Heilkorn, hnetur og fæðutrefjar stuðla að jafnvægi í þyngd

Fæðuval virðist mikilvægara þegar holdafar er annars vegar heldur en hlutfallsleg skipting orkuefnanna (þ.e. kolvetna, fitu og próteina). Ef fæðuvalið einkennist af ríflegri ávaxta- og grænmetisneyslu, neyslu heilkornaafurða og í sumum tilfellum fiski og mjólk eru minni líkur á þyngdaraukningu eða aukningu mittismáls.

Þetta eru niðurstöður úr kerfisbundnu yfirliti (systematic review) um mataræði og þyngdarbreytingar, en vinnan var hluti af undirbúningsvinnu fyrir nýjar norrænar ráðleggingar um fæðuval og næringarefni. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Food and Nutrition Research nýlega. Höfundar greinarinnar eru þau Mikael Fogelholm, prófessor við Háskólann í Helsinki, Sigmund Anderssen, prófessor við Íþróttaháskólann í Osló, Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands (Gsm: 891 7017, netfang: ingigun@hi.is), og Marjaana Lahti-Koski frá finnsku Hjartasamtökunum.

Heilkorn, hnetur og fæðutrefjar voru þeir einstöku fæðuþættir sem reyndust verndandi í flestum rannsóknum. Hins vegar ýtir rífleg neysla á kjöti, sælgæti og öðrum sætindum, fínunnum kornvörum og almennt orkuþéttum mat undir þyngdaraukningu eða aukið mittismál. Ekkert var hægt að álykta um tengsl hlutfallslegrar skiptingar orkuefnanna í fæði og langtíma þyngdarbreytinga eða breytinga á ummáli mittis þar sem rannsóknaniðurstöður voru misvísandi.

Einungis voru dregnar ályktanir af rannsóknum þar sem þátttakendum var fylgt eftir í a.m.k. eitt ár. Með þessu er lögð áhersla á að skýra langtímaáhrif mataræðis með tilliti til þyngdarbreytinga eða breytinga á mittismáli meðal fullorðinna einstaklinga (18–70 ára).

Drög að fimmtu útgáfu Norrænu næringarráðlegginganna 2012 (NNR5 2012) voru kynnt á 10. Norrænu næringarfræðiráðstefnunni sem haldin var í Reykjavík 3.– 5. júní síðastliðinn. Í tillögunum er áhersla lögð á mataræðið í heild auk þess sem birtar eru ráðleggingar um neyslu vítamína og steinefna. Frekari upplýsingar um NNR5 2012 er að finna í frétt frá 6. júní 2012.

Sjá ofannefnda grein: Dietary macronutrients and food consumption as determinants of long-term weight change in adult populations: a systematic literature review.

 

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
næringarfræðingur

 


Fyrst birt 22.08.2012
Síðast uppfært 03.11.2017

<< Til baka