Nýjar norrænnar ráðleggingar um næringarefni, NNR5, til umsagnar

Tillögur að 5. útgáfu Norrænu ráðlegginganna um næringarefni (Nordic Nutrition Reccomendations NNR5) eru nú tilbúnar og er sérfræðingum og öðrum áhugasömum boðið að gera athugasemdir við fyrsta hluta þeirra. Tillögurnar voru unnar af vinnuhópi á vegum Norrænu embættismannanefndarinnar um matvæli (Nordic Committee of Senior Officials for Food Issues, EK-FJLS) sem tilnefnt var í árið 2009.

Aðaláhersla hefur verið lögð á þau svið þar sem ný vísindaleg þekking hefur komið fram. Kerfisbundið yfirlit (Systematic review) var gert fyrir næringarefni eða svið næringarfræðinnar ef ný gögn sem teljast mikilvæg fyrir NNR hafa komið fram á þeim tíma sem liðinn er frá síðustu útgáfu (NNR 2004). Einfaldari fræðileg endurskoðun var gerð fyrir önnur næringarefni.

Fyrsta hluta tillagnanna er hægt að nálgast á www.nnr5.org

Ítarleg endurskoðun
Rúmlega 100 sérfræðingar hafa tekið þátt í endurskoðun norrænu ráðlegginganna frá 2004. Sérfræðingarnir hafa yfirfarið fyrirliggjandi vísindaleg gögn sem eru nauðsynleg til að setja næringarfræðileg viðmiðunargildi (dietary reference values) til að tryggja sem besta næringu og til að draga úr líkum á lífsstílstengdum sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum, beinþynningu og ákveðnum tegundum krabbameina, sykursýki af tegund 2, offitu og tengdum áhættuþáttum.

Sérfræðingarnir lögðu í þessu skyni mat á áhættu og ávinning svo og tengsl matarvenja, fæðutegunda og næringarefna við heilsutengda þætti. Ritrýnar með viðeigandi vísindalega þekkingu tóku einnig þátt í ferlinu, yfirfóru og gerðu athugasemdir við kerfisbundna yfirlitið og endurskoðun sérfræðinganna.

Kerfisbundna yfirlitið auk einfaldari fræðilegrar endurskoðunar í sumum tilfellum mynda grunninn sem viðmiðunargildin byggja á. Þessi næringarfræðilegu viðmiðunargildi eru metin og sett af vinnuhópi Norrænu embættismannanefndarinnar og er það verkefni aðskilið frá vinnu sérfræðihópanna við kerfisbundna yfirlitið og endurskoðunina.

Samráð í þrepum
Almenningi gefst kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri og verður það ferli unnið í þrepum þar sem bakgrunnsefni og tillögur að nýjum norrænum ráðleggingum um næringarefni fyrir hin ýmsu næringarefni og svið næringarfræðinnar verða birt í nokkrum áföngum.

Fyrsti hluti samanstendur af köflum um eftirfarandi næringarefni eða svið næringarfræðinnar:

Salt (Natríumklóríð)Vítamínin C, E og KSteinefnin flúor, joð, kalíum, kopar og selenVökva og vatnsjafnvægiAndoxunarefni úr fæðunni

Lagt er til að flestar ráðlegginganna í 4. útgáfu frá 2004 haldist óbreyttar. Hins vegar hefur ráðlagður dagsskammtur, RDS, fyrir selen (þ.e. fyrir fullorðna) verið hækkaður úr 40 í 50 míkrógrömm/dag fyrir konur og úr 50 í 60 míkrógrömm/dag fyrir karla og úr 50 í 55 míkrogrömm/dag fyrir barnshafandi konur og konur með börn á brjósti.

Tímafrestur
Athugasemdum við vísindalega eða tæknilega þætti úr fyrsta hlutanum á að skila fyrir 26. nóvember 2012 á rafrænum eyðublöðum sem nálgast má á www.nnr5.org.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnsstjóri

 


Fyrst birt 01.11.2012
Síðast uppfært 01.11.2012

<< Til baka