreglur þar sem áhersla er lögð á öryggi og trúnað gagna. Notkun Heklu er notendum að kostnaðarlausu..
  • Hvaða upplýsingar er hægt að senda með Heklu?
   Eftirfarandi upplýsingar er meðal annars hægt að senda rafrænt með Heklu milli aðila innan heilbrigðiskerfisins:

   - Beiðni um heimahjúkrun
   - Beiðni um myndgreiningu
   - Beiðni um kennitölu nýbura
   - Bólusetningar
   - Bráðamóttökuskrá
   - Göngudeildarnótu
   - Lyfseðla
   - Lækna- og hjúkrunarbréf
   - Rauntímaupplýsingar um legur á sjúkrahúsum
   - Rauntímaupplýsingar um vöktun smitsjúkdóma
   - Skýrsla læknis um atvinnusjúkdóm
   - Tilkynning um fæðingu
   - Tilvísun TR-V lyfjaskírteini
   - Upplýsingar um legur á sjúkrahúsum til TR
   - Ýmis vottorð vegna sjúkdóma

   Auk þess fá Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) upplýsingar um reikninga vegna afsláttarkorta með Heklu. Notendur heilbrigðisþjónustu þurfa því ekki lengur að safna saman útprentuðum reikningum og gera sér ferð til SÍ til að öðlast afslátt.

   Hekla er einnig notuð við sendingar sem tengjast Lyfseðlagáttinni. Embætti landslæknis er eigandi að Heklu heilbrigðisneti og áhersla er lögð á að nýta Heklu til frekari miðlunar upplýsinga innan heilbrigðiskerfisins. Aðilar í heilbrigðisþjónustu sem nota Heklu þurfa ekki að greiða fyrir þjónustuna.
  • Hvað er rafrænn lyfseðill?
   Læknar gefa út lyfseðla. Rafrænn lyfseðill er lyfseðill sem sendur er á rafrænan og öruggan hátt frá lækni til lyfjabúðar. Til að senda rafrænan lyfseðil þarf læknir að hafa aðgang að rafrænu sjúkraskrárkerfi.

   Það er Hekla, sem er lokað og öruggt rafrænt samskiptanet (heilbrigðisnet) í eigu Embættis landlæknis sem sér um að miðla þeim upplýsingum sem eru á lyfseðlinum yfir til lyfjabúðarinnar. Sjúklingur getur valið hvort læknir sendi lyfseðilinn í fyrirfram ákveðna lyfjabúð, sem sjúklingur tiltekur, eða í lyfseðlagáttina. Lyfseðlagáttin geymir rafræna lyfseðilinn þar til afgreiðslumaður lyfjabúðar sækir lyfseðilinn til afgreiðslu. Ef lyfseðill er sendur í eina ákveðna lyfjabúð getur einungis lyfjaafgreiðslumaður þeirrar lyfjabúðar séð lyfseðilinn í lyfseðlagáttinni. Hins vegar geta allar lyfjabúðir nálgast lyfseðilinn til afgreiðslu ef lyfseðillinn er sendur án þess að vera merktur tiltekinni lyfjabúð.

   Þegar búið er að afgreiða lyfseðilinn er hann sendur aftur í lyfseðlagáttina þar sem hann er dulkóðaður. Ekki er hægt að nálgast hann aftur frá neinni lyfjabúð og lyfseðlinum er eytt úr gáttinni 30. dögum síðar. Undantekning eru fjölnota lyfseðlar, en þá er hægt að nálgast þar til búið er að afgreiða síðustu ávísun þeirra. Ósóttum lyfseðlum er eytt þegar þeir falla úr gildi í samræmi við reglugerð um lyfseðla nr. 111/2001.

   Mikil áhersla er lögð á öryggismál er varða rekstur og hýsingu rafræna lyfseðlakerfisins. Allar uppflettingar í gáttina eru skráðar og getur eftirlitsaðili þannig fylgst með þeim uppflettingum sem ekki leiða til afgreiðslu lyfseðils og gert viðeigandi ráðstafanir komi í ljós óeðlilegar uppflettingar. Sérstakar verklagsreglur gilda varðandi notkun lyfseðlagáttarinnar..
  • Hvaða heilbrigðisupplýsingakerfi eru mest notuð á Íslandi?

   Saga.

   Saga er íslenskt sjúkraskrárkerfi framleitt og viðhaldið af TM Software í nánu samstarfi við Embætti landlæknis. Meðal notenda eru öll sjúkrahús og heilsugæslustöðvar landsins auk fjölmargra sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

   Diana.

   Diana er íslenskt kerfi framleitt og viðhaldið af Advania. Meðal notenda eru Reykjalundur og Heilsustofnun NLFÍ. Frekari upplýsingar á http://www.advania.is/hugbunadur-og-lausnir/serlausnir/diana/

   ProfDoc.
   ProfDoc er norrænt sjúkraskrárkerfi framleitt af CompuGroup Medical og dreift af Skræðu. Meðal notenda eru sjálfstætt starfandi sérfræðingar á Domus Medica. Frekari upplýsingar á http://sjukraskra.is/.
  • Hvað eru miðlægar lyfjaupplýsingar?
   Þegar sjúklingur fær ávísað lyfi frá lækni getur það verið með rafrænum lyfseðli, pappírslyfseðli eða símsendum lyfseðli. Eins og staðan er í dag eru sjúkraskrárkerfi ekki samtengd, nema innan heilbrigðisumdæma. Læknir getur því ekki séð lyfjaávísanir þeirra lækna sem starfa utan heilbrigðisumdæmisins.

