Nýjar norrænar ráðleggingar – áhersla á mataræðið í heild

Á 10. Norrænu næringarfræðiráðstefnunni sem haldin var í Reykjavík 3.– 5. júní 2012 voru drög að fimmtu útgáfu Norrænu næringarráðlegginganna 2012 (NNR 2012) kynntar.

Í tillögunum er áhersla lögð á mataræðið í heild auk þess sem birtar eru ráðleggingar um neyslu vítamína og steinefna. Lögð er áhersla á mataræði og neyslu næringarefna sem, ásamt nægjanlegri og fjölbreyttri hreyfingu, er ákjósanlegt fyrir þroska og starfsemi líkamans og stuðlar að því að draga úr áhættu vissra næringartengdra sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, offitu, sykursýki af tegund 2, krabbameini og beinþynningu.

Það er mikilvægt að hafa í huga að NNR eru fyrst og fremst ætlaðar fyrir hópa heilbrigðra einstaklinga en ekki til að meta einstaklingsbundna neyslu.

Eftir ítarlega endurskoðun, þar sem sérfræðingar hafa yfirfarið margar vísindagreinar, eru flestar ráðleggingar úr fjórðu útgáfu (2004) óbreyttar. Meiri áhersla er lögð á gæði fitu og kolvetna og uppruna þeirra úr fæðunni. Ekki eru gefnar sérstakar ráðleggingar um heildarmagn kolvetna og fitu í NNR 2012. Í staðinn koma ráðleggingar um mettaðar-, einómettaðar- og fjölómettaðar fitusýru og transfitusýrur, fæðutrefjar og viðbættan sykur.

Ráðlagt mataræði
Mælt er með mataræði sem inniheldur mikið af trefjaríkum mat úr jurtaríkinu (t.d. dökkgrænu blaðgrænmeti, káli, lauk, baunum og ertum, rótargrænmeti, ávöxtum og berjum, hnetum og heilkornavörum), þar sem fiskur og sjávarafurðir eru oft á borðum. Þá er mælt er með því að nota jurtaolíur, velja frekar fituminni en fitumeiri mjólkurvörur og takmarka saltneyslu (NaCl). Með þessu mataræði er minni hætta á flestum fæðutengdum langvinnum sjúkdómum.

Ef orkuríkar fæðutegundir sem innihalda lítið af nauðsynlegum næringarefnum og trefjum, eins og sykraðir drykkir, sætar bakarísvörur eða sælgæti, fínunnar kornvörur og fita á föstu formi (t.d. smjör), eru á hinn bóginn ríkur þáttur neyslunnar eykst hættan á langvinnum sjúkdómum og þyngdaraukningu. Einnig getur mikil neysla á unnum kjötvörum og rauðu kjöti (þ.e. nauta-, svína- og lambakjöt) aukið líkur á neikvæðum heilsufarsáhrifum og langvinnum sjúkdómum.

Nýja útgáfan, NNR2012, er niðurstaða langrar og árangursríkrar norrænnar samvinnu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Vinnunni hefur verið stjórnað af norrænum vinnuhópi og meira en 100 sérfræðingar hafa tekið þátt í endurskoðuninni.

Aðaláherslan hefur verið lögð á þau svið þar sem ný vísindaleg þekking hefur komið fram. Kerfisbundið mat vísindagreina um rannsóknir á næringarefnum og matvælum hefur verið notað við gerð NNR2012. Sérstaklega hefur verið fjallað um þau næringarefni eða svið næringarfræðinnar þar sem álitið er að komið hafi fram mikilvægar upplýsingar sem styðja breyttar ráðleggingar frá síðustu útgáfu. Einfaldari endurskoðun var gerð fyrir önnur næringarefni.

Endurskoðun NNR2012 er gegnsætt ferli. Drög að tillögunum eru kynnt jafnvel þó að ekki hafi verið lokið við kerfisbundið mat fyrirliggjandi gagna og vinnu við uppfærslur.

Umsagnir og samþykkt
Opnað verður fyrir umsagnir um ráðleggingarnar í september-október 2012 þegar vinnu við öll bakgrunnsskjöl er lokið og þau hafa verið gerð aðgengileg. Norræna ráðherranefndin mun formlega samþykkja norrænu næringarráðleggingarnar haustið 2012.

Íslendingar hafa tekið þátt í þessari vinnu og hafa Inga Þórsdóttir prófessor (GSM: 824 5520) og Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor (GSM: 8917017), á Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla íslands, átt sæti í vinnuhópi NNR og fjöldi annarra íslenskra sérfræðinga hefur tekið þátt í starfinu.

Í framhaldinu verða síðan íslensku ráðleggingarnar um mataræði og næringarefni teknar til endurskoðunar.

Nánari upplýsingar um norrænar næringarráðleggingarnar 2015 (á ensku)

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
næringarfræðingur

 


Fyrst birt 06.06.2012
Síðast uppfært 03.11.2017

<< Til baka