Norræn vöktun á mataræði, hreyfingu og holdafari

Haustið 2011 stóð Embætti landlæknis ásamt sérfræðingum frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð fyrir fyrstu samnorrænu könnuninni á mataræði, hreyfingu og holdafari. Nú er því í fyrsta sinn hægt að bera saman niðurstöður milli Norðurlanda á öllum þessum þáttum.

Könnunin er liður í aðgerðaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um bætta heilsu og lífsgæði með næringu og hreyfingu (A better life through diet and physical activity).

Könnunin gefur svör við spurningum eins og í hvaða landi íbúarnir sem borða mest af brauði, flestar fiskmáltíðir eða mest af sælgæti? Einnig hverjir hreyfa sig mest og hverjir verja mestum tíma í kyrrsetu fyrir framan tölvur. Það var DTU Födevareinstituttet í Danmörku sem stýrði könnuninni en fyrirtækið MASKÍNA sá um gagnasöfnun hér á landi. Verkefnið er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni.

Yfir 11.500 manns á Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð voru spurðir um tíðni neyslu þeirra á völdum fæðutegundum, hreyfivenjur og hæð og þyngd. Sami spurningalisti var notaður í löndunum fimm og því eru niðurstöðurnar samanburðarhæfar á milli landanna.

Of lítið af grænmeti og ávöxtum en of mikil sætindi

Í öllum löndunum er mataræði þátttakenda og hreyfivenjur langt frá markmiðunum sem sett eru fram í norrænu aðgerðaáætluninni.

Að mati sérfræðinganna borða milli 9 og 24% fullorðinna í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í áætluninni, en aðeins um 8% barna. Danir og Norðmenn standa sig betur en hin löndin hvað þetta varðar en Svíar síst. Konur borða almennt hollari mat en karlar.

Á Norðurlöndunum borða menn almennt of lítið af grænmeti og ávöxtum og of mikið af sætindum. Þetta á við um bæði fullorðna og börn. Ávaxta og græmetis er neytt um 2,5-3,5 sinnum á dag en ráðlagt er að neyta 500 gramma eða 5 skammta á dag. Sykurríkra fæðutegunda er neytt oftar en fjórum sinnum í viku. Þegar kemur að neyslu á fiski er mikill munur á milli landanna en þar hafa Íslendingar og Norðmenn vinninginn en Danir reka lestina. Um 66% Íslendinga borða að minnsta kosti tvær fiskmáltiðir í viku en einungis 26% Dana.

Íslendingar borða minnst af brauði

Íslendingar borða langminnst af öllu brauði en Danir og Finnar borða mest af rúgbrauði. Algengasta viðbitið í öllum löndunum er smjör-olíublanda. Á Íslandi, Svíþjóð og Noregi velja um 20% léttsmjörlíki en um 40% Dana nota ekki viðbit á brauð en 14% Íslendinga sleppa því. Íslendingar eru hins vegar duglegastir að nota olíu við matargerð, en um 80% gera það samanborið við 30% Svía. Svíar borða oftar pylsur en gert er á hinum Norðurlöndunum og Íslendingar skora hæst hvað varðar neyslu sykurríkra fæðutegunda en Svíar lægst.

Á Íslandi er hærra hlutfall fullorðinna sem teljast of feitir en á hinum Norðurlöndunum, en enginn munur hvað þetta snertir fannst milli barna.

Stór hluti fullorðinna og barna stunda ekki ákjósanlega hreyfingu

Í könnuninni eru þátttakendur einnig spurðir um hreyfivenjur sínar og setu við skjá í frítíma. Samkvæmt niðurstöðunum uppfylla um 67% fullorðinna Norðurlandabúa ráðleggingar um lágmarkshreyfingu en þar af uppfylla aðeins um 13% viðmið um ákjósanlega hreyfingu. Finnar og Svíar eru almennt duglegastir að hreyfa sig en hlutfall þeirra sem stunda enga hreyfingu er hæst á Íslandi eða rúm 14%. Samkvæmt þessum niðurstöðum uppfylla um 65% fullorðinna Íslendinga viðmið um lágmarkshreyfingu og þar af stunda rúm 11% ákjósanlega hreyfingu. Skjáseta í frítíma mældist mest á meðal Norðmanna en minnst á meðal Íslendinga og Svía.

Heilt yfir uppfyllir innan við helmingur norrænna barna á aldrinum 7-12 ára ráðleggingar um hreyfingu. Finnsk og íslensk börn eru duglegust að hreyfa sig en samkvæmt könnuninni hreyfa tæp 52% íslenskra barna á umræddum aldri sig í samræmi við ráðleggingar. Algengast er að norræn börn verji um 2-3 tímum af frítíma sínum daglega í kyrrsetu við skjá en um fimmtungur ver 4 tímum eða meira á dag í slíka iðju.

Endurteknar kannanir sýna þróunina

Könnunin sýnir stöðuna eins og hún var á Norðurlöndunum fyrir ári síðan og þjónar sem mikilvæg grunnkönnun. Þegar könnunin verður endurtekin árið 2014 verður mögulegt að sína hvernig neyslu- og hreyfivenjur hafa þróast og þar með hvort þróunin stefni í rétta átt á þessum sviðum. Þessi könnun getur þó ekki leyst af hólmi ítarlegri landskannanir á mataræði og hreyfivenjum en er góð viðbót við þær.

Lesið meira:

Samantekt (PDF)

Skýrslan með niðurstöðum: Nordic monitoring of diet, physical activity and overweight. First collection of data in all Nordic Countires 2011 (PDF)

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjóri næringar
holmfridur@landlaeknir.is

Gígja Gunnarsdóttir
verkefnisstjóri hreyfingar
gigja@landlaeknir.is

 


Fyrst birt 15.11.2012
Síðast uppfært 03.11.2017

<< Til baka