   Það getur ógnað öryggi sjúklinga þar sem mörg lyf eru þannig að ekki er ráðlegt að taka þau saman vegna ýmissa milliverkana. Því er mikilvægt að læknir hafi heildstætt yfirlit yfir lyfjameðferð sinna sjúklinga. Þegar læknir gefur út lyfseðil er upplýsingum um bæði ávísuð og afgreidd lyf safnað í lyfjagagnagrunn Embættis landlæknis.

   Áformað er að læknar geti skoðað lyfjasögu sjúklinga sinna síðustu þrjú ár rafrænt. Í fyrsta áfanga mun læknir einungis sjá yfirlit yfir útgefna og afgreidda rafræna lyfseðla og hægt verður að ógilda lyfseðla sem ekki falla að núverandi lyfjagjöf sjúklingsins. Í síðari áfanga mun læknir geta séð öll ávísuð og afgreidd lyf sinna sjúklinga yfir þriggja ára tímabil.

   Undirbúningur er hafinn að því að einstaklingar geti sjálfir séð sína lyfjasögu. Yfirlitið mun ná yfir öll ávísuð og afgreidd lyf síðastliðin þrjú ár. Stefnt er að því að einstaklingar geti séð eigin lyfjasögu við árslok 2013. Skilyrði fyrir aðgangi lækna verða rafræn skilríki sem sérstaklega eru gefin út fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Skilyrði fyrir aðgangi einstaklinga verða rafræn skilríki sem eru á debetkortum. Aðgangur einstaklinga mun verða í gegnum Island.is.
  • Hvar get ég nálgast upplýsingar úr minni sjúkraskrá?
   Samkvæmt 14. gr. laga um sjúkraskrár nr.55/2009 á sjúklingur rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta. Einnig á sjúklingur rétt á að fá afrit af eigin sjúkrasrká ef hann óskar þess. Sjúklingur á hins vegar ekki rétt á að fá afhentar sjúkraskrárupplýsingar sem hafðar eru eftir öðrum en honum sjálfum, nema með samþykki þess sem veitti upplýsingarnar. Beiðni um aðgang að eigin sjúkraskrá skal beina til umsjónaraðila sjúkraskrár á þeirri heilbrigðisstofnun/starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns sem sjúklingur fékk þjónustu hjá.

   Auk þess á sjúklingur rétt á að fá upplýsingar um það hverjir hafa opnað sjúkraskrá hans, hvar, hvenær og í hvaða tilgangi. Rafrænn aðgangur einstaklinga að eigin upplýsingum um bólusetningar hefur verið til staðar frá árinu 2010. Upplýsingarnar eru skráðar rafrænt í bólusetningaskrá Embættis landlæknis og geta einstaklingar nálgast sínar upplýsingar og nú einnig barna sinna, með því að fara á Island.is.

   Bólusetningaupplýsingar frá því fyrir árið 2010 hafa ekki verið færðar rafrænt inn í gagnagrunninn. Embætti landlæknis vinnur nú að því að veita einstaklingum rafrænan og öruggan aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum í auknum mæli. Stefnt er að því að aðgangur að eigin lyfjaupplýsingum verði komið á undir árslok 2014. Einnig er fyrirhugað að einstaklingar geti nálgast eigin upplýsingar um skráð ofnæmi, komur og innlagnir, greiningar og úrlausnir svo eitthvað sé nefnt. Auk þess munu einstaklingar sjálfir geta fylgst með því hver opnaði sjúkraskrá þeirra, hvar og hvenær. Notkun rafrænna skilríkja verður skilyrði fyrir því að einstaklingar geti nálgast eigin sjúkraskrárupplýsingar rafrænt. Eigin heilbrigðisupplýsingar verða aðgengilegar með því að fara á Island.is og nota rafræn skilríki.
  • Hvað eru vefbókanir (rafrænar tímabókanir)?
   Með vefbókun (rafrænni tímabókun) gefst notendum heilbrigðisþjónustu færi á að bóka sjálfir tíma hjá lækni, hjúkrunarfræðingi eða ljósmóður með notkun netsins. Vefbókanir stuðla að auknum tímasparnaði þar sem hægt er að bóka tíma hvar og hvenær sem er, óháð því hvenær skiptiborð viðkomandi stofnunar er opið. Auk þess er komist hjá langri bið eftir að ná símasambandi. Aukin hagræðing felst einnig í vefbókunum þar sem slíkt fyrirkomulag léttir einnig á þjónustu móttökuritara.

   Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisstofnun Blönduóss eru meðal þeirra aðila sem bjóða upp á vefbókanir fyrir skjólstæðinga sína. Stefnt er að því að sem flestar stofnanir sem sinna heilbrigðisþjónustu á Íslandi bjóði upp á vefbókanir í nánustu framtíð..

Fyrst birt 16.04.2015
Síðast uppfært 28.08.2017

<< Til baka